25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

451. mál, starfsemi Íslenskra aðalverktaka

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Það er greinilegt að þetta mál er nú til meðferðar í þingflokkum ríkisstj. og samkvæmt yfirlýsingum ráðh. er við því að búast að það komi hingað inn í þingið fljótlega mjög lítið breytt frá þeim búningi sem það var í þegar málið var afgreitt frá nefnd og lagt fyrir fyrrv. félmrh. 12. apríl s.l. Við gerum ráð fyrir því að það komi hér inn lítið eða óbreytt og höfum fyrir því orð hæstv. félmrh. Með því verður vandlega fylgst.

Þingflokkur Alþb. hefur að sjálfsögðu áhuga á því að fylgja þessu máli eftir. Auðvitað er það rétt að það hefði mátt kom miklu fyrr og hefði vafalaust verið auðveldara í síðustu hæstv. ríkisstj. að þoka þessu máli fram, eins og öðrum góðum málum, heldur en í núv. ríkisstj. þeirra hægri flokka sem sitja við stjórnvölinn um þessar mundir. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir það óvænta traust sem hún veitir fráfarandi ríkisstj. Hún hefði betur sýnt það fyrr. Ég þakka henni einnig fyrir drengilegan stuðning við málið sem hér hefur komið fram. Aðalatriðið er það að málinu þoki nokkuð fram og tilgangur okkar með fsp. var eingöngu sá að reka á eftir málinu. Núv. ráðh. þurfti í raun og veru ekki annað að gera en að taka við tilbúnu frv. til að leggja hér fyrir. Það verður vonandi gert og þm. taka því væntanlega vel.

Ég vænti þess að menn hafi tekið eftir því hins vegar að hæstv. ráðh. orðaði þetta þannig að þingflokkar stjórnarliðsins væru enn með þetta til meðferðar. Það verður því mjög fróðlegt að sjá hvaða breytingar hugsanlega yrðu gerðar á þessu máti í þingflokkum ríkisstj. Sérstaklega væri það fróðlegt þegar þess er gætt að það voru fulltrúar úr flestum stjórnmálaflokkum sem komu að gerð frv. á undirbúningsstigi svo að eðlilegt er að gera sér vonir um að það komi mjög lítið breytt fyrir þingið þegar þar að kemur.

Ég þakka hæstv. félmrh. aftur fyrir svörin og hv. þm. Jóhönnu sigurðardóttir fyrir góðan stuðning.