24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

76. mál, orkusparnaður

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um orkusparnað sem er á þskj. 81. Flm. auk mín er hv. þm. Kristín S. Kvaran. Ég vil lesa till. Hún er svona:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að semja reglugerð um orkusparnað sem m.a. feli í sér eftirfarandi:

a) Ef orka til húshitunar er greidd niður skulu greiðslur aðeins inntar af hendi vegna þeirra húsa sem uppfylla skilyrði núverandi byggingarreglugerðar um einangrun.

b) Eigendum húsa, sem ekki uppfylla þau skilyrði, skal gefinn kostur á hagkvæmu lánsfé til að kosta einangrun húsa sinna, þannig að tryggð verði sem næst sambærileg nýting orku til húshitunar samkv. reglugerð sem samin verði þar um.

c) Ákveðnar verði hámarksupphæðir niðurgreiðslna til einstakra orkukaupenda. Upphæðirnar verði miðaðar við rúmmál húsa.“

Í upphafi grg. segir svo, með leyfi forseta:

„Á undanförnum vikum hafa orðið miklar umræður um virkjunarkostnað og verð á raforku á Íslandi. Ýmislegt hefur komið fram um þann vanda sem við er að glíma á sviði orkuvinnslu og orkusölu. Minna hefur verið rætt um orkusparnað. Það ætti þó öllum að vera ljóst að þegar orðið er dýrt að framleiða hverja orkueiningu er jafndýrmætt að spara hana.“

Síðar í grg. segir:

„Á undanförnum árum hefur raforka verið nýtt hér í vaxandi mæli til húshitunar til að spara olíukaup. Af sömu ástæðu hefur nýting jarðvarma verið stóraukin. Í fréttabréfi Orkustofnunar nr. 3, okt. 1983, er grein eftir Jón Ingimarsson sem nefnist: „Húshitunarvandinn — leið til lausnar“. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar um orkunotkun til húshitunar og hversu mikla orku mætti spara með því að einangra þök og setja tvöfalt gler í hús þar sem slíkt vantar.

Í greininni kemur fram að það er arðbær fjárfesting af hálfu hins opinbera að veita fé til einangrunar húsa og draga jafnframt úr niðurgreiðslum. Lauslegir útreikningar á orkunni, sem vinnst með slíkum sparnaði og þeim fjármunum sem til væri kostað, benda til að hér sé á ferðinni „virkjunarkostur“, sem gefi jafnvel ódýrari orku en næstu stórvirkjanir. Að auki er hann smærri í sniðum og nýtir jafnóðum framlagt fjármagn. Slíkri herferð til sparnaðar mundi fylgja aukin atvinna byggingamanna um land allt.“

Í sambandi við þetta mál má segja mjög margt. Það má líta á a.m.k. þrjú atriði: Í fyrsta lagi er það húshitunarkostnaðurinn eða húshitunarvandinn svokallaði, í öðru lagi eru það niðurgreiðslur á orku og í þriðja lagi er það húseinangrun. Það má líta á hvort einangrun sé í samræmi við núgildandi staðla. Það má einnig líta á hvort ástæða sé til að herða einangrunarkröfur og breyta byggingarháttum.

Ef við lítum aðeins á fyrsta atriðið, sem er húshitunarkostnaður, þá er það svo, að nú eru um 10 ár liðin frá fyrri olíukreppunni. Viðbrögð okkar voru í fyrsta lagi aukin nýting innlendra orkugjafa, sem voru eðlileg viðbrögð, og olíustyrkir svokallaðir, sem voru líka eðlileg viðbrögð til þess að taka á þeim bráða vanda sem þá steðjaði að. Þriðja leiðin, sem kom til greina en við hins vegar fórum ekki hérlendis þá, var orkusparnaður. Þá leið fóru hins vegar flestallar þjóðir og í því skyni var þá erlendis haldið uppi margs konar áróðri til orkusparnaðar. Ég man t.d. eftir að í Englandi var rekinn áróður fyrir orkusparnaði með því að birta auglýsingu sem hét Shower with a friend — eða taktu einhvern með þér í sturtu. Þetta var lostafull auglýsing og hafði umtalsverð áhrif til orkusparnaðar, var mér sagt. Það er svo ekki fyrr en í seinni olíukreppunni, eða 1978, að menn hérlendis fóru verulega að veita athygli orkusparnaði eða bættri nýtingu á orku.

Það er hins vegar svo, að nýting orku til húshitunar er léleg. Þegar neytendur hafa setið frammi fyrir háum orkureikningum hefur þeirri aðferð verið beitt að greiða niður taxta rafveitnanna. Eins og ég kem að hérna síðar tel ég það í grundvallaratriðum vera ranga aðferð af ýmsum ástæðum því að ég tel að hún leiði til sóunar. Ég er hins vegar ekki að tala á móti jöfnun í húshitunarkostnaði, ég er bara að tala um breyttar aðferðir.

Eins og ég sagði í upphafi er augljóst að þegar hver orkueining er dýr í framleiðslu er jafndýrmætt að spara hana. Með sparnaði mundi orkureikningur húseigandans lækka og kostnaður þjóðarbúsins sömuleiðis.

Í framangreindri grein Jóns Ingimarssonar verkfræðings hjá Orkustofnun eru ýmsar mjög merkilegar upplýsingar. Þar er getið athugana sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gerði á orkunotkun húsa í fjórum bæjum á Íslandi. Þessir útreikningar voru miðaðir við 400 rúmmetra hús, sem er meðaleinbýlishús. Það kom í ljós að ársnotkun á olíu á rúmmetra í húsi var frá 3 lítrum og upp í 50 lítra, þ.e. 17-faldur munur milli sambærilegra húsa. Þegar athuguð voru rafhituð hús kom í ljós að dreifing á orkunotkun var frá 20 kwst. á rúmmetra á ári og upp í 240 kwst. á rúmmetra á ári, þ.e. 12-faldur munur á orkunotkun sambærilegra húsa. Ástæður fyrir þessum gífurlega mun á orkunotkun einstakra húsa eru auðvitað margar, þar á meðal t.d. aldur húsanna, heitfengi íbúanna og lífsvenjur, loftræsting og síðast en ekki síst einangrun. Athuganir sem voru gerðar á einangrun húsa í þessum sömu bæjum benda til þess að 15% þakflatar húsa sé óeinangruð, ef hægt er að taka mið af þessum niðurstöðum. Það mundi samsvara því að á Íslandi væru 250 þús. fermetrar þaka óeinangraðir. Það eru að ég hef reiknað held ég um 25 hektarar. Menn geta sér til gamans eða óhugnaðar, eftir því hvernig þeir eru innstilltir, reynt að ímynda sér 25 hektara óeinangrað hús og kostnaðinn við að halda þar inni allt að 25 gráðu hita.

Samkv. sömu gögnum má einnig áætla að í 10% gluggaflatar sé einfalt gler, en einfalt gler tapar umtalsverðri orku. Ef við yfirfærum það aftur yfir á landsvísu væru það um 43 þús. fermetrar glers í landinu.

Í áðurnefndri grein Jóns Ingimarssonar eru útreikningar sem benda til að bætt einangrun þaka, sem mundi kosta á að giska 250 millj., mundi spara um 80 millj. á ári. Þetta er arðsemi sem ég held að sé erfitt að slá við. Tvöföldun glugga mundi kosta um 110–160 millj., en mundi skila í orkusparnaði um 25 millj. á ári. Af þessum tölum er augljóst að það er verulega arðbær aðgerð að endurbæta einangrun húsa. Því er lagt til í þessari þáltill. að eigendum húsa, sem ekki uppfylla lágmarksskilyrði um einangrun, verði gefinn kostur á hagkvæmu lánsfé til að kosta einangrun húsa sinna. Til að fá hugmynd um það magn orku sem hér um ræðir, sem mætti spara, mætti jafnvel ímynda sér samkv. útreikningum — svona útreikningar geta nú verið á ýmsan hátt — að 90 gwst. mundu sparast, sem lætur nærri að sé um tíundi hluti Blönduvirkjunar. Það er því enn einu sinni augljóst að við erum að tala um mjög verulegar stærðir.

Ég hef hérna gert að umtalsefni grein Jóns Ingimarssonar og Orkustofnun. Síðan þessi þál. var lögð fram hefur bæst við mjög merkileg rannsókn. Það er rannsókn sem Samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi létu gera í Grundarfirði. Það er Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen sem vann það verk. Þar er rannsakaður orkubúskapur 27 húsa og í skýrslu, sem er dags. 21. nóv. s.l., er gerð grein fyrir ástandinu. Þetta er mjög merkilegt og mjög gott plagg og ég vil hvetja þm. til að kynna sér það. Í lokaniðurstöðum skýrslunnar segir, með leyfi forseta:

„Sýnd eru dæmi um afgreiðslu einstakra húsa [þ.e. hvernig unnið var að þessari könnun.] Orkunotkun þeirra húsa sem athuguð voru er að meðaltali 66% hærri en hún væri ef þessi hús væru einangruð í samræmi við byggingarreglugerð frá 1979. Dæmi eru um að hús eyði um 100–150% meira en skyldi. Árlegur kostnaður húseigenda við þessa orkusóun“, segir enn í skýrslunni, „nemur að meðaltali um 11 800 kr. og sambærilegur kostnaður ríkisins nemur um 8 þús. kr. ef tekið er mið af niðurgreiðsluhlutfalli ríkisins í gjaldskrá RARIK.

Þörf er mikilla úrbóta. Ýmsar sparnaðaraðgerðir eru auðveldar í framkvæmd og skila sér fljótt, en aðrar eru erfiðar í framkvæmd og kostnaðarsamar. Heppilegt er að fljótlega verði tekin af hálfu hins opinbera afstaða til þess að hvaða markmiðum beri að stefna í orkusparnaði í húshitun og þá til hvaða aðgerða stjórnvöld ætli að grípa til aðstoðar húseigendum. slíkt er æskileg forsenda fyrir því að geta gefið fólki góð ráð um val á aðgerðum til úrbóta og val á einangrunarþykktum. Þörf er á tækni- og rannsóknarvinnu við nokkra þætti þessa máls, svo sem leit að þunnri gólfeinangrun og þróun á stöðluðum litlum loftskiptakerfum með varmanýtingu. Ýmsar sparnaðaraðgerðir eru mjög hagkvæmar. Að ráðast gegn orkusóuninni er því þjóðhagslega hagkvæmt verkefni. Fólk virðist jákvætt og því er jarðvegur góður fyrir myndarlegt átak í þessum málum. Framtak húshitunarnefndar samtakanna hefur því góða möguleika á því að skila árangri, einkum ef viðbrögð stjórnvalda verða góð.“

Þetta var úr skýrslu frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen um athugun á húshitun á Vesturlandi. Þetta var um húshitun og einangrun og nefndar nokkrar merkilegar stærðir í því efni. Það næsta sem mig langaði til að gera að umtalsefni eru niðurgreiðslur á orku og styrkir til húshitunar. Eins og áður segir þá er stórkostlega mikilvægt að bruðla ekki með dýrmæta auðlind. Til þess er nauðsynlegt að hafa í frammi bæði fræðslu og áróður. Á þetta hefur lengi skort verulega hérlendis. Kosturinn, sem hefur verið valinn hér, er hins vegar að létta fólki þessa byrði með því að greiða orkuna niður.

Á árunum 1974–1983 er heildarupphæð olíustyrkja rúmlega 1300 millj. kr. á verðlagi 1. júní 1983. Ef við lítum á þær tölur sem hér hafa verið birtar um ástandið í húsaeinangrun, þá er hér líklega um stórkostlega sóun að ræða. Sú aðferð að greiða niður taxta orkuveitna án þess að gera kröfur til húseigenda um einangrun húsa er í raun og veru þess eðlis að hún verðlaunar á vissan hátt þá sem sóa mestri orku. Þeir sem mestri orku sóa fá mest frá skattborgurunum. Eins og sést af þeim upplýsingum sem hér var talað um áðan, þá er geysilegur, þ.e. meira en tífaldur munur á minnstu og mestu orkunotkun húsa.

Það er grundvallaratriði, að ég tel, að verð orkunnar sé a.m.k. kostnaðarverð á hverjum tíma. Notendur eiga að sjá á reikningum sínum hvað orkueiningin kostar í raun og veru og hvað heildarorkunotkun þeirra kostar. Og þá upphæð eiga þeir að greiða orkuveitunum. Á þennan hátt eru orkuneytendur hvattir til ábyrgðar á notkun sinni og orkufyrirtækjunum tryggt eðlilegt rekstraröryggi.

Nú spyr kannske einhver: Hvað með jöfnun orkukostnaðar? Er hann að tala á móti jöfnun orkukostnaðar? Svo er ekki. Jöfnun orkukostnaðar er réttlætismál og réttlætiskrafa, en jöfnuði verður ekki náð með þeim niðurgreiðslum sem nú eru hafðar í frammi. Það er nefnilega í raun og veru ekki jöfnuður að skattgreiðendur þurfi að verðlauna þá sem mestri orku sóa. Það er hægt að hugsa sér margar aðgerðir sem stuðla að jöfnun hitakostnaðar og verka samtímis hvetjandi til orkusparnaðar, og það er aðalatriðið. Þannig mætti ímynda sér t.d. að hitunarkostnaður fyrir ákveðna stærð af íbúðarhúsi og ákveðna fjölskyldustærð væri greiddur niður með ákveðinni krónutölu fyrir hverja kwst. fyrir einhverja ákveðna notkun, t.d. upp í 15 þús. kwst. á ári. Síðan kæmi önnur lægri krónutala í niðurgreiðslur á kwst. fyrir t.d. 15–20 þús. kwst. orkunotkun á ári. Það er síðan ákvörðunaratriði hversu mörg þessi þrep yrðu og hvernig niðurgreiðslum yrði háttað. Það gæti síðan hreinlega verið spurning hvort þeir sem nota gífurlega mikla orku, þeir sem mætti kalla orkusóara eftir þeim upplýsingum og beinlínis þeim orðum sem eru við höfð í framangreindri skýrslu, hvort þeir sem nota gífurlega mikla orku eigi þá ekki hreinlega að greiða verð yfir kostnaðarverði fyrir orkunotkun sem er umfram eitthvert ákveðið mark.

Ég tel í raun að eini fyrirsjáanlegi hængurinn á svona fyrirkomulagi, svona þrepafyrirkomulagi á jöfnun orkukostnaðar, sé stjórnunarhliðin. En með þeim möguleikum sem nú eru til gagnasöfnunar og gagnaúrvinnslu og með því að vísa þessu heim í hérað, þar sem upplýsingar liggja fyrir á hverjum tíma um rúmmál húsnæðis og fjölskyldustærðir, ættu sveitar- og bæjarfélög á auðveldan hátt að geta greitt jöfnunargreiðslur á húshitunarkostnaði gegn framvísun orkureikninga neytenda. Jafnvel þótt menn hefðu af þessu fyrirhöfn þá er ávinningurinn af kerfi, sem er eitthvað í þessa áttina, óumdeilanlegur. Það sem vinnst er í fyrsta lagi: Að orka sem er seld á kostnaðarverði tryggir afkomu orkufyrirtækjanna. Í öðru lagi: Neytendur sjá hvað orkunotkun þeirra kostar á raunvirði á hverjum tíma. Í þriðja lagi: Það er unnið gegn orkubruðli með því að hafa orkuverðið stighækkandi. Og í fjórða lagi: Að sparnaður er í raun og veru verðlaunaður.

Eins og kemur fram í inngangsorðum kæmi þessu til viðbótar að einangrun samkv. ákveðnum stöðlum væri skilyrði fyrir greiðslu jöfnunargjalda. Það væri sem sagt gert að skilyrði fyrir því að menn fengju greidd þessi jöfnunargjöld að einangrun húsa þeirra væri samkvæmt ákveðnum stöðlum. Þess eru dæmi víða erlendis að húseigendum er neitað um að nota rafmagn til húshitunar ef hús þeirra eru ekki almennilega einangruð. T.d. munu vera til í Svíþjóð reglur um að menn fái ekki rafhitun í hús ef það eyði fyrirsjáanlega meira en einhverjum ákveðnum fjölda kwst. á ári.

Að síðustu vil ég víkja stuttlega að húsaeinangrun og því hvort jafnvel sé rétt að auka einangrunarkröfur frá því sem nú er. Á undanförnum árum hafa orðið verulegar umræður hér á landi um byggingaraðferðir. Tilefnin eru í fyrsta lagi hinar alþekktu alkalískemmdir í steinsteypu og í öðru lagi vaxandi notkun einingahúsa bæði hérlendra og innfluttra. Það vekur nefnilega athygli að ýmsar tegundir innfluttra húsa uppfylla miklu strangari kröfur um hitanýtingu heldur en núgildandi byggingarreglugerðir á Íslandi gera ráð fyrir. Það væri virkilega þess virði að líta nánar á það atriði.

Ef við snúum okkur að alkalískemmdunum og því sem umræða um þær og rannsóknir hafa leitt í ljós þá var eitt af mörgu sem þar kom á óvart það, að hinn svokallaði hefðbundni íslenski veggur, steinsteypuveggur með einangrun innan á er líklega svo vægilega sé til orða tekið, mjög óskynsamlegur. Með tilliti til einangrunar skiptir það miklu máli varðandi þessa byggingaraðferð að það myndast kuldabrýr þar sem innveggir tengjast útveggjum og þar sem svalir eða önnur útskot tengjast steyptum flötum inni í húsinu. Það skiptir líka máli að í slíkum veggjum er talsverður vatnsgangur. Annars vegar að innan vegna loftraka innanhúss sem er yfirleitt meiri en í andrúmsloftinu fyrir utan. Þessi loftraki þéttist svo inni í veggnum. Einnig kemur síðan vatn að utan af eðlilegum orsökum, vegna íslensks slagveðurs. Þessi vatnsgangur er mjög skaðlegur ýmsum einangrunarefnum. Rannsóknir benda til að efni, sem hafa verið notuð til einangrunar í íslenskum húsum, þoli ekki þann mikla raka sem rannsóknir hafa sýnt að þessi byggingaraðferð orsakar í húsveggjum og raki í einangrunarefni skerði verulega einangrunargildi þess. Íslenskir byggingarfræðingar hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hafa gert margvíslegar athuganir á þessu og gefið út um þetta ýmisleg gögn sem eru mjög fróðleg. Það er líklegt að sú breyting á byggingarmátanum að færa einangrun húsa utan á útveggi þeirra mundi spara okkur stórfé með orkusparnaði, með útrýmingu kuldabrúa og þurrkun veggja. Að auki mundi það vera stórkostleg vörn gegn steypuskemmdum af líkum toga og alkalískemmdirnar eru því með þessu móti mundu útveggir verða jafnheitir árið um kring og sífellt þurrir. Þar að auki mundi ending steyptra húsa aukast vegna þess að mishitaspennur mundu hverfa úr burðarvirkjunum og hætta á sprungumyndun minnka. Það er almennt viðurkennt að einangrun utan á húsum hefur meiri kosti en gamla aðferðin. Eins og áður segir hverfa kuldabrýr og sparnaður þess vegna gæti hugsanlega numið allt að 13% á orkunotkun.

Að auki hefur verið metið að það mundi sparast allt að 7% vegna orku sem venjulega tapast núna frá hitapípum sem eru í illa einangruðum veggraufum í köldum veggjum.

Bara þessi tvö dæmi vísa til orkusparnaðar allt að 20% einfaldlega með því að færa einangrun húsa utan á húsveggina. Síðan er eitt sem mætti nefna í þessu sambandi og kannske okkur væri ríkt í hug núna eða hefði getað komið okkur í hug að undanförnu. Það er það að þetta byggingarlag leyfir verulega varmagengd í veggjunum sem eru kannske 25 gráðu heitir og þetta nýtist fólki til mikilla þæginda ef skammtímabilun verður í veitukerfi. Það er ágætt að vita af því að þegar hitaveitan er í þann veginn að syngja sitt síðasta á maður í húsinu sínu virkilega mikinn varma sem nýtist þá á köldum dögum og nóttum.

Ég ætla nú að fara að ljúka máli mínu. Þetta hafa aðeins verið lítil dæmi um atriði sem mætti líta vandlega á til að meta hvort það yrði þjóðhagslega okkur til hagsbóta að breyta byggingareglugerðum og herða kröfur um einangrun. Ég vil koma því hér að að í Reykjavík er nú í byggingu hús í eigu Sturlu Einarssonar byggingarmeistara. Þar er verið að gera ýmsar merkilegar tilraunir um þá hluti sem hér hefur verið lýst. Það er líka verið að gera tilraunir í öðrum málum sem miða við að lækka byggingarkostnað og að bæta hitanýtingu. Þar eru á ferðinni alveg gjörbreyttar aðferðir við upphitun húsa. Þetta er mjög lofsvert framtak, en það er umhugsunar virði fyrir okkur, þegar við erum að tala um mál sem hefur hugsanlega jafnmikið þjóðhagslegt mikilvægi, að frumkvæðið og kostnaðurinn við þessa framkvæmd skuli að mestu leyti koma frá, einstaklingi. Ég held að við ættum að reyna að ná í skottið á okkur í byggingarrannsóknunum. Við höfum margt gert þar mjög vel, en við höfum hingað til verið í því hálfleiðinlega hlutverki að gera ekki betur en að finna á hverjum tíma aðferðir til að bæta fyrir gömlu syndirnar. Ég held að það þurfi að efla byggingarannsóknir til þess að við komumst svolítið fram úr sjálfum okkur og reynum að sjá hluti fyrir og girða fyrir að við föllum í gryfjurnar.

Herra forseti. Ég vil ítreka að ég er ekki að tala á móti jöfnun húshitunarkostnaðar. Í:g er að tala um breytta aðferð við jöfnun húshitunarkostnaðar — aðferð sem ég tel að mundi leiða til aukins sparnaðar á orku, sem er stórkostlega mikilvægt.

Herra forseti. Ég mælist til þess að þessari till. verði vísað til atvmn. Sþ.