25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

459. mál, ráðstöfun gengismunar og bætt meðferð sjávarafla

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. sjútvrh. tveggja spurninga. Þær spurningar eru á þskj. 20 og eru svohljóðandi:

„1. Hverjar eru helstu aðgerðir á vegum sjútvrn. sem fyrirhugaðar eru til að koma á bættri meðferð sjávarafla?

2. Hvernig hefur það fé verið notað sem tekið var af gengismun sjávarafurða 1982 til aðgerða til að bæta meðferð sjávarafla, og hvernig á að nota það fé sem tekið hefur verið í sama skyni af gengismun 1983?“ — Ég óskaði eftir sundurliðuðu yfirliti um þetta.

Það hefur verið mikið talað um að bæta meðferð sjávarafla á undanförnum árum og m.a.s. svo mikið að það virðist oft í þeim umr. hafa komið fram að þar væri raunverulega eini vaxtarbroddurinn sem mætti eygja í íslenskum sjávarútvegi, það væri að bæta meðferð sjávaraflans. Sú umræða gefur vitaskuld til kynna að einhver óheillaþróun hafi átt sér stað í meðferð sjávaraflans, ef hægt er að ræða um þennan þátt á þann veg, að þarna sé um stórar fjárhæðir að ræða, og stundum hefur verið rætt um að þetta skipti jafnvel sköpum um að halda mörkuðum á vissum svæðum. Umræðan hefur a.m.k. beinst í þá átt að þarna væri um mjög alvarlegt mál að ræða. Þess vegna fannst mér ástæða til þess að spyrja og fá upplýsingar um það, hvað hefði verið gert í þessum málum á vegum sjútvrn. að undanförnu.

Það hefur einnig verið svo að undanförnu, að ef gengismunur hefur verið tekinn af sjávarafurðum við gengisfellingar hefur verið talað um að verja ákveðnum fjárhæðum til bættrar meðferðar afla. Ég taldi æskilegt að fá um það upplýsingar. Þess vegna er seinni liður fsp. minnar fram borinn.

Ég held að ég eyði ekki fleiri orðum um þetta að sinni, en mundi þá ræða frekar um þetta eftir að hafa heyrt svar ráðh.