19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

1. mál, fjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir margar góðar ræður þótt ekki sjái ég ástæðu til að svara þeim að nokkru ráði þar sem fáum spurningum hefur verið beint til mín.

Ég mun ekki taka undir margar þær tillögur sem talað hefur verið fyrir, en þó vil ég lýsa stuðningi mínum við tillögu frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Eiði Guðnasyni á þskj. 257, tölul. 3. Hér er gerð till. um að þeir peningar sem teknir eru af þeim sem staðnir eru að verki við sölu ávana- og fíkniefna renni til fyrirbyggjandi aðgerða gegn þeim aðilum sem þá siðlausu iðju stunda sem þar er getið um. Að sjálfsögðu hljóta ávana- og fíkniefni, sem gerð eru upptæk, að verða eyðilögð. En það þarf að orða þessa till. þannig að ekki fari milli mála hvað hér er átt við.

Þá vil ég mæla með samþykkt till. frá þeim hv. þm. Svavari Gestssyni, Hjörleifi Guttormssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Guðrúnu Helgadóttur og Skúla Alexanderssyni, sem kemur fram á þskj. 281 í 2. tölul., en þar er gerð till. um að hækka framlag til Blindrabókasafns úr 800 þús. í 1 millj. Ég geri till. um að sú till. Alþb. verði samþykkt.

Þá vil ég geta þess að gefnu tilefni frá hv. þm. Ragnari Arnalds, 3. þm. Norðurl. v., að í heimildargr. fjárlaga 6.18 er gert ráð fyrir að taka lán til kaupa á björgunar- og leitarþyrlu fyrir landhelgisgæslu, svo að fyrir því er hugsað.

Að gefnu tilefni vil ég einnig upplýsa hv. 3. þm. Reykv. um að ég hef allt frá því að ég tók við núverandi starfi mínu getið þess og fullyrt að ekki væri hægt að ættast til þess að ekki yrði rekstrarhalli á fjárlögum í ár. Það ætti því ekki að koma neinum að óvörum hér. En ég vil líka upplýsa hv. þm. um að þetta er ekki í fyrsta skipti sem fjárlög eru afgreidd með halla. Síðast var rekstrarhalli á fjárlögum 1972 og aftur 1974, en bæði þessi ár var formaður fjvn. hv. þm. Geir Gunnarsson.

Þá talaði hv. 3. þm. Reykv. um vexti af yfirdrætti á viðskiptareikningi í Seðlabankanum, en eins og hv. þm. vita eru heildarvaxtagreiðslur í fjárlögum fyrir 1984 samtals 840 millj. kr. og þar af er greiðsla til Seðlabankans um 139 millj. En vextir af yfirdrætti á viðskiptareikningi ríkissjóðs hjá Seðlabankanum á árinu 1983 voru rúmlega 300 millj. kr. Í fjárlögum ársins 1984 eru áættaðar 139 millj. kr. vegna yfirdráttarskuldar ríkissjóðs hjá bankanum og þar af vaxtagjöld vegna halla ríkissjóðs nú í árslok að fjárhæð 39 millj. kr. sem nú er búið að gera samninga um.

Herra forseti. Þegar komið er að lokum 3. umr. fjárlaga fyrir árið 1984 er gagnlegt að huga nokkuð að þróun íslenskra efnahagsmála á árinu sem nú er að líða og horfum árið 1984.

Að loknum alþingiskosningum í aprílmánuði s.l. blasti við okkur Íslendingum efnahagsvandi svo mikill að þjóðin hefur ekki staðið frammi fyrir slíkum vanda um langt árabil. Efnahagsvandi sá sem við var að glíma átti rætur að hluta til í erfiðum ytri skilyrðum, en var ekki síður til kominn vegna slakrar hagstjórnar innanlands. Dregist hafði úr hömlu að takast á við þau efnahagsvandamál sem fyrir voru, en afleiðing þess var gífurleg óðaverðbólga, erlend skuldasöfnun og verulegur viðskiptahalli.

Ríkisstj. sem tók til starfa 26. maí s.l. greip þegar til róttækra efnahagsráðstafana. Megintilgangur þeirra ráðstafana var að draga hratt úr verðbólgunni, tryggja afkomu atvinnuveganna, stöðva erlenda skuldasöfnun og minnka viðskiptahalla við útlönd. Árangur þessara aðgerða hefur nú þegar komið í ljós. Hraði verðbólgunitar, sem var kominn í 130% á ársgrundvelli er nú kominn töluvert niður fyrir 30% og raunar gefa nýjustu mælingar til kynna mun lægri tölur. Viðskiptahalli sem var 10% af þjóðarframleiðslu er nú áætlaður 2%. Þá hefur tekist að tryggja afkomu atvinnuveganna og atvinnu í landinu og vextir hafa lækkað stórlega. Hins vegar er ljóst að nú eru verulegir erfiðleikar fram undan hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi og fiskvinnslu, sem m.a. stafa af minnkandi sjávarafla og erfiðum rekstrarskilyrðum til margra ára.

Þegar horft er til ársins 1984 er ljóst að þjóðarbúskapur okkar Íslendinga er í miklum andbyr um þessar mundir. Á undanförnum árum hafa efnahagsþrengingar í viðskiptalöndum okkar sett mark á afkomu útflutningsgreina landsmanna. Nú þegar séð er fyrir nokkurn efnahagsbata í viðskiptalöndum okkar er fyrirsjáanlegur verulegur samdráttur í sjávarafla, sem er helsta útflutningsvara okkar Íslendinga. Til að gefa nokkra mynd af hversu víðtæk áhrif á efnahagslífið þær aflatakmarkanir sem nú eru fyrirhugaðar hvað varðar þorskafla árið 1984 hafa má nefna að í stað tæprar 4% aukningar á útflutningi, sem þjóðhagsáætlun frá því í okt. s.l. gerði ráð fyrir, bendir margt til að útflutningur dragist saman um 3%. Þjóðartekjur eru í ár taldar dragast saman um 5.5% og gæti á næsta ári orðið svipaður samdráttur þjóðartekna landsmanna.

Af þeim upplýsingum sem ég hef rakið hér að framan má mönnum vera ljóst að fram undan eru miklar þrengingar og samdráttartímar sem þjóðin í heild verður að taka á sig. Ekki síður er mikilvægt að staðið sé að framkvæmd efnahagsmála á árinu 1984 á þann veg að sá árangur sem núv. ríkisstj. og þjóðin öll hefur náð í minnkandi verðbólgu verði ekki eyðilagður og þær fórnir sem landsmenn hafa tekið á sig verði ekki til einskis.

Þjóðhagsstofnun hefur nú endurskoðað tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir árið 1984. Forsendur fjárlagafrv. hafa nú breyst í veigamiklum atriðum vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í þjóðarframleiðslu á næsta ári umfram það sem gert var ráð fyrir áður. Með hliðsjón af þessu hefur ríkisstj. ákveðið að launaliðir, sem fram koma í fjárlögum á árinu 1984, verði um 4% hærri að meðaltali árið 1984 en í árslok 1983 í stað 6% sem gert var ráð fyrir í frv. Í þessu felst að meðaltalshækkun kauptaxta milli áranna 1983 og 1984 yrði 13% í stað 15% í fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun. Ekki er gert ráð fyrir minni verðbreytingum en áður þrátt fyrir minni launabreytingar, þar sem endurskoðuð tekjuáætlun gerir nú ráð fyrir að 5% svigrúm til gengisbreytinga á árinu 1984 verði að fullu nýtt. Í fjárlagafrv. var almennt gert ráð fyrir samdrætti í veltu á næsta ári sem nam 4–5%. Miðað við þær breyttu forsendur sem nú liggja fyrir og fyrirsjáanlegan samdrátt í þjóðarframleiðslu er nú gert ráð fyrir 6–7% veltusamdrætti.

Við gerð fjárlagafrv. var mörkuð sú stefna að skattbyrði beinna skatta skyldi ekki hækka sem hlutfall af tekjum greiðsluárs milli áranna 1983 og 1984. Haldið hefur verið fast við þá stefnu, enda þótt forsendur um tekjuþróun milli áranna 1983 og 1984 hafi breyst frá því sem var við gerð upprunalega fjárlagafrv. Enn má reikna með að tekjuhækkun milli áranna 1983 og 1984 verði um 16% og í samræmi við það er áætlað að álagning tekjuskatta til ríkissjóðs hækki um sömu prósentu milli áranna. skattbyrði gjaldenda mun því að meðaltali haldast óbreytt sem hlutfall af tekjum greiðsluársins. Þar með er ekki sagt að skattbyrði allra gjaldenda standi í stað. Til að koma til móts við þarfir hinna lægst launuðu er gert ráð fyrir að skattbyrði þeirra, ef miðað er við tekjuskatta til ríkisins, lækki dálítið, en til að vega það upp verður ekki hjá því komist að auka sambærilega tekjuskattsbyrði þeirra sem hæstar tekjurnar hafa, en að meðaltali helst skattbyrðin óbreytt. Svipaðri stefnu hefur verið fylgt að því er eignarskattana varðar. Þar eru skattfrelsismörk hækkuð ívið meira en nemur hækkun á skattstofni milli ára. Hins vegar er skatthlutfallið ekki lækkað alveg til móts við minnkandi tekjur. Þetta hefur þær afleiðingar að þeir sem litlar eignir eiga koma til með að lækka í eignarskatti, en það er aftur vegið upp með ívið hækkuðum eignarskatti hjá eignameiri mönnum. Vissulega hefði verið æskilegt að ganga mun lengra en hér er gert til lækkunar á beinum sköttum, en því miður er ekki svigrúm til slíks við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu.

Niðurstöðutölur endurskoðaðrar tekjuáætlunar sýna að tekjur ríkissjóðs á árinu 1984 nema 17.9 milljörðum kr. í stað 17.4 milljarða kr., er fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Hækkunin nemur 409 millj. kr. Breytingar á einstökum tekjuliðum eru, að tekjuskattur lækkar um 87 millj. kr., gjöld af innflutningi eru hækkuð um 155 millj. kr., skattar af seldri vöru og þjónustu lækka um 134 millj. kr., aðrir óbeinir skattar hækka um tæpar 300 millj. kr. og aðrar breytingar nema 225 millj. kr.

Í framsögu formanns fjvn. hefur þegar verið gerð grein fyrir fjárveitingum á gjaldahlið frv. milli umr. Ég ætta aðeins að nefna helstu breytingar sem orðið hafa á útgjaldaliðum í meðförum fjvn. frá því að það var lagt fram.

Í fjárlagagerðinni voru af hálfu ríkisstj. í upphafi sett þrjú meginmarkmið. Í fyrsta lagi að ríkisbúskapurinn styðji hina almennu efnahagsstefnu ríkisstj., í öðru lagi að gera fjárlög á ný að raunhæfri áætlun um ríkisfjármálin og í þriðja lagi að draga úr umfangi ríkisins í þjóðarbúskapnum. Í meðförum þingsins og fjvn. hafa útgjöld hækkað um 844 millj. kr. Til vegamála, sem ekki var tekin afstaða til í upphaflegu frv., hækka framlög um 437 millj. kr., en aðrar breytingar á fjölmörgum viðfangsefnum eru 400 millj. kr. Sú ákvörðun ríkisstj. að miða við 4% launahækkun á árinu 1984 í stað 6% lækkar útgjöld A-hluta fjárlaga um 161 millj. kr. Eins og ég gat um við 1. umr. fjárlaga tel ég þýðingarmikið að Alþingi afgreiði fjárlög á þann veg að þau sýni útgjöld sem raunhæfust. Þá gat ég enn fremur um það að ég teldi að ríkið mætti ekki ganga lengra í skattheimtu. Niðurstöðutölur rekstrarjafnaðar sýna nú halla að fjárhæð 375 millj. kr. í stað 9 millj. kr. rekstrarafgangs samkv. upphaflegu frv. Þessum rekstrarhalla verður mætt með auknum lántökum þannig að greiðsluafkoma A-hluta ríkissjóðs á árinu 1984 er sú sama og gert var ráð fyrir í upphaflegu frv.

Eins og fram hefur komið í umr. hér á hv. Alþingi er ekki gert ráð fyrir greiðslu lána hjá Seðlabanka Íslands, hvorki vegna þeirra lána sem nú þegar eru fyrir hendi né vegna þess greiðsluhalla sem fyrirséður er í ár. Að undanförnu hafa farið fram viðræður af hálfu fjmrn. við Seðlabankann um mál þetta og hafa samningar tekist við Seðlabankann um lántöku sem ekki hefur í för með sér greiðslur afborgana á árinu 1984, en vaxtagreiðslur vegna þeirrar lántöku rúmast innan vaxtaútgjalda sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.

Ég vil ekki draga dul á að ég hefði kosið að hafa jákvæðan rekstrarjöfnuð á A-hluta fjárlaga og greiðsluafgang á fjárlögum hærri en hér er stefnt að. En eins og ég gat um hér að framan tel ég ekki að hægt sé að ganga lengra í skattheimtu til ríkisins miðað við það ástand sem ríkir í efnahagsmálum okkar. Afgreiðsla Alþingis á þessu frv. eins og það liggur fyrir nú mun gera þær kröfur til ríkisstj. að hún vinni enn frekar að því að draga úr ríkisumsvifum.

Eins og ég gat um í ræðu minni við 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1984 er eitt af meginmarkmiðum með fjárlagagerð fyrir næsta ár að gera fjárlög að raunhæfari áætlun en verið hefur, þannig að tryggt verði að aðilar geti starfað innan ramma þeirra. Enn fremur gat ég um að mál væri til komið að spyrna við fótum og takmarka það óþingræðislega vald sem birtist í svonefndum aukafjárveitingum sem fjmrh. fer með. Ég hef ákveðið að skipa samstarfshóp þeirra aðila sem fara með helstu framkvæmdaþætti ríkisfjármála og forustumanna fjvn. Verkefni þessa starfshóps mun m.a. verða að tryggja nauðsynlegt eftirlit með inn- og útgreiðslum úr ríkissjóði, m.a. með gerð greiðsluáætlana innan fjárlagaársins, og ganga eftir að rekstur ríkiskerfisins verði í samræmi við þær greiðsluáætlanir, að leita eftir og hafa samstarf við rn. og stofnanir um að fyrirhugaður sparnaður sem kveðið er á um í fjárlögum ársins 1984 nái fram að ganga, að gera tillögur til fjmrh. um þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf á tekna-, gjalda- og lánahlið ríkissjóðs svo að áformum ríkisstj. er varða ríkisfjármálin verði náð, að leita eftir að hafa samstart við viðkomandi aðila um framkvæmd lánsfjár- og fjárfestingaráætlunar fyrir árið 1984, að gera tillögur til fjmrh. um áframhaldandi endurskipulagningu ríkisútgjalda sem hafa það að markmiði að draga úr ríkisumsvifum, jafnframt vinna að áframhaldandi bættri skipan eftirlits og aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum.

Eftirtaldir aðilar hafa verið skipaðir til að vinna að framangreindu verki: Halldór V. Sigurðsson ríkisendurskoðandi, formaður, Lárus Jónsson, formaður fjvn. Alþingis, Guðmundur Bjarnason, varaformaður fjvn. Alþingis, Höskuldur Jónsson ráðuneytisstjóri fjmrn., Magnús Pétursson hagsýslustjóri, fjárlaga- og hagsýslustofnun. Sigurður Þórðarson deildarstjóri fjmrn. er ritari nefndarinnar.

Þá hef ég ákveðið að Alþingi verði gefin skýrsla um þróun og horfur í ríkisfjármálum á þriggja mánaða fresti og mun sú skýrslugerð verða í umsjón fyrrnefnds starfshóps. Enn fremur hef ég þann ásetning, að ef þær efnahagsforsendur sem fjárlög fyrir árið 1984 eru byggðar á breytast verulega mun ég leita eftir samþykki Alþingis fyrir breytingum sem þá verða nauðsynlegar á ríkisfjármálum, en ekki láta þær birtast í aukafjárveitingum sem Alþingi hefur ekki áhrif á. En eitt er ljóst og nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir að sú fjárlagagerð sem verið hefur allt árið í fjmrn. með samþykkt aukafjárveitinga er lokið. Menn verða að vinna og haga sér samkv. fjárlögum sem Alþingi hefur samþykkt.

Herra forseti. Um leið og ég lýk máli mínu tel ég mér skylt að þakka fjvn. allri, en sérstaklega formanni hennar og varaformanni, hv. þm. Lárusi Jónssyni og Guðmundi Bjarnasyni, fyrir mikið og óeigingjarnt starf við fjárlagagerðina. Þær ytri aðstæður sem nú eru í þjóðarbúskap okkar Íslendinga hafa kallað á mikla festu í störfum fjvn. Því hefur verið mikilvægara en oft áður að þeir aðilar sem sitja í fjvn. missi ekki sjónar af hagsmunum heildarinnar í öllu því sem berst á borð n. Ég tel að störf n. hafi verið með þeim hætti að sómi sé að og þakka nm. öllum gott starf.