25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég heyrði það áreiðanlega rétt að hv. 3. þm. Reykv. héldi því hér fram í ræðu sinni að það væri gullöld hjá ýmsum fyrirtækjunum í þessu landi. Hrein gullöld. Hvaðan ber mann að garði sem heldur slíku og þvílíku fram? (Gripið fram í: Ætli það séu ekki fyrirtækin sem þú hefur velþóknun á?) Innan úr hvaða kú er talað? Við skulum, án þess að lengja þessar umr. mikið umfram það sem nú er þegar orðið, taka dæmi um fyrirtæki sem ég hef vissulega velþóknun á, undirstöðufyrirtæki í öllum ríkisbúskap okkar, eins og t.a.m. Landsvirkjun. Hvernig voru ástæður þess fyrirtækis þegar mig bar að hinum nýja garði í iðnrn.? (Gripið fram í: Spurðu Pálma.) Pálmi Jónsson, hv. 1. þm. Norðurl. v., er formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins með prýði og er ekki sérstaklega vandabundinn Landsvirkjun svo ég viti, nema eins og við allir. (Gripið fram í: Fyrrverandi ráðherra.) Fyrrverandi ráðherra er hann, en hann var ekki yfir þeim þætti og það ætti hv. 3. þm. Reykv. að vera fullkunnugt, því öllum öðrum er það.

Þá stefndi hallarekstur Landsvirkjunar í 400 millj. kr. Það hafði verið búið þannig að henni árið 1982 að halli hennar varð 152 millj. kr. Hvernig var hann jafnaður? Með erlendri lántöku auðvitað, dollaralánum. Með hverju — og nú bið ég um útreikning og upplýsingar — ef svo hefði haldið fram sem horfði og 400 millj. kr. hallarekstur hefði orðið á Landsvirkjun árið 1983, með hverju átti að borga hann? Við þessu verða að gefast skýr svör, því annars er ekki tekið mark á málflutningnum, sem heldur því fram að það sé af einhverri sérstakri góðvild að teknar eru svo erfiðar ákvarðanir um stórhækkun orkuverðs til heimilanna í landinu til þess að þessi fyrirtæki verði rekin.

Menn þekkja e.t.v. þá útreikninga. Ef við hefðum greitt verðgildi raforkunnar, hefðum aðeins haldið við verðgildinu frá 1972–1982, þá hefði Landsvirkjun skuldað 100 millj. dollara minna en hún gerir í dag. Þetta heitir að fresta til næsta árs eða næsta áratugar því sem þyrfti að vinna á þessu nú. 100 milljónum dollara minna, ef við hefðum staðið undir og greitt verðgildi raforkunnar þennan áratug. En það var ekki gert og því er nú svo komið sem komið er, að menn uppskera eins og þeir sá og þetta hvílir á og skellur yfir með ofurþunga.

En ég vil líka minna þá á það, sem ofbýður hið stórhækkaða orkuverð, að á fjárlögum fyrir árið 1983, sem fyrrv. ríkisstj. afgreiddi, voru 35 millj. kr. ætlaðar til orkujöfnunar í landinu. Á þeim fjárlögum sem síðast voru afgreidd eru það 230 millj. kr. eða 700% hækkun milli ára.

Ég get upplýst það að sótt var á um hækkun hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Af ýmsum ástæðum var talin þörf á hækkun raforkuverðs Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það varð samkomulag við borgaryfirvöld um það að ekki yrði um hækkun að tefla. Það varð samkomulag um það. Og ég held að ef ekki breytist annað stórlega til hins verra þá megi fullyrða að á árinu 1984 verði engar rafmagns- eða orkuverðshækkanir yfirleitt, ekki rafmagnshækkanir, segi ég. En þessi hækkun, sem ég tel sjálfsagða, verður hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Ég endurtek að ég mun verða mjög staður og reyna til hins ýtrasta að sporna gegn öllum orkuverðshækkunum, og hef enda enn sem komið er vald til þess. En þær röksemdir voru löngu fluttar fram við mig um nauðsyn Hitaveitu Reykjavíkur á hækkunum og hefði raunar þurft að koma fyrr til, hinn 1. nóv. raunar ef vel hefði átt að vera. En samkomulag varð um að fresta því þá.

Auðvitað er þetta þáttur í kjörum, þó það sé ekki í launakjörum, fólksins sem hér býr. Hverjum dettur annað í hug? Gengur einhver í grafgötur um það? Og þess vegna er það auðvitað sem menn hika við og hugsa sig um vandlega og taka ekki slíkar ákvarðanir eða samþykkja slíkar hækkanir nema í hinni ýtrustu nauðsyn.

Um það sem spurt var um námsvistargjald er mér ekkert umhendis að lýsa því yfir að það er mikill fleinn í mínu holdi. Og vænti ég þess að menn reyni til við að ná annarri skipan mála eða öllu heldur að ekki verið horfið að þessu fyrirhugaða ráði.