25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

152. mál, skemmtanaskattur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er mikið rétt, að hér er ekkert stórmál á ferðinni en nauðsynlegt er að ræða þessi mál eins og hver önnur.

Auðvitað er það til góða fyrir þessa staði að skemmtanaskattur skuli felldur niður af kvikmyndarekstri þar. En ég tel þetta vonda leið til að bæta þennan rekstur. Það er verið að flokka byggðarlög niður og vitandi það að kvikmyndahúsarekstur almennt er mjög illa staddur, að skattlagning á kvikmyndasýningar eða hvern aðgöngumiða er sá hæsti í heimi tel ég það mjög vonda leið. Hvers eiga t.d. Vestmannaeyjar að gjalda? Ekki eru Vestmannaeyjar síður einangraðar en Neskaupstaður t.d. Ég veit að kvikmyndahúsarekstur þar gengur mjög erfiðlega. Líka á Ísafirði og líka á Akranesi. Svo er reyndar um allt land. Vídeóvæðingin hefur vissulega haft ýmsa kosti í för með sér en fyrir þennan rekstur hefur þessi þróun haft mjög skaðvænleg áhrif. Aðsókn hefur minnkað mjög hrikalega og svo er annað sem menn kannske gera sér ekki grein fyrir en það er að verð á leigðum kvikmyndum erlendis frá hefur stórhækkað. Það kemur að vísu til af því að myndirnar koma fyrr til Íslands og það er svo sem ágætt, en eftir því sem þær koma fyrr eru þær dýrari. En það er vegna samkeppni þessara vídeóleiga sem það á sér stað.

Ég endurtek að ég held að þetta sé skref í áttina en ég tel að þetta sé afar vanhugsuð leið og ekkert vit sé í öðru en að fella niður þessa skatta almennt. Ég held líka að þessi niðurfelling geri sáralítið til að laga reksturinn. Þetta er svo lítið af allri þessari skattlagningu, 36.4%, og staðan er svo slæm. Ég tala nú ekki um ef þetta er spurning um 200 þús. kr. eða svo held ég að það lagi lítið fyrir þessi byggðarlög. Það þarf að koma meira til. Líka þarf að koma til niðurfelling á söluskatti og fleiri sköttum.

Kvikmyndahúsarekstur er mjög erfiður. Minnast má á að t.d. á Akureyri er aðeins eitt kvikmyndahús í dag. Hitt er hætt. Svona er þetta um allt land að hvert fyrirtækið á fætur öðru leggur upp laupana. En ég skora á fjmrh. sem hefur nú líka með þetta að gera og menntmrh. að láta fara fram endurskoðun á þessu máli. Ég veit að fyrir liggur erindi frá þeim sem með þetta hafa að gera og ég vænti þess að það verði skoðað alvarlega. En gaman væri að vita núna í lokin hvort könnun hefur farið fram á því hver hafa verið skil á söluskatt af þeim vídeóleigum sem eru víðs vegar um landið og hvort farið hefur fram athugun á því hvort ekki sé rétt að fella niður söluskatt af þessari starfsemi sem er að deyja út ef svo heldur fram sem horfir.