25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Já, það er mikill munur fyrir fyrirtækin í landinu, m.a. opinberu fyrirtækin, eftir að núv. ríkisstj. tók við. Ekki er nú hallærisbúskapurinn á þeim þessa dagana, þessum fyrirtækjum. Eins og hæstv. iðnrh. hefur margoft bent á er runnin upp gullöld og gleðitíð hjá þessum fyrirtækjum, þau hafa aldrei lifað upp annað eins. Það er sumstaðar þannig hjá þessum fyrirtækjum sem ríkisstj. hefur velþóknun á að þau eru í vandræðum með að koma gróða sínum fyrir þannig að maður gengur undir mannshönd að finna leiðir til að koma gróðanum í lóg eins og hjá fyrirtæki eins og t.d. Póst og síma sem er með margfalt og verulega miklu meira framkvæmdafé á þessu ári en á árinu 1983. Ekki er nú verið að klípa af því þegar þessi fyrirtæki eru annars vegar, ekki verið að fara nákvæmlega ofan í saumana á hlutunum þar heldur eru þau nánast með sjálfsafgreiðslu, þessi fyrirtæki.

Svo koma fyrirtækin hjá hæstv. iðnrh., þau eru að fá sjálfsafgreiðslu líka. Og þó hann ætli að vera staður að eigin sögn varðandi húshitunartaxta ætlar hann ekki að láta það gilda þegar kemur að orkufyrirtækjum í Reykjavík. Þá á allt að hækka upp úr öllu valdi, þá er hann ekki staður, þá leggur hann sig á hlemmiskeið og fer á kostum og lætur þetta hækka upp úr öllu valdi.

Auðvitað eru taxtarnir hjá þessum fyrirtækjum hér í Reykjavík partur af þeim lífskjörum sem fólkið býr við hér í borginni og auðvitað er ekki hægt fyrir hæstv. iðnrh. að láta sem ekkert sé þegar verið er að hækka Hitaveitu Reykjavíkur margfalt umfram það sem er um annað verðtag í landinu. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. iðnrh. að Hitaveita Reykjavíkur var oft hart leikin af ríkisstj. liðinna ára vegna þeirrar aðferðar sem þá var fylgt við að halda verðlagi niðri og gekk þó brösuglega eins og allir vita. Iðulega gekk það nærri fyrirtækjum eins og Hitaveitu Reykjavíkur eins og kunnugt er. En hitt er engu að síður ljóst að staðan er þannig núna að búið er að banna einum hópi í þjóðfélaginu að hækka við sig sína taxta, það er fólkið, bannað er að hækka verðlagið á vinnuaflinu, það er eini taxtinn sem má ekki hækka undir nokkrum kringumstæðum.

Ríkisstj. sagði þegar hún var mynduð að hún væri að afnema sjálfvirknina í efnahagskerfinu með því að taka vísitölukerfið úr sambandi. En hvað er það sem hefur í raun og veru gerst? Ríkisstj. hefur tekið vísitölukerfið úr sambandi og bannað sjálfvirknina á kaupið, þar er allt helfrosið og fast, en svo eru aðrir aðilar sem eru með sjálfvirknina í fullum gangi. Einkafyrirtækin fá að hækka eins og þeim sýnist, stöðugt er verið að tala um meira frelsi hjá einkafyrirtækjunum. Fyrirtæki sveitarfélaganna fá að hækka eins og þeim sýnist, þar er sjálfvirknin í gangi, þar er frelsið í blóma, þar er ekki verið að súta það þó að hækkað sé um 1–3% umfram það sem hefur verið og þarf vegna brýnustu verðlagsforsendna. Eins fá ríkisfyrirtækin að hækka grimmt, þar er sjálfvirkni hæstv. ríkisstj. í fullum gangi. Og bankarnir, þar er nú aldeilis sjálfvirknin eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson veit. Þeir fá að hækka vaðandi upp úr öllu valdi og vaxtamunur hefur í engu dregist saman hjá núv. hæstv. ríkisstj. Raunvextir eru núna hærri en þeir hafa nokkru sinni verið og liggja með ofurþunga á húsbyggjendum og atvinnufyrirtækjunum í landinu. Þannig að sveitarfélög, ríkisfyrirtæki, einkafyrirtæki, bankar, allir þessir aðilar fá að hækka eins og þeim sýnist sína þjónustu. Þar er allt svo óskaplega frjálst eins og konan sagði í sjálfstæðu fólki og ég veit að hæstv. iðnrh. man hver hún var. Þar er nú aldeilis munurinn, þar er það frelsið. En þegar kemur að verkafólkinu í landinu liggur málið þannig að þar er allt saman rammslegið, þar eru hlutirnir gaddaslegnir fastir og ekkert má hækka, ekki neitt af neinu tagi. Það er þetta sem verið er að tala hér um, að það er sitt hvað Jón og séra Jón gagnvart þessari ríkisstj. Launamennirnir fá ekki að hækka vinnuafl sitt í verði en fyrirtækin búa við gullöld í landinu sem aldrei fyrr, mörg þeirra.

Hæstv. félmrh. sagðist ekki vilja viðurkenna að fyrirtæki sveitarfélaganna tækju meira en þyrfti til að standa undir tilkostnaði við ákveðna þjónustu. Ég fer fram á það við hæstv. félmrh. að hann láti gera úttekt á nýjustu taxtaákvörðunum borgarstjórnar Reykjavíkur og sú úttekt verði lögð fram hjá félmn. Nd. Ég fer fram á það við félmn.-menn hv. sem hér eru í salnum núna að þeir sjái til þess að þessi úttekt á töxtum borgarfyrirtækja liggi fyrir þannig að í ljós komi fyrir hæstv. félmrh. hvernig meirihl. í borgarstjórn Reykjavíkur hefur hagað ákvörðunum sínum á töxtum fyrirtækja að undanförnu. Ég er sannfærður um að í mörgum tilvikum hafa þessi fyrirtæki fengið hækkanir langt umfram tilkostnaðarnauðsyn. Þetta hefur verið sýnt fram á af borgarfulltrúum minnihlutaflokkanna í Reykjavík, m.a. Kristjáni Benediktssyni borgarfulltr. Framsfl. í ítartegri grein sem ég sá eftir hann í blaðinu Tímanum fyrir nokkru sem ég geri ráð fyrir að hæstv. félmrh. lesi enn þrátt fyrir hinn nýja útgáfuaðila.

Þegar um er að ræða þessar miklu hækkanir hjá fyrirtækjunum verður væntanlega líka að horfa á það hvaða verðbólguáhrif þessar hækkanir hafa og hvaða vandi í efnahagslífinu nú veldur því að Þjóðhagsstofnun spáir auknum verðbólguhraða á næstunni. Hvað er það sem veldur því að Þjóðhagsstofnun spáir að verðbólgan fari vaxandi núna næstu mánuði? Það eru gjaldskrár fyrirtækja hæstv. iðnrh. sem hann á að sjá um. Í grg. Þjóðhagsstofnunar um efnahagsástandið í byrjun þessa árs sem send hefur verið forustumönnum stjórnmálaflokkanna kemur fram að hætta er á að framfærsluvísitalan „sýni örari breytingar á næstunni einkum vegna áhrifa taxtahækkana ýmissa þjónustufyrirtækja“. Hér er bersýnilega um það að ræða að þessi fyrirtæki, m.a. opinber fyrirtæki, eru að breytast í einn helsta verðbólguvaldinn, efnahagsvandamálið, sem Þjóðhagsstofnun bendir í raun og veru á númer eitt þegar hún ræðir um að verðbólga muni fara hér vaxandi á næstunni. Þetta er þáttur sem verður að hafa hér til hliðsjónar líka.

Ég vil svo aðeins að lokum benda á að miðað við áætlun Þjóðhagsstofnunar verða skattar til sveitarfélaganna á þessu ári um 8.2% af tekjum greiðsluárs. Þessi tala var 6.8% á árinu 1983 þannig að ljóst er að álagðir skattar til sveitarfélaganna verða hærra hlutfall af tekjum greiðsluársins en nokkru sinni síðan 1974. Hæsta hlutfallið á undan árinu 1984 er árið 1975, þá fór þetta hlutfall upp í 7.6%. Það er mat Þjóðhagsstofnunar að þessi hækkaða álagning sveitarfélaganna þýði 7–800 millj. kr. í skattabyrði á landsmönnum í heild. Nauðsynlegt er að þetta liggi fyrir.

Ég fer fram á það við hæstv. félmrh. að hann útvegi félmn. Nd. upplýsingar og yfirlit um heildarálagningu sveitarfélaganna á þessu ári. Nú eru flest stærstu sveitarfélögin búin að ákveða sína útsvarsprósentu þannig að það ætti að liggja fyrir hvað álagðir skattar sveitarfélaganna verða háir sem hlutfall af tekjum greiðsluársins 1984. Það stefnir sem sagt á 8.2% af tekjum greiðsluársins sem er hæsta tala í 10 eða 11 ár, þannig stendur það. Þó að þetta frv. sem hér er á dagskrá láti lítið yfir sér felur það staðreyndir í sér engu að síður.