19.12.1983
Neðri deild: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

166. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75 frá 1981. Fjh.- og viðskn. hefur athugað þetta frv. og er sammála um að leggja til að það verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 294. Undir þetta rita allir nm. og þrír þeirra með fyrirvara, þ.e. Svavar Gestsson, Guðmundur Einarsson og Kjartan Jóhannsson. Fyrirvaralaust rita undir þetta Páll Pétursson, Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Guðmundur H. Garðarsson.

Rétt er að fram komi þingheimi til glöggvunar að orðalagsbreytingu þarf við 1. gr. frv. 1. gr. þessa frv. á að hefjast svona:

„30. gr. laganna orðist svo“ og síðan taldir upp málsliðirnir, þ.e. 1. liður 2500 í stað 5000, það á við arðgreiðslur, 2. liður á við sjómannafrádrátt, 3. liður við námsmannafrádrátt, 4. liður við heimilisstörf, 5. liður við lífsábyrgð, 6. liður við vexti, 7. liður við gjafir og 8. liður er lágmarksfrádráttur einhleyps manns.