19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2222 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

1. mál, fjárlög 1984

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þetta er orðinn heilmikill málfundur, sem hér er haldinn, kappræðufundur, og vissulega er alltaf gaman að taka þátt í kappræðum. Af hálfu okkar Alþb.-manna hefur verið gerð skýr grein fyrir afstöðu okkar til þessa fjárlagafrv.

og þar er ekki ástæða til að bæta neinu við umfram það sem komið er og síst af öllu er ástæða til að kippa sér upp við þær afskaplega þunnskornu sneiðar sem að mér voru réttar áðan af seinasta ræðumanni. Svo þunnar voru þær að þær teljast ekki svara virði. Ég vek líka athygli á því að nú nálgast miðnætti og við eigum eftir að afgreiða allmörg mát í báðum deildum. Við eigum líklega eftir að leiða tekjuskattsmálið gegnum þrjár umr. og hafa hér umr. um kosningamál og við eigum eftir að fjalla um fiskveiðimál í Ed. í tveimur umr. og því kannske eðlilegt ef ekki er þeim mun meiri þörf á að reyna að stytta þessa umr. eins og kostur er. Mín reynsla er nú sú, að þau orð sem falla síðla kvölds við 3. umr fjárlaga falli gjarnan í grýtta jörð og fáir sem þau heyra og allra síst fjölmiðlar.

Ég stend hér upp einungis til að mæla fyrir till. sem ég flyt og skýrir sig sjálf. Þó þykir mér rétt að mæla fyrir henni hér. Það er till. á þskj. 288 þess efnis að fjárveiting til flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli falli niður. Um þetta mál hafa þegar orðið talsverðar umr. hér í þinginu í vetur og nú seinast fyrir tveimur dögum í Ed., þar sem þetta mál er sérstaklega á dagskrá.

Í þessari till. er í 2. lið vakin athygli á því að þessu fjármagni mætti verja með talsvert skynsamlegri hætti en ætlunin er að gera með fjárveitingu í flugstöð á Keflavíkurvelli, fjárveitingu sem öll er tekin að láni. Það er till. okkar að áfram sé unnið að hönnun flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurvelli og að því stefnt að hún verði af hæfilegri stærð en nú er áformað og hún sé einungis ætluð til afnota fyrir Íslendinga í millilandaflugi þeirra og til að sinna þörfum þeirra sem millilenda hér á landi á ferð sinni yfir Atlantshaf.

Það ætti að nægja að verja 10 millj. kr. til endurhönnunar á flugstöðvarbyggingunni, en jafnframt leggjum við þá til að 43 millj. sé varið sem fyrstu greiðslu til kaupa á nýrri björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna í stað þeirrar sem fórst. Það er enginn vafi á því að björgunarþyrlan, sem Landhelgisgæslan eignaðist og átti í allt of skamman tíma, sannaði mikilvægi sitt og við ættum öll hér á Alþingi að gera okkur ljóst að slíka vél þurfum við Íslendingar að eiga og verðum því að endurnýja. Því er þetta mál hér flutt að ekki bólar á því í fjárlagafrv. að ætlað sé fé í þessu skyni og við teljum það mjög við hæfi að taka fé til fyrstu greiðslu til kaupa á þyrlu af því fé sem ætlað er til byggingar flugstöðvar.

Í þriðja lagi leggjum við til að 50 millj. kr. sé varið til kaupa á öryggistækjum og til lagningar slitlags á flugvelli landsins. Þessi upphæð er ekki valin af neinni tilviljun. Hér er einfaldlega um að ræða að tvöfalda framlag það sem varið er til kaupa á öryggistækjum og til uppbyggingar á flugvöllum landsins. Það er enginn vafi á því að fjármagn til þeirra hluta er alltof lítið og jafnvel mundi tvöföldun þess fjármagns, sem til þessara hluta gengur, vera í sjálfu sér ónógt miðað við þarfirnar, en þó væri hér um geysilega mikla framför að ræða ef um tvöföldun yrði að ræða.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa till. og þar sem ég vil svo sannarlega stuðla að því að þessari umr. fari senn að ljúka með því að vera sem fáorðastur læt ég þessi orð nægja.