25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

451. mál, starfsemi Íslenskra aðalverktaka

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil minna á að breytingar á jafnréttislögunum voru til umræðu hér á Alþingi fyrir þremur árum síðan. Þáv. félmrh. taldi þá nauðsynlegt að setja nefnd í málið, jafnvel þó breytingar á jafnréttislögunum væru til meðferðar á hv. Alþingi. Ég lýsi vonbrigðum mínum með hvað langan tíma þessi endurskoðun hefur tekið og tel reyndar að fyrrv. félmrh. og núv. hv. þm. Svavar Gestsson hefði haft öll tök á því í sinni ráðherratíð að greiða fyrir því að frv. um breytingu á jafnréttislögunum hefði fyrr verið lagt fram á hv. Alþingi.

Nú er hins vegar fyrsta verk hv. þm. Svavars Gestssonar, þegar hann sest í stól hins óbreytta þingmanns, að reka á eftir breytingum á lögunum sem hann sjálfur sem jafnréttisráðherra í fjögur ár hefði getað beitt sér fyrir að þegar hefðu verið komnar til framkvæmda. Jafnréttisráðherra núverandi hefur aðeins setið í stól ráðherra í sex mánuði svo hv. þm. Svavar Gestsson ætlar núverandi ráðh. greinilega að vera afkastameiri í stól jafnréttisráðherra en hann sjálfur var.

Erindi mitt hingað var fyrst og fremst að fagna því að hæstv. núv. jafnréttisráðherra ætlar að hafa snarari handtök í þessum málum en fyrirrennari hans. Ég vil jafnframt beina einni spurningu til hæstv. ráðh. Nefndinni, sem vann þetta verk, var jafnhliða því að semja umrætt frv. falið að gera tillögur um breytingar á jafnréttislöggjöfinni. Var annað meginverkefni nefndarinnar að gera könnun á jafnréttismálum í framkvæmd, einkum að því er varðar stöðu láglaunakvenna, laun þeirra og lífskjör. Ég vil beina þeirri fsp. til ráðh. hvort umrædd könnun hafi verið gerð því að brýnasta verkefnið á sviði jafnréttismála er að úrbætur verði gerðar á stöðu og lífskjörum láglaunakvenna, en þar er örugglega að finna stærsta láglaunahópinn í þjóðfélaginu.