24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

130. mál, endurgreiðsla söluskatts af snjómokstri

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka fjmrh. skýr svör og jafnframt að hann tók undir það, sem var meginatriðið í mínum mátflutningi, að ekki væri sanngjarnt að sveitarfélög þyrftu að standa í auknum útgjöldum vegna snjómoksturs til ríkisins þegar árferði væri þannig. Hitt urðu mér að sjálfsögðu mikil vonbrigði að því skyldi hér vera slegið föstu að lögin væru óframkvæmanleg. En mér sýnist samt að það sé nú nokkur svikkur á þeirri afstöðu.

Í fyrsta lagi liggur ljóst fyrir að það yrði ærið margt sem ekki yrði framkvæmt ef sú stefna yrði tekin að allt það sem fyrrv. fjmrh. hefði getað verið búinn að koma í verk, en var ekki búinn að, yrði látið ógert. Einnig eru það ekki rök í þessu máli hvort það verður til að auka yfirdrátt í Seðlabanka Íslands eða ekki. Afstöðu til þessa máts hlýtur að verða að taka aðeins út frá því sjónarmiði einu hvort lögin séu þannig úr garði gerð að þau séu framkvæmanleg eða ekki. Ég vænti þess vegna að fjmrh. muni nú í rólegri yfirvegun meta hvernig hann telur skynsamlegast að andi laganna komist í framkvæmd, þ.e. að ríkið hagnist ekki á því þegar mikið snjóar, og má hver maður gera sér grein fyrir því að þó að Þjóðhagsstofnun setji nú fram ýmsar spár getur orðið erfitt að setja fram tekjuspá fyrir ríkið ef sú spá á endanlega að byggjast á spá Veðurstofunnar fram í tímann heilt ár. Heldur ótraustur grunnur væri það.

Ég get tekið undir að það er hugsanlegt að fara þá leið að nota Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og endurgreiða og setja þannig þak á þær endurgreiðslur sem framkvæmdar eru. En ég vil eindregið undirstrika að það er engin friðarvon í þessu máli fyrr en það er komið í höfn og sá vilji Alþingis verður virtur að einhverjar endurgreiðslur eigi sér stað.

Ég hygg að fjmrh. sé ljóst að þeir sem m.a. munu að sjálfsögðu knýja á um lausn þessa máls eru þéttbýlissveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vegna þess tíðarfars sem hér hefur verið og annars staðar, enda er þetta ekki mál sem ætti að verða deiluefni milli landsbyggðar og þéttbýlis. Spurningin er aðeins: Hvernig er skynsamlegast að standa að því að ná landi í þessu máli? Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. muni í rólegri íhugun beita sér fyrir lausn á því sem allra fyrst.