19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2206 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

1. mál, fjárlög 1984

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Reykv. og fsp. ætla ég að reyna að segja örfá orð.

Varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég hygg að ég geti ekki gefið hér yfirlýsingu um ákveðna upphæð sem fari til B-álmu Borgarspítalans í Reykjavík. En á þessu ári hefur verið úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra 40 millj. kr. Þar af hafa farið 22 millj. kr. til B-álmu Borgarspítalans í Reykjavík. Þessar ákvarðanir lágu fyrir flestar hverjar snemma á árinu og hv. þm. því gjörla kunnar. Nú er samkv. frv. og brtt. fjvn. við þetta fjárlagafrv. ætlað að verja 15 millj. til Framkvæmdasjóðs aldraðra og með lagabreytingunni í því frv. sem hér liggur fyrir eru tekin af tvímæli um að 15 millj. koma einnig á móti af hinum svokallaða nefskatti, sem eru höfuðtekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra. Til hjúkrunarheimila og þar með B-álmu á því að verja samtals 30 millj. kr., ef frv. og till. fjvn. ná fram að ganga.

Ég treysti mér ekki á þessu stigi málsins að segja hve háa upphæð B-álma Borgarspítalans fær af þessum 30 millj., en ef miðað er við hjúkrunarheimili og sjúkradeildir, sem veitt var fé til af Framkvæmdasjóði aldraðra, þá var um að ræða auk B-álmunnar hér í Reykjavík dvalar- og hjúkrunarheimili á Sauðárkróki, sjúkradeild á Akureyri, hjúkrunarheimili á Egilsstöðum, hjúkrunardeild við dvalarheimili í Vopnafirði, sem tók til starfa á s.l. hausti, hjúkrunarheimili Höfn í Hornafirði, hjúkrunardeild á Hellu og sömuleiðis hjúkrunarheimili í Hafnarfirði, bæði DAS og sjúkradeild Sólvangs. Þessar framkvæmdir voru allar inni í myndinni á þessu ári. Á þessari stundu get ég ekki fullyrt hvernig stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra telur best að skipta 30 millj. sem væntanlega verða til ráðstöfunar, en ljóst er að stór hluti upphæðarinnar kemur til með að renna til B-álmu Borgarspítalans í Reykjavík.

Ég hef sagt það við formann fjvn., sem hann mun hafa gefið yfirlýsingu um í ræðu sinni í dag, að ég hefði í hyggju að bera þetta undir fulltrúa fjvn. áður en endanlega verður gengið frá þeirri úthlutun. Hef ég svo ekki meira um þetta mál að segja.

Varðandi fsp. hv. þm. um nýja starfsemi sem hægt væri að hefja í sjúkrahúsakerfinu á árinu 1984 miðað við húsnæði sem fullbúið verður til notkunar á því ári. Hér er um að ræða starfsemi í húsnæði taugalækningadeildar Landspítalans, bæklunardeildarinnar, og er reiknað með að taka það húsnæði í notkun á næsta ári. Það var farið fram á opnun nýrrar deildar við geðdeild og opnun móttökudeildar Landspítalans og sömuleiðis lítillar deildar við Kópavogshæli, sem Iðjuþjálfun nefnist. Það er gefið mál að fyrsta starfsemin sem ég gat um verður hafin á næsta ári. Þegar við erum búnir að fara yfir þá fjármuni sem fjvn. skammtar okkur í þessum efnum verður tekin ákvörðun um aðrar tímasetningar, en ég er að vona að starfsemi við tvo af þessum fjórum áföngum geti hafist samkv. þeim tillögum sem fyrir liggja frá fjvn.

Þá er einnig reiknað með að teknar verði í notkun deildir við þrjá daggjaldaspítala sem á næsta ári munu geta hafið starfsemi í nýjum húsakynnum. Það er í fyrsta lagi 2. hæð B-álmu Borgarspítalans, sem er talið að verði hægt að taka í notkun, hvenær sem það verður á árinu, 29 rúm. Í öðru lagi er endurbygging gamla sjúkrahússins á Selfossi, sem er í raun og veru lokið. Það er aðallega fyrir öldrunarsjúklinga. Þar er reiknað með 26 rúmum. Í þriðja lagi er sjúkrahús SÁÁ við Grafarvog, þar sem rúmafjölgun verður 40 við flutning starfseminnar frá Silungapolli, en sú starfsemi verður lögð niður. Enn fremur er gert ráð fyrir breytingum vegna beiðni sem rn. hefur borist um flutning á rekstrarkerfi dvalarheimila aldraðra yfir á sjúkrahúsakerfið. Það eru Dalbær á Dalvík, sennilega með um 15–20 rúm, Garðvangur í Garði með um 15 rúm og Dvalarheimili aldraðra í Kumbaravogi með um 10 rúm. Ég skal ekki á þessu stigi fullyrða hvort rn. staðfestir þessa rúmatölu, en yfir það verður farið fljótlega eftir áramót. Ég held að ég hafi þá svarað fsp. hv. þm. hvað þetta snertir.

Hins vegar langar mig að leiðrétta hv. þm. í því sem hann sagði um Vegagerðina og vegagerðardæmið, en því miður hef ég ekki nákvæma tölu með svo að ég verð að fara nokkuð eftir minni. Miðað við næstsíðustu hækkun á bensíngjaldi, en síðan hefur ekki orðið hækkun þar nema um nokkra tugi aura, voru ef ég man rétt um 37.9% af tekjum ríkisins sem fóru til Vegagerðarinnar, en með því sem formaður fjvn. upplýsti munu heildartolltekjurnar og skattar af aðflutningsgjöldum og skattar af bensíni fara í 50%. Þetta tel ég nú vera töluverða hækkun frá því sem verið hefur, en ekki lækkun eins og hv. þm. sagði. En það fer nú eftir því hvernig menn líta á ýmsar reikningskúnstir. Ég nota mína gömlu aðferð við útreikninga frá því að ég var í barnaskóla, en hins vegar er hann miklu meiri nútímamaður og notar því aðra útreikninga og aðrar tölur og hann getur því fundið út að þessi gjöld hafi lækkað í raunveruleikanum. En ég held að staðfesting nýframborinnar þáltill. til vegáætlunar sýni annað.

Hins vegar er ekki um að ræða hækkun frá því sem gert hefur verið ráð fyrir við framlagningu fjárlagafrv. því þar kemur greinilega í ljós að ríkisframlög lækka að sama skapi. En ég tel þetta eðlilega breytingu og sjálfsagða og lagði á það mikla áherslu. Hins vegar get ég huggað hv. þm. með því, að till. til vegáætlunar kemur því miður ekki til umr. nú fyrir jólin þó ég hefði gjarnan kosið að svo yrði. Því hafa ráðið töluvert langar ræður ýmissa annarra manna hér í þingsölum. En hún kemur til umr. þegar þing kemur saman aftur á næsta ári.

Ég vil minna á í þessu sambandi að vegáætlun var ekki afgreidd á síðasta þingi. Fyrrv. ríkisstj. sleit þingi áður en vegáætlun fékk afgreiðslu Alþingis. En hún tók ákvörðun um það að framkvæma till. til vegáætlunar þrátt fyrir það að Alþingi hafði ekki afgreitt hana og þrátt fyrir það að fyrri ríkisstj. gerði ráð fyrir nýrri skattheimtu á almenning með svokölluðu veggjaldi. Fyrri ríkisstj. tók ákvörðun um að framkvæma þessa vegáætlun og setja með lögum á nýtt veggjald. En þrátt fyrir þessa ákvörðun tók fyrri ríkisstj. aldrei endanlega ákvörðun um útgáfu brbl. um veggjald. Það var ágreiningur fyrir kosningar á milli Sjálfstfl. og stuðningsliðs ríkisstj. um þetta veggjald. Það var ekki samstaða um að leggja veggjaldið á eftir að núv. ríkisstj. var mynduð og því varð það að ráði að fjmrh. varð við þeim óskum að greiða til vegagerðarinnar þá upphæð sem veggjaldið gerði ráð fyrir. Frá því að ég tók við samgrh.embættinu hef ég því orðið að sækja um það eiginlega hverju sinni að framkvæma þessa vegáætlun eins og hún hefði verið samþykkt, en var þó ekki samþykkt. Þannig var nú viðskilnaður fyrri ríkisstj. í þessum efnum. Og má víða koma þar við ef menn kæra sig um og vilja lengja umr. hér í hv. Alþingi.

Hv. þm. talaði um hækkanirnar sem urðu hjá Pósti og síma í tíð núv. ríkisstj. Þær voru orðnar áður. En nauðsyn var að breyta gjaldskrá póst- og símamálastjórnar á s.l. sumri og það var gert. Hins vegar má segja að ýmsar breytingar í rekstri hafi gert það að verkum að fjárhagur stofnunarinnar hefur verið skárri eftir því sem liðið hefur á árið. Þar ræður mestu árangur núv. ríkisstj. í baráttu við verðbólguna. Þar hefur Póstur og sími eins og fleiri notið góðs af.

Ég beitti mér fyrir því fyrir skömmu að lækkun varð á ákveðnum tekjuliðum Pósts og síma. Samtöl til útlanda, sem hafa verið mun dýrari héðan frá Íslandi en frá útlöndum til Íslands, hafa lækkað um 23.5% mest og niður í 8% eftir löndum. Til þeirra landa sem við eigum mest viðskipti við hefur lækkun orðið mest, t.d. á símtölum við Svíþjóð, Danmörk, Noreg, Þýskaland og fleiri lönd sem ég ætla ekki að nefna frekar. Ég tel að hér hafi náðst töluvert góður árangur sem flestir kunna að meta.

Þetta er einn þáttur í þeim áformum sem ríkisstj. hefur haft uppi, í fyrsta lagi að stöðva verðbólguna og í öðru lagi að snúa ofan af þeim miklu hækkunum sem orðið hafa á síðustu árum. Þetta er vitaskuld gerbreyting frá því sem var og hlýtur að vera ákaflega kvíðvænlegt og mikið feimnismál fyrir mann eins og þennan hv. þm. að vita til þess að verðbólgan í landinu hafi verið stöðvuð og farið sé að vinda ofan af þeim miklu hækkunum sem þessi hv. þm. stóð fyrir frekar en nokkur annar, þessi hv. þm. sem stóð fyrir því að neita í fyrri ríkisstj. um skynsamlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Það kemur því úr hörðustu átt þegar þessi hv. þm. er að belgja sig hér út í sölum Alþingis. Ef nokkur maður ætti að fara undir borðið þá er það þessi hv. þm. og láta ekki sjá sig hér í þingsölum. (SvG: Ráðh. er reiður.) Nei, hann er ekki reiður en hann skammast sín fyrir að þjóðin skuli hafa kosið jafnóvitran mann inn á Alþingi Íslendinga eins og Svavar Gestsson. Enda eru margir af kjósendum þess flokks sem sjá sannarlega eftir því eins og þessi hv. þm. stóð sig þegar hann var ráðh.

Svo vék hann að væntanlegu sjúklingagjaldi eins og hann kallar það. Viðskilnaður þessa hv. þm. var með þeim hætti að fjármál ríkisins voru rekin með dúndrandi halla sem fór vaxandi. Enda sá í iljarnar á karli þegar hann stakk sér fyrir borð og þorði ekki að taka lengur þátt í stjórn landsins. Hann vissi upp á sig skömmina og þetta er árangurinn af því, það verður að taka til og leggja á gjöld til að standa undir þeirri heilbrigðisþjónustu sem þjóðin ætlar að njóta og ætlast til að sé staðið undir.

Við vitum það mætavel að heilbrigðisþjónusta í þessu landi er mjög dýr og alltaf er verið að taka ný verkefni fyrir, verkefni sem kosta stórfé. Ég var rétt áðan að lýsa nýjum verkefnum. Hér í brtt. fjvn. er verið að hækka og bæta fyrir syndir þeirra sem voru á undan og ekkert gerðu í þessum efnum, skildu eftir sig þau minnismerki sem einmitt þessi hv. þm. ætti að þekkja betur en flestir eða allir aðrir.

Og hvað er nú verið að gera? Búið er að lýsa því yfir að flutt verði frv. um að leggja sérstakt gjald á þá sem leggjast inn á sjúkrahús á fullum launum, alveg voðalegt gjald, 300–600 kr. á dag að hámarki 10 daga á ári. Þetta gjald nær ekki til ellilífeyrisþega, það kemur ekki til með að ná til örorkulífeyrisþega og ekki til barna og unnið er að því að það nái ekki til þeirra sem minnstar tekjur hafa. Þetta heitir að leggja á sárþjáða sjúklinga.

Ég sé nú bara ekkert eftir Svavari Gestssyni eða mér að borga slíkt gjald, 300–600 kr. á dag í 10 daga á ári. Við erum ekkert of góðir til að greiða slíkt gjald. En sumir þurfa alltaf að gera allt tortryggilegt og þá sérstaklega þeir sem skildu allt eftir í rúst þegar þeir loksins hrökkluðust frá en hefðu auðvitað átt að fara frá löngu fyrr. Það er skaðinn sem hefur skeð að flokkarnir sem voru með þessum hv. þm. í ríkisstj. héldu of lengi út að gefa þeim lausan tauminn, að bíða eftir því að fá þá til skynsamtegra aðgerða. Það er þess vegna komið sem komið er. Það er vegna þess að þessir aðilar fengust aldrei til að taka á verkefnunum í þjóðfélaginu. Og loksins þegar eitthvað var gert var það gert 4–6 mánuðum of seint þannig að það kom ekki að gagni. Þetta vita allir menn og þetta veit maður eins og Svavar Gestsson mætavel. Þetta var höfuðástæðan fyrir því að hann þorði ekki aftur í ríkisstj., þorði ekki að eiga aðild að stjórnarmyndunarviðræðum.

Það liggur illa á Svavari Gestssyni þessa dagana, það vita allir menn. Af hverju? Það er af því að tekist hefur að vinna bug á verðbólgunni. Hún hefur komist niður í 30 stig miðað við árið. Verið er að snúa ofan af hinni miklu verðbólgu sem hefur verið í landinu. Vörur eru hættar að hækka í verði, þær eru þegar byrjaðar að lækka. Vextir hafa lækkað stórkostlega frá því í lok september og launþegar í landinu finna að hér hefur náðst góður árangur. Og af því að náðst hefur góður árangur í þessum málum og í efnahagsmálum, öfugt við það sem var á meðan fyrri ríkisstjórnaraðilar þurftu að þvælast með lík í lestinni eins og Alþb., verða þessir menn reiðir og það liggur illa á þeim. Það er skiljanlegt að veslings Svavar Gestsson sé aumur og reiður og það liggi illa á honum. Hann skammast sín að vísu fyrir allt sem hann hefur vangert á liðnum árum og veit hver stór sök hvílir á honum og hans flokki. En hann er að sumu leyti ánægður yfir því að enn þá heldur hann utan um svokallaða stjórnarandstöðu hér í þingi sem fylgir honum mjög vel eftir. Þessi stjórnarandstaða hefur ekki áttað sig enn þá á því hvað góður árangur hefur náðst. Hingað inn koma tveir nýir flokkar sem virðast ekkert hafa áttað sig og ekkert hafa skilið en hanga í rassinum á Svavari Gestssyni. Það eru ær og kýr þessara tveggja nýju flokka að hanga í rassinum á Svavari Gestssyni eftir það sem á undan er gengið. Tímans vegna ætla ég ekki að eyða meira púðri á Svavar Gestsson eða aftaníossa hans hér á Alþingi. Til þess gefst tækifæri á næsta ári.