24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það væri að mínu mati full ástæða til að halda þessari umr. áfram og taka til þess næsta dag í Sþ. og væri ekkert á móti því að slíkt væri gert. Hæstv. forseti kýs hins vegar að reyna að ljúka þessari umr. núna. Finnst mér það satt að segja nokkuð sérkennilegt þegar málið stendur þannig, að t.d. veit ég að hæstv. forsrh. væri tilbúinn til þess að halda umræðunni áfram á fimmtudaginn. En það er forseti sem ræður hversu lengi fundir eru hér og mælendaskrá ákveður það líka. Af þeim ástæðum hlýt ég að reyna að stytta mál mitt mjög.

Mér finnst satt að segja ekki við hæfi að menn iðki útúrsnúninga með þeim hætti sem hv. 1. þm. Suðurl. gerði hér áðan, að ég tali nú ekki um líffærafræðina sem hv. 3. þm. Suðurl. flutti hér og ég ætla ekki að blanda mér í. Þessir útúrsnúningar 1. þm. Suðurl. voru með þeim hætti að annars vegar sagði hann: Eina úrræði Alþb. í atvinnumálum er skráning atvinnutækifæra. Með þessu móti er auðvitað hv. 1. þm. Suðurl. að reyna að gera lítið úr þeirri afstöðu og þeim málflutningi sem við höfum uppi í þeim efnum sem lúta að atvinnumálum.

Ég gæti rakið í nokkrum orðum hvaða úrræði það eru sem ég vildi beita í þessum efnum. Ég held að það þurfi að beita margþættum ráðstöfunum, skammtíma ráðstöfunum líka, m.a. á sviði innflutningsmála, m.a. með því að afla skipulega markaða fyrir okkar iðnaðarvörur, m.a. með því að ákveða kvóta á fiskiskip og í fiskveiðum með tilliti til atvinnuástands, m.a. með því að endurskoða reglur um siglingar skipanna, svo að ég nefni dæmi. Ég gæti nefnt ótal fleiri dæmi, m.a. að haga málum þannig varðandi erlent verkafólk að haft sé samráð við verkalýðsfélögin en ekki gengið yfir þau eins og gert er á Eskifirði samkvæmt blaðafréttum í dag.

Hérna er um að ræða margþætt mál, tugi eða hundruð atriða sem þurfa að koma hér inn, og grundvallaratriðið er að ríkisstj. geri alltaf allt sem hún getur til að tryggja fulla vinnu en sé ekki fangi kreddutrúar á það að markaðslögmálin geti leyst þennan vanda. Ég held að markaðslögmálin geti ekki leyst þennan vanda.

Einn þátturinn í því að tryggja hér fulla atvinnu og halda sæmilega á þessum málum er að hafa yfirlit yfir vinnumarkaðinn svo að fyrir liggi hvaða möguleikar felast í íslenska vinnumarkaðinum. Og ég veit að hv. 1. þm. Suðurl. er kunnugt um að vinnumiðlun hér á landi er ákaflega slök eða engin öllu heldur, engin. Í minni tíð í félmrn. gerði ég tilraun til að láta endurskoða lög um vinnumiðlun. Það starf var falið nefnd undir forustu Sigurðar Guðgeirssonar prentara. Sú nefnd hafði ekki lokið störfum þegar ég fór úr rn. og ég veit ekki hvað henni líður síðan.

Þetta er eitt atriðið sem þarf að hugsa um og það á ekkert að vera að gera lítið úr slíku og afflytja mál manna með skætingi eins og hv. 1. þm. Suðurl. hafði uppi hér áðan. Og þegar ég bendi á þverstæðurnar í málflutningi núv. ríkisstj. varðandi erlendar lántökur og bendi á að hún ætli að fara að taka erlend lán til skipaviðgerða þá er það ósæmilegt af hálfu hv. þm. Þorsteins Pálssonar að taka þannig á málinu að ég sé með þessu að gera lítið úr því að það sé tekið á þó þessum þætti, málefnum skipasmíðanna. Því fer svo víðs fjarri. Ég tel að í rauninni hefði ríkisstj. þurft að ganga heldur lengra, m.a. varðandi Slippstöðina á Akureyri, og hefði þurft að rípa þar í taumana áður en kom til þeirra stórfelldu uppsagna sem þar hafa átt sér stað.

Ég held að við eigum að gera okkur grein fyrir því, að þegar við ræðum um þessi mál erum við sennilega að ræða um ein flóknustu vandamál okkar efnahagsmála um þessar mundir. Við leysum þau ekki með sálfræðilegum rannsóknaræfingum hver á öðrum eins og hv. 4. landsk. þm. iðkaði hér áðan. Ég held að málið sé ósköp einfaldlega þannig, að við stöndum frammi fyrir því að það er of lítil vinna í landinu. Og vinnusamdrátturinn kemur ekki bara fram í atvinnuleysistölunum heldur líka í stórkostlegum samdrætti á yfirtíð að undanförnu hjá fólkinu. Þetta kemur aftur fram í minni verðmætasköpun í þjóðarbúinu og þetta kemur líka fram í versnandi lífskjörum þess fólks sem býr við atvinnuleysi. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu.

Þannig horfir þetta við. Við þurfum í framhaldi af þessu að átta okkur á því hvað stjórnvöld geta gert til að tryggja að það fólk sem missir atvinnu hér geti fengið vinnu annars staðar og til að tryggja að það fólk sem kemur nýtt inn á vinnumarkaðinn, sem eru 2500–3000 manns á hverju ári, fái vinnu. Þetta eiga menn að setja sér sem verkefni frá degi til dags.

Ég sagði það áðan og segi það enn að mér fannst svör hæstv. forsrh. í þessum efnum vita gagnslaus. Mér fannst hann ekki gera sér grein fyrir því hvað þetta vandamál er orðið alvarlegt.

Ég hef gengið um vinnustaði í Reykjavík núna að undanförnu og ég hef gengið um vinnustaði á Akureyri. Ég hef fundið hvernig svartsýnin og mér liggur við að segja þunglyndið einkennir þessa vinnustaði. Mér finnst það vera höfuðverkefnið núna að reka þennan svartsýnisfjanda út, þannig að fólkið öðlist kjark og trú m.a. á að það geti rétt sín kjör. En það fer ekki hjá því að menn sjái að ákveðnir stjórnarherrar hafi núna gjarnan viljað nota atvinnuleysisvofuna til þess að hræða verkafólkið í landinu frá því að rétta sinn hlut miðað við það mikla kauprán sem hér hefur átt sér stað.

Herra forseti. Hér er um að ræða athugasemd sem er í rauninni ósæmilega stutt miðað við tilefni málsins. Ég skal engu að síður ljúka henni af minni hálfu í þetta skipti í trausti þess að umræður um atvinnumál verði hér aftur síðar.