19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

1. mál, fjárlög 1984

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi nú leita eftir því við hæstv. forseta að fá hingað í salinn hv. 5. þm. Austurl. Hjörleif Guttormsson, svo að ég tali ekki á bak honum. Að öðru leyti skal ég lofa því að lengja ekki þennan fund, ef þm. vildi vera svo vinsamlegur að hlýða á mál mitt. Ég held hins vegar að ég megi til með að doka við þar til þm. kemur. Þetta verða ekki svo mörg orð. Ég vil ekki ljúka máli mínu áður en hann kemst hingað til að hlýða á það.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði mörg orð um yfirlýsingar mínar og raunar annarra sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar. Mér þykir vænt um að hann skuli hafa rifjað þær upp. Til viðbótar við þær yfirlýsingar get ég sagt hv. þm. að ég hef eins og hann ferðast um kjördæmið síðan kosningar fóru fram. Ég held að ég hafi sagt það á hverjum fundi í Austfjarðakjördæmi að ég væri vel minnugur þess sem ég hefði sagt fyrir síðustu alþingiskosningar. Ég þarf þess vegna ekki að vera í felum með þær skoðanir.

Nú geta menn með ýmsum hætti velt því fyrir sér með hvaða hætti núv. ríkisstj. muni standa við stefnuyfirlýsingu sína og það er óþarft að fara að rifja upp tötur frekar en gert hefur verið, en það má minna á það til viðbótar því sem hefur hér áður komið fram og til frekari áréttingar, að með því sem fjárlög ákveða og ríkisstj. hefur þegar ráðstafað til þessara verkefna nemur sú upphæð 441 millj. kr. og þá fer nú mjög að saxast á eins árs tekjur af orkujöfnunargjaldi. En það er ekki heldur þetta sem skiptir máli, heldur hitt, hver verður niðurstaðan, hver verður kostnaðurinn, hver verða kjörin sem fólkið í þessu landi býr við á raforkuverði til húsahitunar.

Hv. þm. hafði um það orð að hér hefðu menn ekki kynnt efni þess frv. sem orkuverðsnefnd hefur skilað sem nál. til hæstv. iðnrh. Ég minni nú á að ekki er langt síðan orkuverðsnefndin skilaði því áliti. Ég hygg að það hafi þó verið á fyrstu dögum þessa mánaðar. En ég vil líka minna á að þótt mönnum finnist þetta e.t.v. nokkuð langur tími hygg ég að það hafi engin nefnd, sem hefur starfað að hliðstæðri tillögugerð eða hliðstæðri endurskoðun, skilað nál. á jafnskömmum tíma og orkuverðsnefndin gerði. Það hlýtur að vera eðlilegt að ekki sé farið að skýra hér frá einstökum þáttum nál. fyrr en búið er að fjalla um það í rn. og í ríkisstj. og ég hygg að það hljóti að teljast eðlilegt miðað við annir þessa mánaðar að sú yfirferð hafi ekki ennþá átt sér stað.

En hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur lagt fram sínar tillögur hér á Alþingi í till. til þál. Það er ýmislegt í hans tillögu ekkert mjög ósvipað tillögum orkuverðsnefndar þótt till. Hjörleifs sé hins vegar veigaminni. Það er hins vegar athyglisvert og ég hjó alveg sérstaklega eftir því í till. þm., að þar gerir hann ráð fyrir að sem viðmiðun við kostnað við upphitun á meðalóúð verði haft til hliðsjónar sex vikna kaup verkamanns. Þessi tala virðist ekki tekin af neinni tilviljun. Þegar tekið er meðaltal áranna fyrir embættistímabil Hjörleifs Guttormssonar var kostnaðurinn þessi. Þá fólk það verkamann um sex og hálfa viku að vinna fyrir ársreikningi til húsahitunar. Á valdaferli Hjörleifs Guttormssonar þrefaldaðist þessi tala. Hún fór úr sex vikum og upp í rúmar átján vikur. Ég hygg að hvergi sé hægt að finna jafnskýra mynd af árangri af störfum eins ráðh. og þá sérstaklega þessa ráðh. og með þessum einfalda hætti, að orkuverð til húsahitunar hækkar eins og þarna kemur fram á fimm árum. Og það er engin hending hvernig þm. velur svo viðmiðunina inn í framtíðina. Það er ekki hægt að sækja þá viðmiðun inn í það umhverfi sem hann skapaði í raforkuiðnaði í þessu landi. Það verður að fara aftur fyrir hans tímabil. Það sem athygli vekur er að þm. gerir sjálfur tillögur um að embættisferill hans í þessum efnum gleymist.