24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

Umræður utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Neyðarástand er orðið hjá allstórum hópi á vinnumarkaðnum, ekki bara vegna atvinnuleysis heldur einnig og ekki síður vegna bágra kjara. Þeir lægst launuðu eru komnir í algjört þrot, svo og þeir sem verða að draga fram lífið á ellilaunum og örorkubótum. Tölulegar upplýsingar liggja ekki á borðinu, en það fer varla nokkur að andmæla þeirri fullyrðingu minni að í þessum hópi eru konur í miklum meiri hluta, fyrst og fremst einstæðar mæður og aldraðir einstaklingar.

Dagblöðin hafa verið ötul við að flytja okkur fréttir af þessu fólki-fréttir sem vekja hroll og knýja á um að eitthvað verði gert til aðstoðar þessu fólki. Morgunblaðið hefur ekki látið sitt eftir liggja. T.d. birti það 30. des. s.l. sex viðtöl við fólk. Það var talað við 88 ára gamla konu sem hafði 8 300 kr. á mánuði til að lifa af og 65 ára gamla konu sem hafði orðið að segja upp starfi til að geta annast sjúka móður sína á tíræðisaldri, en þær mæðgur og önnur systir á sjúkrahúsi mega láta sér nægja 8 000 kr. á mánuði til að lifa af. Það er talað við 62 ára gamla konu sem er 75% öryrki. Hún fær rúmar 8 þús. kr. á mánuði og kveðst alltaf hafa haft það erfitt fjárhagslega, en aldrei eins og nú. Ung kona, sem einnig er 75% öryrki, hefur svipaða sögu að segja. 75 ára gamall maður lýsir erfiðleikum sínum við að halda íbúðarholu sem hann hefur fest sér. Og loks er rætt við fjögurra manna fjölskyldu; karlmaðurinn atvinnulaus og sjúkur, eiginkonan vinnur úti fyrir 7 þús. kr. á mánuði, en greiðir 6 þús. kr. af þeim í barnagæslu. Þessi fjölskylda hefur orðið að leita á náðir Fétagsmálastofnunar eins og svo margir aðrir að undanförnu. Þetta eru aðeins örfá dæmi. Sagt hefur verið frá fjölmörgum slíkum sem gerast æ algengari þessar vikurnar.

Það er heldur nöturlegt að sjá svo í sömu blöðum fréttir af sérlega góðri afkomu ýmissa annarra þjóðfélagshópa, sem m.a. sést af því að ásókn í laxveiði ætlar að verða með eindæmum á næsta sumri. Stangaveiðifélag Reykjavíkur er nú að leita að fleiri vatnasvæðum en það hefur ráð yfir í augnablikinu til að mæta þessari auknu eftirspurn. Sennilega valda einstæðar mæður ekki miklum erfiðleikum í þeim efnum.

Þegar kemur að atvinnuleysinu er hlutur kvenna þar einnig afar slæmur, eins og t.d. kom fram í frétt af atvinnuástandi í Grindavík í DV 11. þ.m., en þar segir, með leyfi forseta:

„Helga sagði að það væri einkennandi fyrir þetta atvinnuleysi, eins og alltaf áður, að það bitnaði harðast á konum. Af þeim 76 sem nú eru skráðir atvinnulausir eru 60 konur en 16 karlar. Karlarnir væru áfram við vinnu í fiskvinnsluhúsunum við ýmis störf, en konunum væri sagt upp.“

Þessum konum gagnar lítið þótt vanti í nokkur störf á Vestfjörðum og Austfjörðum svo að flytja þarf inn erlent vinnuafl. Þessar konur eru bundnar við heimili og börn í Grindavík eða hvaða heimabæ sem er.

Um þessi mál, atvinnu- og launamál, ætla ég svo ekki að hafa fleiri orð að sinni. Ástandið er augljóst hverjum sem sjá vill og skilja. Við þurfum aðgerðir og það strax. Við þurfum aðgerðir sem tryggja öllum mannsæmandi líf, jafnvel þótt það kunni að kosta það að ríkisstj. þyrfti að staka á klónni í baráttu sinni við að halda niðri verðbólgunni. Hvað launamálin varðar verð ég að játa að mér finnst það meiri háttar ósigur ef ekki tekst að hækka laun hinna lægst launuðu verulega og bæta þannig kjör þeirra eftir eðlilegum leiðum. En ef það tekst ekki alveg á næstu vikum hlýtur ríkisvaldið að verða að koma til bjargar þeim verst stöddu, hvort sem aðstoðin heitir afkomutrygging eða eitthvað annað. Og vil ég spyrja forsrh. um afstöðu hans til þessa.

En í lengstu lög vil ég vona að takist að semja um verulega leiðréttingu launa og þá um leið lífeyris- og örorkubóta svo að þeir lægst launuðu og verst settu þurfi ekki að gerast bónbjargafólk.