24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti.

Hér hafa verið fluttar allmargar ræður og fjölmargt komið fram athyglisvert sem gæfi tilefni fyrir mig til að flytja langa ræðu og leiðrétta ýmislegt af því sem fram hefur komið, en ég mun þó aðeins drepa á fátt eitt. Sumar ræður hafa verið málefnalegar vel og athyglisverðar eins og t.d. ræða hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar sem ég býð velkominn aftur í sitt sæti og ég veit að flestir hér inni taka undir það með mér.

Ég verð að viðurkenna að sumar ræðurnar skil ég ekki til hlítar eins og atferlishugleiðingar eða sálgreiningu hv. þm. Guðmundar Einarssonar. Staðreyndin er bara sú — og það lærði ég sem verkfræðingur — að íslenskt þjóðfélag er ekki einfalt verkfræðilegt dæmi. Íslenskt þjóðfélag stendur saman af frjálsum einstaklingum og vitanlega fara hlutir mjög eftir því hvernig þessir einstaklingar haga sér. Ríkisvaldið ákveður ekki allt. Ríkisvaldið leitast við að skapa grundvöllinn fyrir þá til að starfa að sínum framfara- og áhugamálum. Það dæmi er miklu miklu flóknara en mér fannst þar koma fram og eiga þær vangaveltur satt að segja lítið erindi í þær umr. sem nú eru um alvarlegt atvinnuástand.

Hv. 3. þm. Reykn. fullyrti að ég hefði sagt að ekkert hefði þurft að vanda sig við erlendar lántökur áður fyrr. Ég sé nú að hv. þm. er farinn. Menn virðast gera það að vana sínum að kasta hér fram fullyrðingum og spurningum og hlaupa svo af fundum. Ég held að — (Gripið fram í.) Já, ég sé að hv. 3. þm. Reykv. er hér þó að ég viti að hann er upptekinn. En ég held að hæstv. forseti ætti að taka slíkt til athugunar. Ég sagði þetta aldrei. Vitanlega var alltaf vandlega skoðað þegar um erlenda lántöku var að ræða. En ég sagði: Vandinn er miklu meiri nú og það þarf að athuga enn betur og enn vandlegar að erlendar lántökur verði aðeins teknar til arðbærra og mikilvægra framkvæmda í atvinnumálum sem ekki verða leystar á annan máta. Það er alrangt að ég hafi ekki minnst á að leggja ætti áherslu á arðbærar framkvæmdir. Ég las till. sem ég sjálfur flutti í ríkisstj. og þar var undirstrikað að áhersla skyldi lögð á að um arðbærar framkvæmdir verði að ræða.

Hér hefur verið gert heldur lítið úr afleiðingum aflabrests. Ég viðurkenni vissulega að tekist hefur að draga úr þeim afleiðingum með ýmsum aðferðum, t.d. að auka afla á öðrum sviðum. Engu að síður er vafalaust og viðurkennt af öllum sérfróðum mönnum að þetta er meginástæðan fyrir því ástandi sem nú hefur skapast í atvinnumálum. Ég vek athygli á því af því að fram kom hér ranglega áðan hvernig þessi samdráttur varð. 1981 var þorskafli yfir 450 þús. lestir. Hann var um 370 þús. lestir árið 1982, rúmlega 290 þús. lestir árið 1983 og er nú talinn verða 220 þús. lestir. Á árinu 1982 brást einnig loðnuaflinn og talið var að það ár hefði aflaverðmæti í sjávarútvegi dregist saman um 16%. Það munar svo sannarlega um minna. Þetta er því vitanlega ákaflega stór áhrifavaldur. Því er mikilvægast í þessu máli öllu að stjórnun útgerðar, bæði af hálfu stjórnvalda og útgerðarmanna, fari sem best úr hendi. Þess vegna hygg ég að það ástand sem nú er sé langt frá því að vera að öllu leyti marktækt fyrir það sem kann að vera framundan.

Sú nefnd sem hefur starfað mjög ötullega og mikið að því að móta stefnu á sviði útgerðar gerir ráð fyrir því að skila af sér tillögum á morgun, í síðasta lagi daginn eftir. Ég vona að það verði á morgun. Þarna eiga allir hagsmunaaðilar aðild sem tengjast útgerðinni. Sem von er eru skiptar skoðanir þegar um svo margslungið mál er að ræða en ákaflega mikilvægt að reynt sé að ná sem víðtækastri samstöðu og að því er unnið. Ég vona að það takist því að mjög fer árangur eftir því að samstaða sé mikil. Í þessu sambandi er svo vissulega haft í huga atvinnuástand á hinum ýmsu stöðum. Ýmsir hafa t.d. talað um að leggja ætti svo og svo mörgum togurum, allt upp í 30 hafa verið nefndir. Enginn hefur treyst sér til að benda á hvar eigi að leggja þessum togurum. Hvernig halda menn að atvinnuástand yrði í sjávarþorpi þar sem einn togari er gerður út ef honum er lagt? Þetta vandamál er miklu stærra en mér finnst hafa komið fram í orðum sumra hv. þm. Ég nefni aðeins þetta að leggja togurum sem dæmi um hvað vandinn er mikill. Sums staðar kann það að vera unnt en mundi tvímælalaust draga úr atvinnu.

Menn hafa rætt um atvinnumálanefndina og talið hana koma að litlum notum ef hún hefði ekki fjármagn. Hver hefur sagt að hún fái ekki fjármagn? Eins og kom fram, hygg ég, hjá hv. 1. þm. Suðurl. er eðlilegt að nefndin fjalli fyrst um það hver þörfin er og geri einnig tillögur um slíkt en það verði ekki ákveðið einhliða af stjórnvöldum.

Hér hefur verið rætt töluvert um erlendar lántökur. Hv. 3. þm. Reykv. fór, fannst mér, dálítið í gegnum sjálfan sig þar eins og hefur reyndar þegar verið rakið. Reyndar verð ég að segja um ræður hv. þm. að fyrsta ræðan var málefnaleg. Sú síðari var það svo sannarlega ekki. Þar var auðsjáanlega pólitíkusinn í fyrirrúmi. En sú síðasta bar vitni batnandi manni. Og vitanlega þarf að ræða þannig um þessi mál.

Ég vil aðeins mótmæla einu sem hv. þm. sagði, að í síðustu ríkisstj. hefði allt verið látið víkja fyrir atvinnuspursmálinu. Við settum atvinnuöryggið efst á okkar skrá, það er alveg rétt. En það var ekki með vilja að verðbólgumarkmið voru látin víkja, a.m.k. ekki af minni hálfu og minna flokksmanna. Staðreyndin er vitanlega sú að ekkert var og er mikilvægara til þess að halda viðundandi atvinnuöryggi en að ná verðbólgunni niður. Þegar menn tala og gera lítið úr árangri þessarar ríkisstj. er ég sannfærður um og reyndar hafa skoðanakannanir sýnt að mikill meiri hluti þjóðarinnar metur að verðleikum þann gífurlega árangur sem náðst hefur í verðbólgumálum. Verðbólga hefur sannarlega hjaðnað úr 130% í 15% og að sjálfsögðu er það það langsamlega mikilvægasta sem hefur verið gert til að halda fullri atvinnu. Það viðurkennir hver sanngjarn maður að 130–140% verðbólga hlaut að stofna hér til gífurlegs atvinnuleysis. Þetta er metið og það skapast eflaust tími til að ræða ýmsan annan árangur eins og t. d, að koma í veg fyrir að erlendar skuldir ykjust meira því þær voru þegar að nálgast 60% þegar þessi ríkisstj. tók við.

Í útgerðinni þarf sömuleiðis að líta á fjárhagsvandann. Þetta er alveg ljóst og komnar eru fram fyrir örfáum dögum tölur Þjóðhagsstofnunar um hver hann er. Þessar tölur eru nú einnig til meðferðar og það dæmi er vandleyst. Þarna eru vanskilaskuldir upp á 1.5 milljarð. Í tíð síðustu ríkisstj. var skuld breytt um 800 millj. fyrir útgerðina. Vanskilaskuldirnar eru núna 1.5 milljarðar og rekstrarvandamálið er einnig mjög stórt sem ég hef ekki tíma til að fara hér inn á. En það er rétt, og því nefni ég það, sem kom fram hjá einhverjum áðan að þennan vanda verður einnig að leysa.

Það mikilvægasta í þessu máli er því að tryggja að útgerðin geti gengið, tryggja henni rekstrargrundvöll og haga stjórnun þannig að sem best verði, m.a. í tengslum við atvinnu í landi. Að þessu er búið að vinna baki brotnu nú í fleiri vikur og sér fyrir endann á því nú í þessari viku eða á næstu dögum.

Ég vil vísa því algjörlega á bug sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að ég eða ríkisstj. geri sér ekki grein fyrir þessu ástandi, því fer víðs fjarri að við gerum það ekki. Við gerum það fyllilega og ég tel m.a. að þær upplýsingar sem nú koma fram í efldu starfi atvinnumálaskrifstofunnar sé liður í því og vissulega áfangi til þess að vinna megi að því að draga úr atvinnuleysinu, kannske með einhverri atvinnumiðlun þó ég telji mikilvægast að skapa atvinnuvegunum sjálfum aðstöðu til að ráða fleira fólk eftir ýmsum leiðum.

Að lokum vil ég aðeins koma inn á það sem hv. 7. landsk. þm. sagði áðan um afstöðu til launafólks. Ég tek mjög undir það með henni og hef margsinnis lýst því að það svigrúm sem notað er verði sem allra mest notað til að bæta afkomu láglaunafólks.

Ég vil einnig vekja athygli á því að fyrir milligöngu ríkisstj. en að ósk Sóknar og Framsóknar hefur nú verið í gangi ítarleg athugun á því hve fjölmennt þetta láglaunafólk sé. Þeirri athugun er ekki að fullu lokið. Kjararannsóknanefnd gerir ráð fyrir að geta skilað niðurstöðum um mánaðamótin. Því miður hefur ekki tekist að innheimta svör eins og að var stefnt. En af því sem tekist hefur að ná inn bendir allt til þess að fjöldi þeirra sem eru undir þeim mörkum sem hafa verið nefnd, þ.e. 15 þús. kr., sé langtum minni en margir gerðu sér grein fyrir. Því ber að fagna, en þarna er einhver hópur.

Ég tek undir það með hv. þm. að vafalaust eru kjör einstæðra mæðra - eða einstæðs foreldris á víst að segja í dag til að gæta jafnréttis-og þeirra sem búa við tekjutryggingu, þ.e. ellilífeyrisþega og öryrkja, lökust. En einnig þar hafa athuganir sýnt að þetta er mjög misjafnt. Allt annað á heimilum þar sem t.d. tveir ellilífeyrisþegar eiga fyrir heimili að sjá og mjög breytilegt eftir því hvort þeir eiga sína íbúð eða ekki o.s.frv. Það hefur verið unnið mikið starf í þessu, skattaskýrslur skoðaðar vandlega og jafnvel farið í einstakar skýrslur til þess að gera sér grein fyrir þessum hlutum. En ég tek sem sagt undir það með hv. þm. að tvímælalaust þarf að beina eins miklu og hægt er þangað og ég hygg að erfiðust sé afkoman hjá einstæðum foreldrum og nokkrum hópi af tekjutryggingaþegum, bæði elliheyrisfólki og öryrkjum, og það verður að lagfæra þeirra kjör.