25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

452. mál, jafnréttislög

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti.

Á þskj. 20 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„1. Er áætlað að láta smíða eða kaupa nýtt dýpkunarskip í stað Grettis?

2. Hve hárri fjárhæð nam vátrygging Grettis og hefur því fé verið ráðstafað?“

Ég vil, áður en ég fjalla frekar um þessar fsp., benda á það að á þessu ágæta þskj., 20. þskj. okkar, eru 10 mál. Er sparnaður nú farinn að koma greinilega í ljós. Mér finnst það dálítið langt gengið þegar farið er að hnoða 10 málum á eitt þskj. En í sambandi við fsp. vil ég þá halda áfram.

Þegar maður fer um og heimsækir hafnarstarfsmenn eða sveitarstjórnarmenn, eins og ég gerði á s.l. sumri, er það vanalega fyrsta spurning sem beint er að manni: Veistu nokkuð um það hvort keypt verður nýtt dýpkunarskip fyrir Gretti? En eins og hv. alþm. er kunnugt sökk Grettir hér á Faxaflóa í byrjun mars s.l. Með því að Grettir sökk og var ekki lengur til starfa við hafnargerðir stöðvuðust ýmsar hafnarframkvæmdir vítt um landið sem ekki urðu framkvæmdar með öðru móti en með dýpkunarskipi.

Við höfðum haft dýpkunarskip áður, á undan Gretti. Það var gamli Grettir. Hann var keyptur á 5. áratugnum. Við komu þess skips breyttust mjög aðstæður til hafnargerða hér á landi. Þá þurfti ekki lengur að hugsa fyrst og fremst um það að hafnir væru staðsettar við aðdýpi eða að til þess að stækka skip í byggðarlagi þyrfti að lengja bryggjurnar. Það var sem sagt horfið frá þessum háttum til þess að fara að dýpka umhverfis hafnarmannvirkið og nýta oft og tíðum þá aðstöðu sem var fyrir hendi. Það var gert margt gott með gamla Gretti en með því nýja skipi sem hér um ræðir varð raunverulega önnur bylting. Framkvæmdir urðu mun stórstígari og það var hægt að framkvæma ýmsa aðra hluti sem ekki var hægt að gera áður.

Með því að Grettir er nú horfinn af sjónarsviðinu og ekki hefur verið upplýst enn að nýtt skip komi í hans stað eru, eins og ég sagði áður, ýmsar framkvæmdir vítt um landið stöðvaðar. Ég spyr í 2. lið fsp.: Hve hárri fjárhæð nam vátrygging Grettis og hefur því fé verið ráðstafað? Ég er raunverulega að spyrja hvort það fé sem hefur fengist út á vátryggingu Grettis sé ekki hægt að nýta til kaupa á nýju skipi. Hvort uppi séu einhverjar áætlanir um það og hvort þetta fé sé ekki enn fyrir hendi.