25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 3. þm. Reykv. varðandi þetta mál vil ég aðeins í fyrsta lagi geta þess að í sambandi við ákvörðun sveitarfélaga varðandi tekjustofnana skrifaði félmrh. fyrir hönd ríkisstj. sveitarfélögum og óskaði eftir því að þau gættu hófs í meðferð gjaldstofna sinna þannig að fara eins vægilega með þá eins og mögulegt væri miðað við ríkjandi ástand. Ennfremur var gefin út ákveðin tilkynning um að sveitarfélög gætu ekki reiknað með aukaálagi á útsvar eins og hefur verið í gildi undanfarin ár og var í gildi á s.l. ári nema um neyðarástand væri að ræða í viðkomandi sveitarfélagi með gildum rökum.

Sveitarfélögin tóku þessu mjög jákvætt og það kemur í ljós núna mjög fljótlega hvernig þau taka á þessu. En ég veit ekki til að neitt sveitarfélag hafi sótt um að fara framhjá gildandi lögum um 11% álagningu. Frekar hafa upplýsingar komið um að sveitarfélög ætla ekki að beita til fulls þessu ákvæði nema í færri tilfellum.

Í sambandi við það sem hv. þm. spurði um er það á allra vitorði að í yfirlýstri stefnuskrá ríkisstj. kemur fram að gert er ráð fyrir að sveitarfélögin sjálf taki ákvörðun um gjaldskrár þjónustugjalda sinna og fái til þess sjálfræði. Reiknað er með því að þetta komi til framkvæmda núna um næstu mánaðamót eða 1. febr. n.k.

Hins vegar er jafnframt rétt að upplýsa það að ríkisstj. hefur nýlega gert formlegan samstarfssamning við sveitarfélögin þar sem gert er ráð fyrir að hafa ákveðið samráð sem tekur mið af efnahagsstefnunni á hverjum tíma. Þar verða öll þessi mál sem varða samskipti ríkis og sveitarfélaga, ákvörðun sveitarfélaga í sambandi við framkvæmdir og annað rædd og allt sem skiptir máli í sambandi við efnahagsstefnu verður tekið til meðferðar.

Það hefur ekki verið sett ákveðin regla ennþá. Það er ákveðið að halda fund núna næstu daga með fulltrúum sveitarfélaga varðandi þetta ákvæði í sambandi við gjaldskrár, að sveitarfélögin sjálf ákveði gjaldskrár. Það er í sambandi við ákvörðun um verðlagsmál almennt. Þar verður gengið frá ákveðnum meginreglum við meðferð þessara mála. Sveitarfélögin sjálf eiga í mörgum tilfellum eftir að mynda sér verklagsreglu um það hvernig þau standa að slíkum ákvörðunum. Aðeins ein samtök sveitarfélaga hafa mótað þessa stefnu á undanförnum árum, það eru Hafnasamband sveitarfélaga þar sem tekin er sameiginleg ákvörðun um gjaldskrár hafna og verið hefur um nokkurt árabil. Þar er komið fast form á sem hefur gefist mjög vel.

Ég kannast ekki við og vil ekki taka gilt að óathuguðu máli að sveitarfélög hafi yfirleitt aukatekjur af þjónustugjöldum umfram það sem kostar að veita þá þjónustu. Ég kannast ekki við það atriði í rekstri sveitarfélaga og tel að það sé þá undantekning ef það er og á ekki von á að svo sé. Sem sagt, ekki hafa verið gefnar út neinar ákveðnar reglur ennþá um þetta atriði en eins og ég sagði áðan fer fram umr. núna milli viðskrn. og félmrn. við fulltrúa sveitarfélaganna um þá breytingu sem ráðgerð er miðað við stefnu ríkisstj. að komi til framkvæmda.