25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þær fréttir berast með dagblöðum landsins að Thatcher sé búin að setja lög á sveitarstjórnir í Bretlandi til að koma í veg fyrir að þær vaði áfram með hækkanir á almenning í landinu. Annað tveggja hefur nú gerst að hv. 3. þm. Reykv. hefur gerst skoðanabróðir frúarinnar þar ytra eða að hv. 3. þm. Austurlands hefur villst út af hinni réttu línu. Ég ætla ekki að leggja á það dóm hvort heldur er en satt er það að ákveðið hefur verið að kanna hversu það gefist að láta sveitarstjórnir ákveða gjaldskrárstofna.

Lög eru stundleg eins og hæstv. iðnrh. veit hvort sem þau eru um setuna eða annað. Ég vil bæta því við að vissulega höfum við horft á það hér á stór-Reykjavíkursvæðinu að smærri sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarinnar hafa komist af með minni skattatekjur af borgurunum vegna þess að Reykjavíkurborg greiddi þeim raunverulegar fjárhæðir í gegnum sínar þjónustustofnanir. Hitt er svo annað mál að þegar slík stefna er mótuð eins og hér er verið að gera er rétt að spyrja sig að því hvort að það eigi við um öll þjónustugjöld að réttlátt sé að sveitarfélögin ákveði þau sjálf.

Eitt af þeim þjónustugjöldum sem ekki kemur til greina að sveitarfélög fái sjálf að ákveða er hið svokallaða námsvistargjald sem sett hefur verið á og er notað af stærri sveitarfélögum þessa lands sem tekjustofn, skattheimta á þau sveitarfélög þar sem skólakostur er ekki til staðar og nemendur eru sendir utan af landi til hinna stærri staða.

Sú spurning hlýtur fyrst að vakna þegar til þessa er hugsað hvort ekki sé þá eðlilegt að það sveitarfélag sem hefur borið ábyrgð á grunnskólanámi viðkomandi fólks geti sent reikning til þeirra sem fá þessa nemendur e.t.v. sem skattgreiðendur þegar þeir koma á þann aldur. Það hlýtur að vera stór spurning hvort eðlilegt sé að fjárveitingavald Alþingis eða Alþingi standi þannig að málum að það veiti svo mikið fjármagn til uppbyggingar skólakerfa á vissum stöðum að menn sjái sér hreinlega hag í því að byggja þar upp skóla langt fram yfir þarfir til þess að smala svo fólki annars staðar að í þessa skóla með það fyrir augum að hafa skattheimtu af öðrum sveitarfélögum.

Ég tel að þarna hljóti menn að staldra við og spyrja: Er það réttlátt að sveitarfélögin fái að ákveða sjálf námsvistargjald eins og gert hefur verið í þessu landi? Ég vil sérstaklega beina þeirri fsp. til félmrh. hvort hann hafi verið með þessi námsvistargjöld í huganum þegar hann ræddi um að sanngjarnt væri að sveitarfélög fengju að ráða sinni gjaldheimtu, sinni þjónustu eins og getið var um hér áðan. Ég vil taka fram að í þeim efnum hygg ég að skynsamlegt sé fyrir Alþingi að leggja hið bráðasta til breytingar á þeim lögum ef menn vilja komast hjá óþarflega hörðum deilum í þessu landi milli hinna smærri sveitarfélaga og hinna stærri.