25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2328 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

152. mál, skemmtanaskattur

Tómas Árnason:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. Ég vildi aðeins tala svolítið skýrar um það sem ég gat um í sambandi við aðstöðu ungs fólks til að verja sínum tómstundum, sérstaklega í kauptúnum og kaupstöðum, og bið hæstv. menntmrh. að gera svo vel og fylgjast með því þannig að enginn misskilningur verði okkar á milli í þessu efni.

Það sem ég átti við var að fram færi heildarendurskoðun á okkar fyrirkomulagi í fétagsheimilunum og sú endurskoðun beindist að því að gera félagsheimilin sem eru býsna rúmgóð víða meira að tómstundaheimilum unglinga og barna en þau eru í dag. Ég ætlaði ekki að segja það áðan að ég vildi að ráðist yrði í að byggja fleiri mannvirki af þessu tagi heldur hitt að félagsheimilin yrðu tekin til sérstakrar meðferðar í þá veru að þau yrðu meira félagsmiðstöðvar, t.d. í því formi sem tekið hefur verið upp hér víða í Reykjavík sem ég tel að sé til mikillar fyrirmyndar. Mér dettur ekki í hug að álíta að slík starfsemi þróist á það stuttum tíma að unga fólkið flykkist þangað. Ég veit að misbrestur hefur verið á því hvað mikil sókn hefur verið en ungt fólk hefur mismunandi áhuga á hinum ýmsu sviðum. Það væri ákaflega mikilsvert að styrkja þessa starfsemi og ég er þeirrar skoðunar að bæði ríki og sveitarfélög ættu að taka höndum saman í þessu efni. Í raun og veru þyrfti víða að hafa sérstakan starfsmann í félagsheimilunum sem væri þar og hefði forystu um að koma á félagsaðstöðu fyrir unga fólkið ásamt því. En ég skal ekki flytja langt mál um þetta í dag, ég vildi koma þessu að í sambandi við þetta mál vegna þess að hæstv. menntmrh. var hér í deildinni.