24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

406. mál, þyrlukaup

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 165 er borin fram fsp. um það hvort áformað sé að taka skjótt ákvörðun um kaup á nýrri þyrlu til Landhelgisgæslunnar í stað TF Ránar.

Þegar eftir að Landhelgisgæslan missti TF Rán hófust umræður um það hvernig úr yrði bætt. Ég held að það hvernig að verki hefur verið staðið komi skýrt fram í upplýsingum sem forstjóri Landhelgisgæslunnar, Gunnar Bergsteinsson, hefur gefið í bréfum.

Þegar þessi fsp. var lögð fram snemma í desembermánuði s.l. var óskað eftir upplýsingum frá Landhelgisgæslunni um það hvernig vinna gengi í þessu máli. Sem svar við því kom bréf þar sem svo segir:

„Áður en tekin yrði ákvörðun um kaup á þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna í stað TF Ránar, sem fórst í Jökulfjörðum hinn 8. nóv. s.l., þótti undirrituðum rétt að láta fara fram úttekt á flugrekstri Landhelgisgæslunnar með framtíðina í huga, til þess að kanna hvaða tegundir flugvéla og þyrla væru hentugastar til gæslu og björgunarstarfa, miðað við fyrri reynslu og með sérstöku tilliti til hagræðingar í rekstri. Áhersla skyldi lögð á að flýta athugun á þyrlurekstrinum svo að fljótlega væri hægt að gera tillögur um framtíðarskipun hans og þyrlukaup.

Fámennur hópur starfsmanna Landhelgisgæslu og hagsýslustofnunar vinnur að áðurnefndu verki og hefur hann nú þegar safnað nokkrum gögnum til þess að gera tæknilegan og rekstrarlegan samanburð á þeim tegundum þyrla sem helst koma til greina. Auk upplýsinga frá framleiðendum mun reynt að afla upplýsinga um reynslu rekstraraðila mismunandi þyrlutegunda. Strax og starfshópurinn hefur skilað tillögum um þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar og þá gerð eða gerðir þyrla sem hagkvæmastar þykja munu tillögur verða lagðar fyrir dómsmrn. til ákvörðunar um þyrlukaup.“

Þar sem dráttur varð á að þessari fsp. yrði svarað var óskað upplýsinga um það hvernig þessi vinna hefði gengið síðan þetta bréf var ritað 12. des. Síðustu upplýsingar koma fram í bréfi frá Landhelgisgæslunni sem ég vil leyfa mér að lesa með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af bréfi Landhelgisgæslunnar, dags. 12. des. 1983, um þyrlukaup skal eftirfarandi upplýst: Leitað hefur verið upplýsinga um ýmsar þyrlutegundir, sem hentugastar þykja til gæslu og björgunarstarfa, og rætt við umboðsmenn sem til Reykjavíkur hafa komið. Nokkrir framleiðendur hafa gert verðtilboð og enn aðrir sent tilboð sem eru rétt ókomin.

Hinn 19. og 20. jan. fór starfshópurinn, sem að máli þessu vinnur, til Aberdeen ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum Landhelgisgæslunnar, fulltrúum úr dómsmrn., fjmrn. og fjvn. Alþingis. Heimsóttir voru nokkrir rekstraraðilar mismunandi þyrlutegunda og upplýsinga aflað um reynslu þeirra. Flugmenn Landhelgisgæslunnar fengu einnig tækifæri til að fljúga þyrlum sem þeim voru ókunnar og flogið hafði verið til Aberdeen frá Suður-Englandi sérstaklega í þeim tilgangi.

Ferð þessi tókst mjög vel og mun áðurnefndur starfshópur fyrir vikið eiga auðveldara með að vega og meta þau tilboð um þyrlur sem borist hafa eða eiga eftir að berast. Ekki er unnt að segja fyrir víst hvenær athugun starfshópsins verður lokið vegna þeirrar tafar sem orðið hefur á öflun upplýsinga og verðtilboða frá þeim þyrluframleiðendum sem sýnt hafa málinu áhuga, en væntanlega verður það mjög fljótlega.“

Við þessar upplýsingar forstjóra Landhelgisgæslunnar er ekki þörf að bæta mörgum orðum. Ég tel að hér hafi verið reynt að vinna á þann veg að sú ákvörðun sem tekin verður byggðist á sem bestum upplýsingum og yrði sem vænlegust fyrir þetta málefni í framtíðinni.

Eins og hv. alþm. er kunnugt var í fjárlögum þessa árs veitt heimild fyrir lántöku til þessara þyrlukaupa. Ég vonast því til að þegar þessum vandaða undirbúningi verður lokið verði sem fyrst hægt að taka ákvörðun um kaupin og framhaldið.