24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

138. mál, útgáfa sérkennslugagna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. 1. tölul. í fsp. á þskj. 178, spurningunni um stefnu í útgáfu sérkennslugagna, get ég svarað á þá leið að ég tel álit þeirrar nefndar sem skilaði áliti í maí s.l. og skipuð var 27. jan. 1982 vera mjög vel til þess fallið að vera haft að leiðarljósi á næstu árum við gerð og útgáfu námsefnis fyrir nemendur með sérþarfir. Fram til þessa eða til skamms tíma hefur ekki farið fram nein skipuleg útgáfa á sérkennsluefni, a.m.k. ekki á vegum Námsgagnastofnunar, en þetta gildir um öll svið sérkennslunnar. Í sérkennslunni hefur aðallega verið notast við almennar kennslubækur, þær umskrifaðar, einfaldaðar og styttar eða miðlað þekkingu með öðrum hætti. Þetta hefur verið í höndum hvers og eins kennara. Þá er algengt að sérkennsluefni sé samið af kennurunum sjálfum, en aðstaða þeirra til námsefnisgerðar er víðast mjög bágborin. Því liggur talsvert efni hjá sérkennurum í frumdrögum eða hálfunnið og það mætti e.t.v. nýta.

Það sem gert hefur verið og alveg er í samræmi við niðurstöður þessarar nefndar er að í okt. s.l. var ráðinn sérkennari til Námsgagnastofnunar í hlutastarf. Frá hans hendi liggja fyrir drög og framkvæmdaáætlun fyrir 1984 sem ég get gert grein fyrir sé þess óskað, en ég hygg að tímans vegna verði heppilegast að ég afhendi fyrirspyrjanda þá áætlun skriflega.

Í fsp. er 2. tölul.: „Hve miklu fjármagni hefur á s.l. 5 árum verið varið sérstaklega til kennslugagna fyrir nemendur með sérþarfir á grunnskólastigi?“ Þá er fyrst til að svara um það sem fram hefur farið hjá Námsgagnastofnun. Skv. reikningum þeirrar stofnunar er kostnaður vegna útgáfu fyrir nemendur með sérþarfir og færður til verðgildis ársins 1983 þessi: Árið 1979 var engu fé varið til þessarar útgáfu. Árið 1980 voru það 9069 kr., 1981 134 730 kr., 1982 218 409 kr. og 1983 403 003 kr. Samtals eru þetta 765 211 kr. En á það er að líta að skv. áætlun nefndarinnar, ef hún er framkvæmd að fullu má ætla að á 5 árum fari rúmar 2 millj. í þessu skyni á ári.

Á vegum skólarannsóknadeildar menntmrn. hefur einnig verið varið nokkru fé í því skyni að undirbúa gerð sérkennslugagna eða sinna sérkennslu fyrir þann hóp sem hér um ræðir. Þá er fyrst til að taka að nefndarlaun þeirrar nefndar sem vitnað var til í upphafi fsp. voru 16 500 kr. Í öðru lagi var varið sem svarar 3ja mánaða kennaralaunum til þess að vinna að námsskrá fyrir nemendur með sérþarfir. Það var unnið í Öskjuhlíðarskóla. Námsskráin kom út árið 1983 og nefnist Hugmyndasafn fyrir samfélags- og náttúrufræði og var bráðabirgðaútgáfa unnin af kennurum skólans í samvinnu við Ingvar Sigurgeirsson fyrrv. námsstjóra. Enn má þess geta að aðrir námsstjórar í skólarannsóknadeild rn. hafa fjallað um sérkennslumál í tengslum við kennslu í námsgreinum og tengdum skólastarfi almennt. Starf af því tagi hefur ekki verið sérstaklega greitt í þessu skyni heldur fólgið í öðrum almennum störfum þessara námsstjóra.

3. liður fsp. er: „Hve margir nemendur, sem njóta sérkennslu eða stuðningskennslu í eða utan almennu grunnskólanna, þurfa á sérkennslugögnum að halda?“ Þeir nemendur sem njóta sér- og stuðningskennslu í eða utan almenns grunnskóla eru þessir: nemendur í sérskólum 359, nemendur í sérdeildum 183, nemendur í starfsnámi og fullorðinsfræðslu 280, nemendur í sérskólum og sérdeildum samtals 822. Auk þess eru nemendur í stuðningskennslu í almennum grunnskólum samtals 4500. Hér er því samtals um 5322 nemendur að ræða.

Ég hygg, herra forseti, að með þessu sé fsp. svarað í höfuðdráttum.