25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

452. mál, jafnréttislög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil biðja hv. þm., sem hér hafa talað, að hafa það í huga að ég réð engu um vátryggingarfjárhæð þessa skips. Sumir hverjir þeirra voru aðstandendur þeirrar ríkisstj. sem þá sat og hefðu getað haft áhrif þar á ef þeir hefðu verið vakandi fyrir því. En mín skoðun er sú, eins og ég sagði hér áðan, að það eigi að tryggja eignir ríkisins að fullu og öllu fyrir alskaða. Og ríkisskipaflotinn, þá á ég við skip Skipaútgerðar, skip Landhelgisgæslu og skip Hafrannsóknastofnunar, hafa verið tryggð fyrir alskaða, eðlilegri tryggingu. Hins vegar hefur verið dregið mjög úr hlutatjónum á undanförnum árum, sem ég tel skynsamlegt að gera, en það hafa oft verið, eins og við segjum gjarnan, í kerfinu uppi raddir um það að ríkið tryggi jafnvel ekki. Það hafa einnig verið teknar ákvarðanir um að ríkið tryggi ekki ákveðnar eignir sínar vegna þess hvað iðgjöldin séu há af þessum eignum. Um þetta geta eðlilega verið skiptar skoðanir og ekkert athugavert við það. En ég held að það sé rangt með svona dýr og mikil tæki, þó að ríkið eigi hlut að máli, að hafa ekki eðlilega alskaðatryggingu á þeim.

Varðandi ágreining minn og hæstv. forsrh. vil ég taka fram að við höfum ekkert rætt um þetta mál. Það vill nú svo til að ég fer með samgöngumál og því eðlilegt að ég hafi mun meira um þetta að segja. Hann lauk því ekki að kaupa pramma í stað Grettis á meðan hann var samgrh. Ég lét í ljós þessa skoðun mína á fundi Hafnamálasambandsins í Stykkishólmi, sem hv. 5. landsk. þm. vitnaði til, og þessi skoðun mín er óbreytt. En hún þýðir ekki það, ef ekki er tryggt að hægt sé að halda áfram eðlilegum hafnarframkvæmdum þar sem ekki er hægt að koma við venjulegu sanddæluskipi, að þá eigi að hætta við þær framkvæmdir. Þá verðum við að fara út í það, neyðumst til þess, vil ég segja, að láta ríkið eiga eina gröfu. En ég segi: Það er neyð. Það fylgir böggull skammrifi að Hafnamálastofnunin eigi þessi tæki. Hún verður að halda uppi stóru og dýru verkstæði í Kópavogi og forsenda þess að halda því verkstæði áfram er að stofnunin eigi þessi tæki. Það er ekki ætlun okkar, sem erum í þessari ríkisstj., að viðhalda þessari starfsemi svona algjörlega, heldur draga frekar úr henni, þar sem starfsemi einstaklinga og félaga er víða með þeim hætti að þeir geta tekið að sér þessi verkefni. Um þetta er í raun og veru ekki mikill ágreiningur. Það er enginn ágreiningur um það að þetta verði athugað nánar. En þá komum við auðvitað að því að taka ákvörðun um nýja erlenda lántöku. Samkv. þeim tölum sem hafnamálastjóri nefnir er hér um að ræða fjárvöntun upp á u.þ.b. eða rúmlega 7 millj. norskra króna, sem þyrfti þá að taka erlent lán fyrir, því að sennilega eru þm. allir sammála um það að innlend fjáröflun verður alveg nýtt að fullu og öllu.