25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

119. mál, tollskrá

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 120/1976, um tollskrá o.fl. Frv. þetta var flutt á síðasta þingi en hlaut þar ekki afgreiðslu og er hér endurflutt. Flm. eru þeir alþm. er sæti eiga í Nd. Alþingis og kjörnir hafa verið sem stjórnarmenn í Rannsóknaráði ríkisins.

Meginefni frv. er það að 39. tölul. 3. gr. tollskrárlaganna breytist og orðist svo: „Að fella niður eða endurgreiða gjöld af vísindatækjum og búnaði sem ættaður er til notkunar hjá viðurkenndum rannsóknaraðilum.“

Hér er m.ö.o. verið að fara fram á heimild með breytingu á tollskrárlögum til þess að fella niður eða endurgreiða gjöld af vísindatækjum ætluðum til vísindarannsókna á íslandi. Í tengslum við þetta lagafrv. hafa sömu þm. hér í Nd. flutt till. til þál. í Sþ. um staðfestingu hins svonefnda Flórens-sáttmála. Meginefni þeirra þáltill. er að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að staðfesta aðild Íslands að atþjóðasáttmála um niðurfellingu aðflutningsgjalda á varningi til mennta, vísinda og menningamála, svonefndan Flórens-sáttmála UNESCO, en án viðaukabókunar sáttmálans. En jafnframt þessu, segir í þáltill., verði gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum um tollskrá.

Kannske má spyrja: Hví er verið að bera fram þetta frv. hér í Nd. og þáltill. í Sþ.? Svarið við því er m.a. að finna í nýju fréttabréfi sem út er gefið af Eðlisfræðifélagi Íslands. Þar er bent á þá furðulegu staðreynd, sem ég leyfi mér að orða svo, að tekjur ríkissjóðs af innfluttum rannsóknatækjum í formi aðflutningsgjalda, tolla og annars eru meiri en framlag ríkissjóðs til raunvísinda í gegnum Vísindasjóð. Að því leyti væri Vísindasjóði betur borgið með því að afþakka framfagið úr ríkissjóði þegar maður lítur á það hvernig þetta bókhald kemur fyrir miðað við reynslu liðinna ára.

Þessi staðreynd bendir á hvílík nauðsyn er að gera breytingu í þessum efnum. Í fyrsta lagi að Ísland gerist aðili að Flórens-sáttmálanum svokallaða, en þá ekki síður — og það er mál sem hér er á dagskrá — að tollskrárlögunum verði breytt þannig að þessi gjöld verði niður felld. Þetta er ekki síst nauðsyn vegna þess að Ísland er í hópi þeirra Evrópuríkja sem einna minnst leggja til vísindalegra rannsókna og er þó kannske óvíða meiri þörf á grundvallarrannsóknum, sérstaklega á sviði vísinda, en einmitt hér á landi, því landi sem á svo margar auðlindir, lítt rannsakaðar og lítt nýttar.

Í þessu sambandi er ástæða til að minna á að nýlega hefur fjmrn. auglýst að ýmis tæki til rannsókna, gæðaeftirlits og vöruþróunar sem flutt eru inn af fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinum fái niður felld aðflutningsgjöld eins og um tæki og framleiðslubúnað væri að ræða í samræmi við 12. tölul. þessarar sömu 3. gr. í tollskrárlögum. Þar sem flest stærri innlend fyrirtæki í framleiðslugreinum fatla nú orðið undir þessa skilgreiningu eru það nánast eingöngu opinberar stofnanir sem ekki njóta þessara skilyrða. Þar með er brostin sú röksemd að ekki skuli mismunað í þessum efnum og jafnframt virðist nú talið gerlegt að taka afstöðu til þess hvaða tæki eru flutt inn til rannsóknar. Hér er um það að ræða að fella niður gjöld á vísindalegum tækjum og búnaði sem eingöngu er ætlaður til kennslu eða hreinna vísindastarfa að því tilskildu eins og sagt er í þeim Flórens-sáttmála sem ég nefndi, að þessi tæki séu ætluð til vísinda- og menntastofnana í opinberri eigu eða einkaeign sem fengið hafa heimild þar til bærra yfirvalda í innflutningsstandinu til að flytja inn slík tæki eða búnað og eiga að notast án viðskiptalegs tilgangs undir eftirliti og ábyrgð þessara stofnana.

Hér er vissulega um nokkurt tekjutap fyrir ríkissjóð að ræða af innflutningsgjöldum. Þær tekjur sem ríkissjóður hafði af innflutningsgjöldum af þessum tækjum 1981 voru rúmlega 26 millj. kr. Af þeirri upphæð er ljóst að aðflutningsgjöld af vísindatækjum eru umtalsverð fjárhagsleg byrði fyrir íslenska rannsóknastarfsemi og veruleg hindrun á framförum á því sviði.

Íslenskar rannsóknastofnanir fjármagna tækjakaup sín annars vegar af fjárveitingum til tækjakaupa og hins vegar af eigin aflafé sem þær fá fyrir greidda þjónustu og rannsóknarverkefni sem greidd eru af utanaðkomandi aðilum, þ. á m. atvinnufyrirtækjum. Í báðum tilfellunum verður að telja álagningu aðflutningsgjalda óskynsamlega ráðstöfun, ekki síst eftir að slík aðflutningsgjöld hafa verið felld niður af flestum atvinnufyrirtækjum í landinu. Fjárveitingar á fjárlögum til tækjakaupa eru venjulega af skornum skammti og eru því miður oft látnar mæta afgangi við afgreiðslu fjárlaga. Mörg dæmi eru til þess að þegar umsóknir um fjárveitingar til tækjakaupa hafa verið skornar niður nægir fjárveitingin ekki nema til greiðslu aðflutningsgjaldanna einna saman af hinum fyrirhuguðu tækjakaupum. Þá þykir sárt að sjá verulegan hluta naumra fjárveitinga renna aftur til ríkissjóðs. Þegar um ráðstöfun á eigin tekjum stofnana til tækjakaupa er að ræða sýnist jafn órökrétt að ríkissjóður skuli taka hluta af þeim tekjum í opinber gjöld, ekki síst þegar nú liggur fyrir sú stefnumótun að hvetja þær stofnanir sem tök hafa á að leita eigin tekna utan fjárlaga, þ. á m. frá atvinnuvegunum.

Það er í ljósi þessara röksemda sem frv. þetta er flutt hér í deild. Ég vildi mælast til þess að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn. deildar.