19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

1. mál, fjárlög 1984

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er yfirlýst markmið ríkisstj. að fjárlög næsta árs séu raunhæf. Eina virkilega raunhæfa niðurstaðan sem komist verður að nú er hins vegar sú að það verður halli á ríkisbúskapnum á næsta ári. Sá halli hlýtur að leiða til meiri verðbólgu en ríkisstj. hefur boðað á næsta ári og sú niðurstaða er ekkert annað en svik við allt það fólk sem var reiðubúið til að leggja sitt af mörkum, leggja á sig miklar þrengingar til að ná niður verðbólgunni.

Ég hef margoft í umr. hér á Alþingi látið í ljós efasemdir um að grunnurinn sem þetta fjárlagafrv. er byggt á sé nægilega traustur. Það er nú komið í ljós að forsendur tekjuhliðar þess fá ekki staðist. Horfur og tillögur um minni fiskafla en áður var spáð breyta stöðunni til hins verra. Um það verður ríkisstj. ekki beinlínis kennt, ekki þessari ríkisstj. a.m.k., þótt flestir sem hana skipa beri sína ábyrgð á því hvernig nú er komið. Stór hluti þess vanda sem nú blasir við okkur er afleiðing rangrar stefnu undanfarinna ára, hömlulausrar sóknar í dýrmætustu fiskstofna okkar og fyrirhyggjulausrar fjárfestingar í fiskiskipum. Sú mynd sem við okkur blasir er ekki fögur, minnkandi þjóðarframleiðsla og tekjurýrnun, áframhaldandi viðskiptahalli og versnandi skuldastaða og enn eru ekki að fullu komin fram áhrifin af aðgerðum ríkisstj. í launamálum. Mín skoðun er sú, að samdráttur í einkaneyslu vegna minnkandi kaupmáttar eigi eftir að skekkja dæmið meira en séð verður af því frv. sem hér er til 3. umr., hafa enn meiri áhrif á allar veltustærðir í tekjuáætlun fjárlaga. Vonandi er ég þó verri spámaður en þeir vísu menn sem reiknað hafa eftir forskrift núv. ríkisstj.

Það er út af fyrir sig jákvætt að þær tölur sem sjá má tekjumegin í þessu frv. lýsa töluverðri bjartsýni stjórnvalda á því að ástandið verði betra en tilefni virðist til um þessar mundir, og ef þau hyggjast vinna að því með einhverjum ráðstöfunum, sem ekki hafa enn verið kynntar, er ekkert nema gott um það að segja svo framarlega sem ekki verður frekar ráðist að lífskjörum láglaunafólks. Það er svo e.t.v. óhófleg bjartsýni mín að láta slíkt í ljós eftir allt sem á undan er gengið. En lengi má mennina reyna.

Þetta frv. til fjárlaga fyrir árið 1984, sem nú er til 3. umr., er á margan hátt dapurlegt plagg. Úr því má lesa verðmætamat núv. ríkisstj. og afstöðu hennar til þeirra mála sem svo mjög varðar daglegt líf og velferð atmennings. Við 2. umr. ræddi ég sérstaklega um þrjá málaflokka sem mér þykir lítill sómi sýndur af þeim sem ráða ferðinni í ríkisbúskapnum. Það eru byggingar dagvistarheimila, skóla og sjúkrastofnana.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka orð mín þá, en erfitt var að sitja undir atkv. um brtt. minni hl., einu brtt. sem minni hl. flutti, um hækkun á framlagi ríkisins til byggingar dagvistarheimila. Hvert einasta nei verkaði sem hnefahögg. Aukið dagvistarrými hefur verið baráttumál kvenna um áratugi og meðal forgangsmála hvert sinn sem þær setjast að samningaborði til að fá kjör sín bætt. Afstaða stjórnarflokkanna til þessa mikla hagsmunamáts gleymist ekki.

Við 2. umr. ræddi ég einnig um þær hugmyndir sem heyrst hafa til sparnaðar í heilbrigðis- og tryggingamálum. Það er nú komið í ljós, sem margir óttuðust, að hugmyndir um gjaldtöku af sjúklingum á sjúkrahúsum eiga sér einhvern hljómgrunn innan stjórnarflokkanna. Eftir allt hjalið um siðleysi í sambandi við álag á ferðamannagjaldeyri, sem var afnumið með brbl. á s.l. sumri, eru nú ýmsir slegnir siðblindu þegar þjónusta við sjúka er annars vegar. Og menn spyrja sig þessa dagana: Er e.t.v. ætlunin að nota jólaleyfi þm. til að setja brbl. um gjaldtöku fyrir sjúkrahúsþjónustu? Ég vil ekki ætla neinum svo illt. En ég er áreiðanlega ekki ein um að hafa orðið vör við miklar áhyggjur almennings út af þessum sjúklingaskatti, sem svo er kallaður, og ótta við að honum verði skellt á eftir áramótin. Ófrísk kona spyr hvort hún verði látin borga fyrir sængurleguna í febrúar. Önnur hefur áhyggjur af því að aðgerð sem frestaðist í haust verði nú aldrei framkvæmd því hún hafi ekki efni á því að liggja á sjúkrahúsinu. Austfirðingur spyr hvort fólki utan af landi sé það ekki nógu þungbært að þurfa að greiða þúsundir króna í fargjald til að komast í aðgerð á Landspítalanum þótt ekki verði farið að plokka af því peninga fyrir matnum þar.

Ég ætla ekki að tefja þessa umr. með fleiri dæmum. Þetta mál kemur að sjálfsögðu til meðferðar hér á sínum tíma, ef ráðamenn gera alvöru úr því að reyna þessa leið. Gegn því verður að berjast af fullri einurð. Ég er hins vegar ekki í vafa um að spara má í rekstri sjúkrahúsanna með margvíslegri hagræðingu, jafnvel án þess að það bitni á þjónustu við sjúklingana. Margar till. í þá átt eru í athugun og vel þess virði að reyna þær, þótt ég efist hins vegar um að unnt verði að ná fram öllum þeim sparnaði sem til er ætlast.

En ég vil ekki skilja við heilbrigðismálin án þess að minnast á þann þátt sem mestum sparnaði skilar þegar allt kemur til alls. Þá á ég við forvarnarstarf af ýmsu tagi, leit að sjúkdómum á byrjunarstigi, fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðir. Um þetta tel ég að við séum nokkuð sammála í fjvn. og hefðum viljað styðja betur við starfsemi af þessu tagi. Sem dæmi um leit að sjúkdómum á byrjunarstigi má nefna það stórmerka starf sem unnið hefur verið af Krabbameinsfélagi Íslands við leit að leghálskrabbameini með þeim árangri að meira en 60% minnkun hefur orðið bæði á tíðni og dánartíðni sjúkdómsins. Árangur hérlendis hefur vakið slíka athygli út um heim að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur valið Ísland sem fyrirmyndarland í verkefninu „Útrýming leghálskrabbameins“. Krabbameinsfélagið hefur sett sér það markmið að engin íslensk kona deyi af völdum leghálskrabbameins árið 2000. Með þeirri upphæð sem fjvn. leggur til að Krabbameinsfélagið fái nú ætti að vera tryggt nægilegt fjármagn til þessa verkefnis á næsta ári. Þessari niðurstöðu fagna ég sérstaklega.

Fræðsla er einnig afar mikilvægur þáttur í fyrirbyggjandi aðgerðum á sviði heitbrigðismála og þann þátt þarf að efla miklu meira en fjárveiting næsta árs gefur tilefni til. Má þar nefna fræðslu um getnaðarvarnir og kynsjúkdóma, umferðarmál, fíkniefni, mataræði og margt fleira sem stuðlar að heilbrigði og sjúkdómsvörnum. Á vegum landlæknisembættisins er unnið að útgáfu efnis af þessu tagi og nemar í læknis- og hjúkrunarfræðum hafa farið í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og miðlað þekkingu til unglinga. Þessa starfsemi ber að styðja og efla og koma henni víðar út um landið. Sú fjárveiting sem landlæknisembættið fór fram á í þessu skyni var ekki há eða aðeins sem samsvarar rúmlega helmingi þeirrar upp hæðar sem það kostar að reka eitt sjúkrarúm á ári. Ég fæ ekki varist þeirri hugsun að margir, sem þurfa á slíku rúmi að halda, hefðu komist hjá því ef þeir hefðu notið fræðslu fyrr og betur um þá þætti sem valda sjúkdómum þeirra. Sú upphæð, sem landlæknisembættinu er veitt núna, er skref í þessa átt, en aðeins skref. Á þessu sviði er gífurlega mikið óunnið og það er nauðsynlegt að efla skilning meðal manna á gagnsemi slíkrar starfsemi. Það þyrftu t.d. ekki eins margir á hjartaaðgerð að halda ef þeir tækju tillit til og forðuðust þá umhverfisþætti sem vitað er að eru virkir orsakavaldar hjartasjúkdóma, eins og t.d. tóbak.

Það er reyndar ekki ástæða til að tína fleiri einstaka liði út úr frv. á þessu stigi máls. Ég vil aðeins vekja athygli á því að staða B-hluta fyrirtækja ríkisins er ærið misjöfn. Munar þar að sjálfsögðu mest um gróflegar gjaldskrárhækkanir einstakra stofnana á þessu ári, svo sem Pósts og síma sem ekki mun draga úr umsvifum á næsta ári, heldur auka þau, og Ríkisútvarpsins sem fengið hefur þegar 94% hækkun afnotagjalda á þessu ári. Sé miðað við tímabilið frá 1. september 1982 til 1. september 1983 nam hækkun afnotagjaldanna 117% á þeim tíma.

Án þess að ég sé að deila á þessar stofnanir sérstaklega vil ég í þessu sambandi minna á nauðsyn þess að rekstur stofnana og fyrirtækja á vegum ríkisins sé í stöðugri endurskoðun. Ég vil ítreka það sem ég sagði við 1. umr. um þessi mál, að sú aðferð sem einkum er notuð við gerð fjárlaga er meingölluð því hún beinlínis refsar fyrir sparnað. Þegar ákvörðuð eru framlög til stofnana og rn. er vitanlega reynt að taka tillit til óska og þarfa viðkomandi, en þá gildir svipuð regla og hjá þeim sem slá í bönkum. Þeir biðja venjulega um helmingi meira en þeir þurfa því reynslan hefur kennt þeim að upphæðin verður skorin niður. Ef einhver stofnun eða rn. beitir ýtrasta sparnaði í rekstri er þeim refsað á næsta ári með því að fá svipaða framreiknun og sú stofnun sem eyddi um efni fram. Þau fá bara að heyra: Sko, þetta gátuð þið í ár. Þið þurfið þá ekki heldur meira núna. Ekki hvetur þetta til ráðdeildar. Atgengara er vafalaust að stjórnendur stofnana biðji um hæstu upphæðir sem þeir þora að nefna og reyni síðan eftir megni að verja beiðnir sínar. Það er nauðsynlegt að endurskoða fastar fjárveitingar miklu oftar en gert er og helst allan fjárlagagrunninn reglulega.

Herra forseti. Ég vil að lokum mæla fyrir brtt. sem ég flyt ásamt Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Guðrúnu Agnarsdóttur um aukið framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Við leggjum til á þskj. 259 að í stað 400 millj. undir lið 02 872 komi 450 millj. kr. Till. okkar um 500 millj. kr. framlag ríkisins til sjóðsins var felld við 2. umr., en nú viljum við reyna til þrautar að rétta aðeins grundvöll sjóðsins sem augljóslega er allt of veikur.

Þegar ég mælti fyrir brtt. okkar við 2. umr. færði ég fyrir henni ítarleg rök, sem ég tel ekki ástæðu til að endurtaka nú öll. Ég vil aðeins árétta að miðað við þrengstu útreikninga vantar allt að 167 millj. og 250 þús. kr. í þetta frv. til þess að fjárþörf sjóðsins á næsta ári sé mætt. Blasir því við að annaðhvort verði lögum og reglugerð sjóðsins breytt til að draga úr þörf fyrir lánveitingar eða að sjóðurinn verði að fá heimild til frekari lántöku. Fyrri kosturinn leiðir til misréttis þar sem framhaldsmenntun verður forréttindi en ekki raunverulegur valkostur þeirra sem vilja og getu hafa. Sá síðari leiðir til versnandi stöðu sjóðsins, sem þegar er svo aðþrengdur að tekjur af útlánum nema aðeins 44% af afborgunum af teknum lánum. Við teljum óráð hið mesta að auka á vaxtabyrði sjóðsins og teljum eðlilegra að ríkissjóður taki þá byrði á sig. Við freistum þess því enn að fá þingheim til að samþykkja hækkað framlag ríkisins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna.