25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

451. mál, starfsemi Íslenskra aðalverktaka

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 4. þm. Reykn. get ég upplýst það að mér hefur ekki borist boð á þennan fund. Hins vegar vil ég geta þess að ég hef nú nýverið setið stjórnarfund hjá Jafnréttisráði og var mér tilkynnt þar hátíðlega að ég væri fyrsti félmrh. sem hefði hlotið þann heiður að sitja slíkan fund með stjórn ráðsins. Við áttum þar klukkustundar samræðufund sem ég tel að hafi verið mjög gagnlegur fyrir báða aðila.

Ég upplýsti á þeim fundi hvenær ég hefði lagt þetta frv. fram og að það væri í meðferð og að ákveðið væri að leggja það fram sem stjfrv. og fékk engar umræður um það. En að sjálfsögðu getur vel verið að eitthvað nýtt sé komið upp í málinu sem þessir aðilar telja sig þurfa að fjalla um m.a. við fyrrv. félmrh. og e.t.v. gæti það leitt til þess að búast mætti við einhverjum breytingum frá höfundum frv. eða aðstandendum öðrum. Það skal ég ekki segja um.

Ég verð að segja það að ég skil ekki hvaða ástæðu hv. 3. þm. Reykv. hefur til að ætla að þeir stjórnmálaflokkar sem standa að núv. ríkisstj. ætli að hafa einhverja sérstöðu í þessu máli. Ég veit ekki betur en þessu máli hafi verið vel tekið og það sé almennur áhugi fyrir því að setja nýja löggjöf eða endurbæta þá löggjöf sem í gildi er um jafnréttismál. Og ég vænti þess að umr. um þessi mál verði jákvæðar og skynsamlegar en fari ekki út í neina fordóma eða ásakanir á einn eða neinn í þessu máli fyrr en að staðreyndir um málið liggja fyrir.

Nú, í sambandi við störf þeirrar ágætu nefndar sem samdi þetta frv. veit ég ekki til að þau hafi gengið í aðra átt, ég hef enga tilkynningu um það fengið. Hins vegar er sérstök nefnd að störfum í sambandi við könnun á högum einstæðra foreldra. Sú könnun er í fullum gangi og það er búið að ákveða í sambandi við þá nefnd sem að þeim málum er að vinna að fá félagsvísindadeild Háskólans í lið með henni til þess að framkvæma ákveðna könnun, sem er þáttur í starfi nefndarinnar, til þess að reyna að flýta henni svo að hægt verði að flytja hér á Atþingi niðurstöður þeirrar könnunar. Ég vænti þess að það geti orðið áður en þingi lýkur í vetur.

Ég vil ekki ræða þetta meira. Ég vonast til, eins og ég sagði í upphafi, að það verði hægt að sýna þetta frv. um breytingar eða heilsteypt frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem allra fyrst. Að því er unnið.