24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

137. mál, heildarstefna í áfengismálum

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Nefnd sú sem hér um ræðir var skipuð á s.l. vori með vísun til þál., sem samþykkt var af Alþingi vorið 1981, um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum og að tillögu fjögurra manna nefndar sem fékk það verkefni að gera tillögur um áfengismál. Tillögur þeirrar ráðgjafarnefndar sem hér um ræðir voru lagðar fyrir þáv. heilbrrh. 17. des. 1982. Í samræmi við tillögur þessarar ráðgjafarnefndar var síðan skipuð 17 manna nefnd sem fékk það hlutverk að gera tillögur um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum. Nefndin var skipuð hinn 19. maí 1983 og hélt fyrsta fund sinn 30. júní. Í skipunarbréfi hennar var gert ráð fyrir að á fyrstu þremur mánuðum starfstíma síns ætti hún að vinna að sértillögum um átak í áfengismálum sem hægt yrði að hrinda í framkvæmd á næstu misserum og áður en ríkisstj. hefði endanlega ákveðið hvernig standa skyldi að stefnumörkun í þessum málaflokki.

Með bréfi 1. nóv. 1983 til heilbr.- og trmrh. sendi nefndin fyrrgreinda tillögu um sérstakt átak í áfengismálum. Hér var um að ræða tillögu í 11 aðalliðum og 24 undirliðum. Heilbrrh. kynnti þessar till. í ríkisstj. í fyrstu viku nóv. Þar að auki voru frá rn. send sérstök bréf til þeirra ráðh. sem þessi mál snerta sérstaklega, þ.e. fjmrh., menntmrh. og dómsmrh., til að kanna afstöðu þeirra til till. eins og þær snerta þessi rn. sérstaklega. Ríkisstj. hefur enn ekki fjallað um till. og heilbr.- og trmrn. hafa ekki borist viðbrögð fyrrgreindra rn. við þeim till. sem þeim hafa sérstaklega verið kynntar.

Næsta skrefið í þessu máli af hálfu rn. er að bera málið að nýju upp í ríkisstj. og fá svör ríkisstj. og þeirra rn. sem hlut eiga að máli við þessum frumtillögum nefndarinnar.

Skv. skipunarbréfi sínu vinnur nefndin nú að tillögum um sérstakt átak í vímuefnamálum og mun væntanlega leggja þær fyrir ráðh. í næsta mánuði að því mér er tjáð. Að því loknu mun nefndin taka til við höfuðverkefni sitt, en það er að gera endanlegar tillögur um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum.

Nefndinni hefur verið skipt upp í þrjár vinnunefndir sem fást við eftirtalin atriði:

1. Hvernig haga skuli tilbúningi, dreifingu og sölu áfengis.

2. Hvernig haga skuli áfengisvörnum, upplýsingastarfsemi, rannsóknum á og fræðslustarfsemi um áfengi.

3. Hvernig haga skuli meðferð áfengissjúkra og rekstri meðferðarstofnana.

Ekki er hægt að spá um það nú hvenær nefndin lýkur störfum, en í upphaflegum tillögum um þessi mál var gert ráð fyrir að nefndarstarfið gæti tekið allt að þrem árum.