25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. gat um er hér um að ræða fylgifrv. með frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem er nú til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. En hluti þess frv. var þó afgreiddur sem lög núna fyrir áramót, þ.e. 1., 9. og 10. gr. þess stjórnarfrv. sem lagt var fyrir í upphafi. Það var gert að beiðni ríkisskattstjóra til þess að unnt væri að útbúa framtalsleiðbeiningar með eðlilegum hætti núna áður en framtalsfrestur rennur út.

Þetta frv. er þess vegna í rauninni sama málið og skattamálin í heild eru og í sjálfu sér ekki margt frekar um það að segja að öðru leyti en því að ljóst er að með þeim álagningarreglum sem ákveðnar hafa verið í mörgum sveitarfélögum verður um að ræða hækkun á heildarskattabyrði landsmanna til opinberra aðila milli áranna 1983 og 1984 sem hlutfall af tekjum greiðsluárs. Þessi hækkun er sennilega nokkuð misjöfn og vafalaust nokkuð misjöfn eftir byggðarlögum og aðstæðum en alla vega er ljóst að hér er um að ræða hækkun og hækkunin liggur ekki síst í því að sveitarfélögin taka meira til sín í gegnum útsvarið. Þess vegna er hér um að ræða frv. sem leynir nokkuð á sér þó að það sé auðvitað fyrst og fremst samræmingarfrv. við frv. um tekju- og eignarskatt.

Til viðbótar við þetta er augljóst mál, að sveitarfélögin eru að taka til sín stórkostlega auknar tekjur í gegnum gjaldskrár sveitarfélaganna. Verið er að hækka þær í sumum tilfellum mjög verulega, eins og t.d. hjá Reykjavíkurborg þar sem gert er ráð fyrir því að hækka gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur núna fljótlega, hefur mér sýnst, um 25% þannig að hækkanir á Hitaveitu Reykjavíkur eru komnar langt umfram allar aðrar verðlagshækkanir á tiltölulega skömmum tíma. Ríkisstj. mun hafa ákveðið að skipta sér ekki af þeirri hækkun sem þar er gert ráð fyrir skv. blaðaviðtölum sem ég hef séð við hæstv. iðnrh.

Það væri fróðlegt að inna eftir því hvort það verði almenn regla hér og nú að sveitarfélögin ákveði í einu og öllu allar sínar gjaldskrár án afskipta ríkisstj. og hvort engin viðleitni verði höfð uppi af hálfu ríkisstj. til að stemma stigu við þeim miklu hækkunum sem eiga sér stað í ákveðnum sveitarfélögum þar sem mér sýnist að Reykjavíkurborg, borgarstjórnaríhaldið hér í Reykjavík, gangi lengra en flestar aðrar sveitarstjórnir.

Er nú svo komið að mér er tjáð að í sumum tilvikum er það ekki einasta svo að gjöldin af viðkomandi þjónustu beri uppi kostnaðinn af henni heldur hefur sveitarfélagið í nokkrum tilvikum tekjur af þessum gjöldum eftir að búið er að greiða tilkostnaðinn við þá þjónustu sem um er að ræða í hverju tilviki. Þannig að þetta er ekki lengur gjaldskrá fyrir tiltekna þjónustu hjá sveitarfélögunum heldur tekjustofn. Jafnvel þó að ríkisstj. hafi hugsað sér að leyfa sveitarfélögunum að hækka gjaldskrár þannig að þær standi undir kostnaði og væri fróðlegt að vita, eins og ég gat um áðan, hvort svo er, að ríkisstj. muni láta slíkt alveg afskiptalaust. En þá fyndist mér hitt engu að síður umhugsunarvert hvort ríkisstj. á ekki að setja þó þær reglur að menn séu ekki að hirða aukapeninga í sveitarsjóðinn á þessum ákveðnu gjöldum eins og vatnsskatti, sorptunnugjaldi og hvað það nú allt er sem sveitarfélögin leggja á.

Ég vildi sem sagt vekja athygli á þessu um leið og þetta frv. fer hér fram, herra forseti, jafnframt því sem ég spyr hæstv. félmrh. tveggja spurninga. Annars vegar hvort ríkisstj. er staðráðin í að láta sveitarfélögin alveg afskiptalaus framvegis varðandi sínar gjaldskrár og hins vegar hvort hann telur ekki eðlilegt að setja engu að síður þær reglur að sveitarfélögin séu ekki að hirða í sveitarsjóði aukatekjur af þessum gjöldum umfram þann tilkostnað sem verður til við að veita þá þjónustu sem um ræðir hverju sinni.