24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það er margt hægt að segja í þessari umr. og það er margt hægt að segja um það sem hér hefur komið fram, en það sem kannske er sárasti lærdómurinn er úrræðaleysi stjórnvalda enn þá einu sinni. Þessar ræður hefðu getað verið fluttar í fyrra eða fyrir fimm árum eða tíu árum. Einhverra hluta vegna tekst íslenskum stjórnvöldum og Íslendingum ekki að komast af þessu frumstæða atvinnustigi.

Sálfræðingar hafa gjarnan skipt atferli eða hegðun í tvennt. Þeir hafa sagt að ákveðið atferli sé andsvar við einhverjum aðsteðjandi áreitum. Þá eru frægasta dæmið hundar Pavlvs sem slefuðu þegar þeir sáu kjöt og lærðu síðan að slefa þegar þeir heyrðu hringt bjöllu. Þeir gerðu þetta ekki nema áreitið væri óumflýjanlega í umhverfinu. Þetta þykir heldur frumstætt. Við segjum að maðurinn hafi stóran heila. Hann hefur annars konar atferli. sem er frumkvæði. Það er atferli sem verður til án ákveðins áreitis, þ.e. framsýni.

Menn geta svo sem stytt sér stundirnar við að reyna að flokka íslensk stjórnvöld og reyna að finna í hvorn atferlisflokkinn þeirra hegðun falli, hvort þau sýni mikla fyrirhyggju eða hvort þau séu sífellt að bregðast við aðstæðum. Við getum sagt að íslenskt stjórnarfar sé skipulagður flótti. Ég held að það hljóti að vera að flest það sem íslensk stjórnvöld hafa aðhafst í þeim málum á undanförnum árum og jafnvel áratugum komi í fyrri flokkinn með hundunum hans Pavlovs, þar sem menn bregðast við einhverjum bráðum áreitum.

Einhverjar fyrstu minningar mínar úr pólitík eru tengdar því þegar menn voru að ræða um álverið í Straumsvík. Þá var talsverð atvinnumálaumr. Það var oft sagt: Við verðum að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs, við þurfum að renna undir það fleiri stoðum, við þurfum að byggja sterkari grunn, við þurfum að byggja og breyta. Við erum í raun og veru — þetta var fyrir tæpum 20 árum — að segja það sama enn þann dag í dag. Á þessum árum hefur þó ómældur auður runnið í gegnum þjóðarbúið. Samt má einungis lítið út af bera til þess að okkur reki upp á sker. Menn skyldu hafa í huga það sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði áðan. Við erum ekki að tala um skyndilega minnkun þorskafla úr 450 þús. tonnum niður í 220 þús. tonn. Við erum að tala um vanda sem hefur átt sér ákveðinn aðdraganda. Við erum að tala um aflaminnkun sem hefur verið stöðug síðan 1981. Við erum að tala um hugsanlega aflaminnkun 1983–1984 úr tæpum 300 þús. tonnum niður í 220 þús. tonn. Og við erum að tala um á sama tíma aukna nýtingu annarra fiskstofna. Það er svo sem nógu slæmt sem á okkur dynur, en það er ekki eina skýringin á því ástandi sem ríkir hjá okkur í dag, því miður.

Á hvern hátt sjáum við vilja stjórnvalda til sóknar í atvinnumálum t.d. í dag? Hvernig hefur vilji stjórnvalda birst okkur á undanförnum vikum eða undanförnum mánuðum til aukinnar sóknar í atvinnumálum? Sáum við einhver sérstök merki við afgreiðslu fjárlaga t.d.? Ég held ekki. s.l. fjárlög voru í raun og veru tiltölulega hugmyndasnauður og náttúrulaus niðurskurður, Það var ekki horft til sóknar. Ýmislegt af því sem ríkisstj. leggur til á vafalaust eftir að hafa áhrif, eins og hugsanlegar breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Það gæti hugsanlega leitt til fjármunamyndunar. Það er hins vegar alveg óvíst.

Umr. sem hér fara fram í kvöld eru í raun og veru stórkostlegt vantraust á atvinnustefnu og fyrirhyggju undanfarinna ríkisstjórna. Það er hinn beiski sannleikur. Nú er hnípið þing í vanda. Við eigum ekkert í handraðanum. Við eigum ekkert til að grípa til til þess að byggja upp efnahagslíf landsbyggðar sem enn þann dag í dag, eftir öll þessi ár og alla þessa umr. og alla þessa milljónatugi, er enn þá háð því að það gangi þessi eini togari og þetta eina frystihús á staðnum. Þetta er því miður afrekaskráin. Af þessu verðum við að reyna að draga einhvern lærdóm. Við erum orðin ansi slyng í að halda um það ræður hvað við þyrftum að gera, en við komumst einhvern veginn aldrei á það stigið að koma hlutum í framkvæmd.

Ég var að velta fyrir mér áðan hvernig stjórnarstefna áratuganna væri flokkuð í sálfræðiflokkunina hérna áður, hvort hún skyldi teljast til viðbragða við aðsteðjandi áreitum eða frumkvæði. Ekki fer mikið fyrir frumkvæðinu, ekki fer mikið fyrir nýsköpuninni. Hins vegar virðist manni að jafnvel stjórnvöld sem einungis brygðust við áreitunum, umhverfinu, hefðu kannske átt að draga lærdóm af því sem hér hefur verið aðsteðjandi, eins og ég sagði áðan. Þetta eru hlutir sem eiga sér aðdraganda. Síðasti fasinn byrjaði 1981. Ég er reyndar ekki viss um hvort sálfræðin ætti skilgreiningu yfir þetta allt. Það væri kannske helst að það væri þunglyndi. Það er það þegar menn gera helst ekki neitt nema þeir séu til þess píndir.

Í æsingnum við að kenna síðustu aflaminnkuninni um það sem aflaga fer og illa stendur í íslenskum efnahagsmálum í dag hafa talsmenn ríkisstj. lýst góðri stöðu iðnaðar og þjónustugreina. Ég vænti þess að launafólk í þeim greinum muni þá njóta þess í komandi samningum. Það er gleðilegt að heyra. En það er augljóst að ef svo fer sem horfir í sambandi við atvinnuleysi verður að grípa til skammtímaráðstafana. Það er réttlætanlegt við þessar aðstæður að taka lán til að freista þess enn þá einu sinni að gera eitthvað í nauðvörn. En ég held að hvar í flokki sem menn standa ættu þeir nú að grípa þetta tækifæri líka til þess að sameinast um það að marka atvinnustefnu, nota þetta hérna uppi til þess að reyna að spá fyrir um framtíðina og koma í veg fyrir að þeir séu sífellt gripnir í varnarstöðu.