10.10.1983
Sameinað þing: 1. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir):

Hinn 20. september s.l. var gefið út svofellt bréf:

Forseti Íslands gerir kunnugt:

Ég hef ákveðið samkvæmt tillögu forsrh. að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 10. okt. 1983. Um leið og ég birti þetta er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 20. september 1983.

Vigdís Finnbogadóttir.

Steingrímur Hermannsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 10. október 1983.“

Samkvæmt bréfi því sem ég nú hef lesið lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Íslenska þjóðin lítur jafnan með nokkurri eftirvæntingu til setningar Alþingis og fylgist grannt með orðum og athöfnum þeirra oddvita sinna sem hún hefur valið til að fara með mál sín og hugðarefni. Það þing sem nú hefur verið sett brýtur enn blað í þjóðarsögu okkar. Auk fulltrúa hinna rótgrónu stjórnmálaflokka landsins taka nú til starfa málsvarar tveggja nýrra stjórnmálasamtaka og framboða og hlýtur það að bregða nýjum blæ á störf og umræður þess þings sem hér hefur göngu sína. Allir alþingismenn skulu boðnir velkomnir til starfa, nýir sem þeir sem hagvanir eru á þessum virðulega stað.

Stjórnmálaáhugi á Íslandi er mikill. Það verður okkur ætíð best ljóst þegar gengið er til kosninga. Ég hygg að í fáum löndum sé sá áhugi eins almennur og á Íslandi og er vísast að orsökin sé sú, að sakir fámennis lifum við í meira nábýli hvert við annað en víðast hvar á byggðu bóli. Orð og lífsafstaða manna, hvort sem um er að ræða stjórnmál eða önnur mál er varða þjóðarheill, berast inn á hvert heimili og hvern vinnustað og er þar veitt verðug athygli.

Það er tunga okkar sem geymir sannleikann um okkur sjálf, öll sem eitt, frá degi til dags. Hugsun okkar og framkvæmd et bundin í þau orð sem við látum falla á hverri stundu. Öllum verkum okkar eru fundin orð sem vitnað er til. Verkin kunna að vera heil eða brotin en að baki þeim öllum liggur skoðun á mannlegri tilveru eins og hún birtist okkur og tjáning einstaklinga og hópa á þeirri sömu tilveru. Sagan samanstendur fyrst og síðast af slíkri tjáningu manna sem uppi eru í samtíð hverju sinni, enda verður sagan aðeins tjáð með þeim orðum sem tunga okkar kann að mæla.

Lýðræði okkar Íslendinga hefur fram til þessa dags byggt á hugsun þeirra frumherja sem á 19. öld unnu að endurheimt lýðveldis og gáfu sig alla og líf sitt til að tjá okkur, þegnum þessa lands, hvernig þeir af reynslu genginna alda sáu málum okkar best borgið. Ég leyfi mér að minna enn einu sinni á fleyga alþingishugsjón Jóns Sigurðssonar, frelsishetju Íslendinga, sem felur í sér heilan sannleika þótt liðið sé á aðra öld síðan hann sendi hana löndum sínum til íhugunar:

„Alþingi er frækorn allrar framfarar og blómgunar lands vors — eins konar þjóðskóli landsmanna til að venja þá á að hugsa og tala með greind og þekkingu um málefni þau sem alla varðar. — Alþingi er engan veginn sett höfðingjum í vil, heldur fyrst og fremst alþýðu.“

Okkur hefur verið gert ljóst, háttvirtu alþingismenn, að við lifum þessar stundir á erfiðari tímum en lengi hafa þekkst í landi okkar. Víst er að við Íslendingar hver og einn viljum allt af mörkum leggja til að þjóðarbú okkar standi með þeirri reisn sem við höfum viljað gefa því á undangengnum árum. Síðan lýðveldi var endurreist hefur enginn Íslendingur, það ég veit, gengið að verkum sínum með hangandi hendi, né talið ástæðu til að biðja afsökunar aðrar þjóðir á athöfnum okkar, þar sem við af auðæfum okkar, auð huga og handa, höfum sitthvað til mála að leggja og reyndar mikla gjöf að gefa.

Hlutverk Alþingis er alla daga að leiða þjóð okkar til farsældar. Stundum þarf leiðbeinandinn að tyfta, en það er aðalsmerki hvers uppalanda að beita aga af nokkurri mildi svo að sá sem lýtur forsjá finni hlýju og velvild sem veitt er til velfarnaðar.

Aldrei má draga myndina upp í svo dökkum litum að sköpunarkraftur og þróttur verði drepinn í dróma. Ávani blindar fólk, slagorð blinda fólk, ekki síst séu þau einatt af neikvæðum toga. Fjárhagur, hvort sem hann er of rýr eða of rúmur, getur einnig slegið fólk blindu, í fyrra tilfellinu oft til uppgjafar.

Við Íslendingar erum sterk og starfsöm þjóð, auðug af kröftum og skapandi á öllum sviðum. Sé aftur á móti ekki annað brýnt fyrir okkur en að við séum komin á vonarvöl og ráðum ekki við okkar mál er hætta á að við villumst inn í vítahring óttans — ótta við framtíðina. Þá lokast öll sund. Því munum við horfast í augu við erfiðleikana og sigrast á þeim.

Hvenær sem harðnar á dalnum verður að veita hugarauðgi landsmanna verðugan byr — rækta hverja rót þjóðarjurtar okkar á þann veg að henni finnist að sér hlúð. Megi það jafnan reynast gæfa þjóðkjörinna fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Þá þarf ekki að ugga um Ísland.

Ég bið yður að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Þingmenn tóku undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram. Bið ég aldursforseta, Ólaf Jóhannesson, 9. þm. Reykv., að ganga til forsetastóls.