25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

136. mál, hafnalög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir til nýrra hafnalaga er endurskoðuð útgáfa af gildandi hafnalögum nr. 45 frá 1973. Þau lög eru þannig orðin 10 ára gömul. Frv. var lagt fyrir síðasta Alþingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu og dagaði uppi í nefnd.

Ég hef látið gera lítils háttar breytingar á frv., aðallega 5. og 6. gr. þess. Í 5. gr. eru tekin út ákvæði um að Hafnamálastofnun skuli hafa yfir að ráða tækjum til dýpkunarframkvæmda. Ákvæði um deildaskiptingu stofnunarinnar, sem till. var gerð um í 6. gr., eru nú tekin út og vísað til reglugerðar. Í 22. gr. er tekin upp skylda Hafnamálastofnunar til að annast ákveðnar framkvæmdir eða hluta þeirra. Loks er í 30. gr. gerð till. um að árlegt framlag ríkissjóðs til Hafnarbótasjóðs verði eigi lægra en 15% af framlagi til hafnarmannvirkja og lendingarbóta á fjárlögum hvers árs, en þessi tala er 12% samkv. fyrra frv. Aðrar breytingar eru smávægilegar lagfæringar á orðalagi í 8. og 22. gr.

Við endurskoðun laganna hafði nefndin sem samdi frv. m.a. ýmsar óskir og samþykktir Hafnasambands sveitarfélaga til hliðsjónar. Var tækifærið notað til að má ýmsa smærri agnúa af gildandi lögum, breyta röð ákvæða í rökréttara horf og gera ýmsar aðrar smærri breytingar, en fyrir þessum atriðum er gerð nánari grein í skýringum með einstökum greinum frv.

Aðalbreytingarnar sem gerðar eru frá gildandi lögum eru sem hér segir:

1. Í 1. kafla frv. er, eins og í núgildandi hafnalögum, fjallað um yfirstjórn hafnamála. Sú breyting er helst í þessum kafla að ákvæði úr reglugerð um samstarfsnefnd um hafnamál eru tekin inn í 2. og 3. gr. frv. og jafnframt er heiti nefndarinnar breytt í hafnaráð. Með nafnabreytingunni og með því að taka ákvæði þessi inn í lögin er ætlunin að festa þessa tilhögun betur í sessi en verið hefur. Jafnframt er gert ráð fyrir því að varamaður frá Hafnasambandi sveitarfélaga og einn varamaður fyrir báða fulltrúa samgrh. eigi rétt til setu á fundum ráðsins með málfrelsi og tillögurétti. Ætlunin með þessari tilhögun er að gefa Hafnasambandi sveitarfélaga aukna möguleika til að hafa áhrif á gang hafna mála.

2. Í frv. eru tekin af öll tvímæli um að frumkvæði um hafnargerðir sé hjá eiganda hafnar og framkvæmdir við þær á ábyrgð hans. Jafnframt er gengið út frá því að hafnarstjórnir annist sjálfar framkvæmd allra annarra verkþátta en þeirra sem kostaðir eru að fullu af ríkissjóði, annaðhvort með eigin starfsliði, samningum við verktaka eða útboði. Um ofangreindar breytingar eru ákvæði í 22. gr. frv. Í mörg undanfarin ár hafa verið mjög ofarlega á baugi hugmyndir um að Hafnamálastofnunin hefði fyrst og fremst með höndum rannsóknir og áætlanagerð, en aukna áherslu skyldi leggja á það að sveitarfélög hefðu á hendi eigin hafnarframkvæmdir undir fjárhagslegu og tæknilegu eftirliti stofnunarinnar eða þá að slíkar framkvæmdir yrðu boðnar út. Til móts við þetta sjónarmið hefur nú verið gengið til fulls.

3. Jafnframt breytingu samkv. liðnum hér á undan hefur verið stefnt að því í frv. að starfsemi Hafnamálastofnunar beindist meira en verið hefur að frumrannsóknum, tæknilegu eftirliti og áætlanagerð.

4. Í 26. gr. frv. er fjallað um greiðsluþátttöku ríkissjóðs í hafnargerðum. Þær breytingar verða helstar að ríkissjóður greiðir nú 100% kostnaðar við frumrannsóknir samkv. nánari ákvæðum í reglugerð og 90% stofnkostnaðar við dýpkun aðatsiglingaleiðar að höfn samkv. nánari ákvörðun samgrn., en þessir liðir voru áður greiddir með 75% framlagi úr ríkissjóði.

Eðlilegt er að ríkissjóður greiði að fullu allar frumrannsóknir og jafnframt verði Hafnamálastofnun betur í stakk búin til að inna þær af hendi. Frumrannsóknir þurfa ekki að leiða til hafnargerðar. Þær geta verið tímafrekar og dýrar og því ekki óeðlilegt að kostnaðarþátttaka viðkomandi hafnarsjóðs hefjist ekki fyrr en með rannsóknum sem telja má beinan undanfara hafnarframkvæmda. Hvað varðar dýpkunarkostnað á aðalsiglingaleið getur verið um verulega þungan bagga á einstökum hafnarsjóðum að ræða og því rétt að ríkissjóður komi þar meira til móts við hafnarsjóðina en nú er.

Ég vil sérstaklega undirstrika að stofnkostnaður við mengunar- og slysavarnir í höfnum verður styrkhæfur um 75%, en er ekki styrkhæfur að neinu leyti samkvæmt núgildandi lögum. Einnig hafa verið gerðar breytingar á 8. gr. núgildandi laga með það í huga að koma meira til móts við óskir hafnarsjóðanna. Um þetta atriði eru ákvæði í 24. gr. frv. Tekin eru nú öll tvímæli af um það að vaxtakostnaður á byggingartíma, svo og lántöku- og annar fjármögnunarkostnaður, kostnaður vegna hækkunar verðtryggðra lána og gengistap á erlendum lánum teljist til styrkhæfs byggingarkostnaðar, enda verði kostnaðurinn til vegna kostnaðarþátttöku ríkissjóðs í framkvæmdinni. Einnig er það skilyrði til greiðslu slíks kostnaðar að til hans hafi verið stofnað með heimild rn. og fjvn. Alþingis.

5. Í 10. gr. núgildandi hafnalaga eru ákvæði um gerð áætlunar um hafnargerðir til fjögurra ára í senn. Jafnframt eru ákvæði um að áætlunin skuli gerð á tveggja ára fresti og lögð fyrir sameinað Alþingi sem þáltill. og að hún öðlist gildi þegar Alþingi hefur samþykkt hana. Óumdeilanlegt er að áætlunin hefur verið til mikils gagns eins og hugmyndin var þegar þetta ákvæði var sett inn í lögin. Ætlunin með þessu ákvæði var sú að fá Alþingi til að afgreiða áætlunina sem þál., enda fengi hún þá fastara form, svipað og vegáætlun. Hins vegar er ýmislegt ólíkt með þessum tveimur áætlunum, m.a. fjáröflun, en eins og kunnugt er býr Vegasjóður við fastan markaðan tekjustofn. Einnig má nefna það atriði að vegaframkvæmdir eru algerlega kostaðar af ríkissjóði, en hafnarframkvæmdir eru blandaðar framkvæmdir ríkissjóðs og sveitarfélaga.

Raunin hefur orðið sú, að þótt hafnagerðaráætlunin hafi verið lögð fyrir Alþingi á tveggja ára fresti hefur hún aldrei fengið þá meðferð sem gert er ráð fyrir í greininni. Vafasamt er að halda þessu ákvæði um meðferð áætlunarinnar á Alþingi til streitu og því gert ráð fyrir að áætlunin sé lögð fram sem þskj.

6. Mikilsverða breytingu frá gildandi lögum er að finna í 26. gr. þar sem segir m.a. að ríkissjóður greiði allt að 75% og 40% af kostnaði við hafnargerðir. Enn fremur segir í 27. gr.fjvn. Alþingis geti ákveðið að fengnum tillögum samgrh., sem áður skal leita umsagnar hafnaráðs og hafnamálastjóra, að ríkisframlag til framkvæmda, sem eru styrkhæfar um 75% og 40%, verði lægra en þar greinir til hafna sem taldar eru fjárhagslega færar um að standa undir hærri kostnaðarþátttöku en 25% og 60%. Sá mismunur framlaga úr ríkissjóði sem þannig myndast rennur sem sérstakar tekjur til Hafnabótasjóðs.

Ein höfn, sem fellur undir hafnalög, hefur yfirleitt ekki notið ríkisstyrks til framkvæmda, þ.e. Reykjavíkurhöfn. Talið hefur verið að sjálfsaflafé hennar nægði til að standa undir eigin framkvæmdum og gildir því ekki um hana ofangreint ákvæði um að mismunur framlags úr ríkissjóði renni til Hafnabótasjóðs.

Telja má að almennt bættur fjárhagur hafnanna geti leitt til þess að sumar þeirra yrðu færar um að standa undir meiri greiðsluþátttöku en gert er ráð fyrir í lögunum sem lágmarki, en vafasamt er að ríkið styrki hafnir samkvæmt hámarksheimild til framkvæmda sem sjálfar geta að verulegu leyti staðið undir þeim af eigin tekjum.

7. Hér skal fjallað um gjaldskrármál og breytt fyrirkomulag þeirra, sbr. 13. gr. frv. Verði ákvarðanir um gjaldskrár hafnastjórna frá 1. febr. n.k. algerlega mál sveitarstjórna þarf að breyta þessari grein. Meðan grein í frv. er óbreytt getur umsögnin um hana verið á þá leið að allar breytingar á gjaldskrám hafna hafi eins og kunnugt er verið þungar í vöfum vegna ákvæða í gildandi lögum. Ekki er öllu lengur hægt að halda því fyrirkomutagi sem tíðkast hefur, þ.e. að hver höfn um sig sæki um hækkun á gjaldskrá til samgrn. og gjaldskráin sé síðan birt sérstaklega í Stjórnartíðindum, en það hefur í för með sér að svo til samhljóða gjaldskrár 50–60 hafna eru birtar í Stjórnartíðindum tvisvar til þrisvar á ári. Í 13. gr. er því gert ráð fyrir að ein gjaldskrá sé sett fyrir allar hafnir á landinu sem lögin ná til, en þó er gert ráð fyrir heimild til fráviks frá þessari samfelldu gjaldskrá, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

8. Nefndin sem samdi frv. tók sérstaklega til athugunar möguleika á að leggja niður landshafnarformið og að um landshafnir giltu sömu lög og um almennar hafnir. Þær þrjár landshafnir sem um er að ræða eru í Keflavík — Njarðvík, Rifi á Snæfellsnesi og Þorlákshöfn. Lögin um landshöfn í Keflavík-Njarðvík, sem er elst þeirra, voru upphaflega sett árið 1946. Landshafnarhugmyndin er þannig orðin nærri 40 ára gömul. Hún kom fram við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður en nú ríkja og því rétt að endurskoða hvort sú sérstaða eigi áfram að gilda um þessar hafnir sem talin var vera fyrir hendi við setningu landshafnalaganna.

Höfuðrökin fyrir þessu fyrirkomulagi voru á sínum tíma, að engar nothæfar fiskihafnir væru til á ákveðnum landssvæðum, svo sem Reykjanesi. Þaðan væri hins vegar skammt á góð fiskimið og á þessi svæði sækti fjöldi aðkomubáta. Ekki væri hægt að ætlast til að eitt sveitarfélag stæði þannig undir hafnargerðarkostnaði við höfn sem þjónaði fleiri sveitarfélögum. Það kom og til að á þessum tíma greiddi ríkissjóður minna til almennra hafnargerða en nú er eða 40% samkvæmt lögum sem samþykkt voru sama ár og fyrstu landshafnalögin, en áður hafði ríkisframlagið verið enn lægra.

Hér er gerð tillaga um það, ákvæði til bráðabirgða I, að teknar séu upp viðræður við sveitarstjórnir á þessum stöðum um afhendingu landshafnarmannvirkja til þeirra til eignar og reksturs samkv. hafnalögum, ef samkomulag verður um.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.