25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

452. mál, jafnréttislög

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Út af þessum seinustu upplýsingum hæstv. ráðh. verð ég að segja að það er náttúrlega mjög alvarlegt mál ef eigur af þessu tagi eru vantryggðar í svo ríkum mæli sem hæstv. ráðh. gaf til kynna. En úr því að það getur gerst á einum stað í ríkisgeiranum, gæti þá ekki verið að það gerist einhvers staðar annars staðar líka? Ég vil beina því til ríkisstj. að af þessu tilefni verði nú þegar kannað hvernig tryggingum sé háttað af hálfu ríkisins og ríkisstofnana á eigum sínum svo að við eigum ekki á hættu að sagan endurtaki sig í þessum efnum og menn verði fyrir stórfelldu tjóni af þeim sökum. Ríkið verður að hafa ákveðnar reglur um það að hve miklu leyti það tekúr áhættu sjálft og að hve miklu leyti það vátryggir hjá öðrum. Síðan verður að gæta að því að þeim reglum sé fylgt og rétt sé að farið.

Annars undrar mig hver feiknadráttur hefur orðið á þessu máli vegna þess að sama daginn og Grettir sökk bar ég fram fsp. til hæstv. fyrrv. samgrh. um það hvort hann mundi ekki beita sér fyrir því að þegar í stað yrði keypt nýtt tæki í stað Grettis. Hann tók undir það heils hugar og lofaði því að þegar yrði undinn bráður bugur að því að fá annað tæki í staðinn fyrir Gretti. Nú eru liðnir allmargir mánuðir síðan. Mér þykja því hafa orðið allmiklar vanefndir á þeim loforðum sem fyrrv. samgrh. gaf. Og það getur líka hafa orðið okkur nokkuð dýrt.