25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar fsp. sem hér hefur komið fram sé ég mig tilneyddan að koma aftur í ræðustól. Við erum að vísu komin langt frá því umræðuefni sem er hér á dagskrá. Ég vil í sambandi við þær óskir sem hv. 3. þm. Reykv. bar hér fram lýsa því yfir að ég mun að sjálfsögðu leita eftir því við Reykjavíkurborg að láta gera úttekt á því sem hann spurði um í sambandi við taxta fyrirtækja Reykjavíkurborgar og reyna að fá greinargóð svör fyrir félmn. og enn fremur upplýsingar um álagningaráform sveitarfélaganna 1984.

En ég vil benda á það sem staðreynd að aðeins örfá sveitarfélög í landinu eru búin að taka lokaákvörðun um álagningarprósentu. Fá þeirra eru búin að ganga frá fjárhagsáætlun fyrir árið 1984 en þessi mál eru nú til umræðu hjá flestum sveitarfélögum, a.m.k. stærri sveitarfélögum.

Ég vil einnig endurtaka það, að ég dreg mjög í efa þá fullyrðingu hv. 3. þm. Reykv. að sveitarfélögin misnoti álagningu þjónustugjaldanna. Ég þekki það ekki og ég vil benda á það, að ef við eigum að tala um einhver rök í þessu máli þá getum við bent á það að skuldastaða sveitarfélaga við síðustu áramót var neikvæð um yfir 500 millj. Svo erfið var fjárhagsstaða þeirra á s.l. ári.

Í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Vestf. fullyrði ég það, og ég veit að hann þekkir það ósköp vel sjálfur úr sinni heimabyggð eða sínu kjördæmi, að sveitarstjórnir í landinu gera sér fulla grein fyrir gjaldþoli sinna þegna. Ég tel að þeir séu það nálægt þeim vettvangi að þeir geri sér fulla grein fyrir hvernig þau mega beita sínum gjaldstofnum með tilliti til þeirra aðstæðna sem eru á hverju svæði. Það er alveg ljóst.

Í sambandi við námsvistargjaldið, af því hann spurði mig beint um það, vil ég lýsa því yfir að ég hef alltaf verið andvígur þessu gjaldi, og ef barist gegn því og beitt þeirri aðstöðu sem ég hef haft í samtökum sveitarfélaga til að mótmæla þessu gjaldi. Og mér er kunnugt um að fjöldi sveitarfélaga í landinu hefur mótmælt þessu gjaldi og alls ekki greitt það þó að óskað hafi verið eftir því. Eins og hv. þm. sjálfsagt vita er þetta gjald byggt á iðnfræðslulögunum sérstaklega. Það er vísað til þeirra þegar reynt er í sambandi við framhaldsskólana, aðallega fjölbrautaskólana, að ná þessu gjaldi af sveitarfélögunum.

Ég vil endurtaka að það er óhjákvæmilegt að Alþingi fari að takast á við þessi mái. Ég vona að hæstv. menntmrh. leggi fljótlega fram frv. til laga um framhaldsskóla og frv. til l. um skólakostnaðarlög sem taka af öll tvímæli um það hvernig á að fara með þessi mái. Á því er mikil þörf. Við höfum ekki efni á því í okkar þjóðfélagi að skapa ófrið milli þéttbýlis og dreifbýlis hvað þetta varðar. Við viðurkennum að allir eiga sama rétt á aðstöðu til náms og það er mjög óeðlilegt að gera þann mikla mismun sem liggur í þessu gjaldi. Ég vonast til þess að unnt verði að koma því þannig fyrir að þetta gjald verði ekki innheimt.