24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

405. mál, verðlagning á sjávarafurðum á Bandaríkjamarkaði

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. 5. þm. Vestf. var þessi fsp. flutt hér fyrir áramót af varaþm. framsóknarmanna úr Vestfjarðakjördæmi. Hv. þm. las upp fsp. svo að ég sé ekki ástæðu til að gera það aftur. Ég leyfi mér að svara fsp. í einu lagi þar sem hér er um svo tengd atriði að ræða að eðlilegt er að svo sé gert.

Ég vil taka fram að viðskrn. gefur út útflutningsleyfi fyrir freðfiski og fylgist þannig með útflutningsverði. Að því er snertir verð á frystum sjávarafurðum í Bandaríkjunum vil ég benda á að fisksölufyrirtækin þar eru bandarísk fyrirtæki og möguleikar rn. til þess að hafa áhrif á verðstefnu þeirra takmarkaðir. Að sjálfsögðu er möguleiki á því að hafa áhrif á verðstefnu þeirra í gegnum þau fyrirtæki sem eru eignaraðilar að þeim fyrirtækjum sem staðsett eru í Bandaríkjunum. Miðað við bandarísk lög er ekki hægt að samræma verð vöru og koma opinber fyrirmæli um verðlag þar af leiðandi ekki til greina.

Í haust heimsótti ég bæði fisksölufyrirtækin í Bandaríkjunum og átti ítarlegar viðræður við forstjóra þeirra m.a. um það sem þá hafði gerst og hv. þm. vék að áðan. Ekki er óeðlilegt að mat þeirra sem veita þessum fyrirtækjum forstöðu á markaðsástandinu geti verið mismunandi á mismunandi tímum. En tíminn einn verður ævinlega að leiða í ljós hvaða áhrif verðstefna fyrirtækjanna muni hafa á sölu afurða þeirra. Frá því að fsp. var flutt hefur breyting orðið á þannig að um er að ræða sambærilegt verð hjá báðum þessum fyrirtækjum nú.

Rn. gerði athugun á birgðum íslensku fisksölufyrirtækjanna nú í haust og náði sú birgðakönnun bæði til birgða sem til voru hér heima og eins hjá fyrirtækjunum þar vestra. Leiddi athugunin í ljós að freðfiskbirgðir í heild voru töluvert meiri á s.l. hausti en á sama tíma 1982. Síðan hefur ástandið breyst til batnaðar bæði vegna aukinnar sölu á Bandaríkjamarkaði og sölusamnings við Sovétríkin. Enn fremur hefur að sjálfsögðu minnkandi fiskafli áhrif á birgðastöðuna.