25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

135. mál, skipamælingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Samhljóða frv. þessu var lagt fyrir Alþingi í mars á s.l. ári en náði ekki fram að ganga.

Þann 18. júlí s.l. tók gildi ný alþjóðasamþykkt um mælingu skipa sem gerð var á ráðstefnu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í London 1969. Með þessari samþykkt var leitast við að samræma og einfalda þær aðferðir sem hinar ýmsu þjóðir viðhafa við mælingu skipa.

Skv. lögum nr. 50 frá 12. maí 1970, um skipamælingar, var samþykkt að Ísland staðfesti þessa samþykkt og hefur það verið gert. Hins vegar er nauðsynlegt að breyta lítillega lögunum frá 1970 um skipamælingar. Með þessu frv. er lagt til að Siglingamálastofnun Íslands verði heimilað að mæla skip eftir núgildandi reglum jafnframt nýju reglunum, svo lengi sem ástæða þykir til. Eftir núgildandi mælingareglum, svokallaðri Oslósamþykkt, er mælieiningin rúmlestir, en skv. nýju mælingareglunum er stærð skipa mæld í tonnum. Vegna þess að fjölmörg ákvæði í lögum og reglugerðum hér á landi nota rúmlestir sem viðmiðunarmörk mundi tonnaviðmiðun eingöngu valda ruglingi í skipamælingum hér á landi. Til þess að unnt sé að ákvarða rúmlestatölu skips, þegar stærð þess skv. hinni nýju mælingasamþykkt er fundin í tonnum, er nauðsynlegt að mæla skipið aftur skv. núgildandi mælingareglum.

Þá skal þess getið, að alþjóðasamþykktin frá 1969 nær aðeins til skipa sem eru 24 metrar að lengd eða meira. Því er óhjákvæmilegt að hafa reglur, sem ráðh. setur að fengnum till. siglingamálastofnunar um hvernig skip, sem alþjóðasamþykktin nær ekki til, skuti mæld. Heimildarákvæði þess efnis er í frv.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. samgn.