26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

89. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 98 hef ég leyft mér ásamt hv. 5. þm. Austurl. að flytja svohljóðandi till. til þál. um nýtingu og rekstrargrundvöll sláturhúsa:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina og láta fara fram gagngera athugun á sláturhúsum landsins með þessi meginmarkmið í huga:

1. Tryggður verði sem best rekstrargrundvöllur þeirra sláturhúsa sem nú standa lakast, m.a. með því að gera markvisst átak til þess að tryggja sláturhúsunum önnur verkefni svo lengja megi nýtingartíma þeirra.

2. Sérstök áhersla verði lögð á að endurbæta eldri sláturhús svo viðunandi sé og ekki þurfi að ráðast í nýbyggingar. Sérstaklega sé þetta kannað þar sem sláturhúsavinna er snar þáttur í afkomu fólks í nágrenninu.“

Málið eins og það er sett upp er nokkuð séraustfirskt að vísu. Það sýna tilvitnanir glöggt í grg. Við flm. leggjum þó áherslu á að þetta snertir mörg byggðarlög víða um land og við leggjum áherslu á heildarlausn í þessu máli þó að við vitnum sérstaklega til þeirra dæma sem okkur eru kunnugust.

Þetta mál hefur eins og í grg. segir verið lengi til umfjöllunar hjá stjórnvöldum. Ég vísa til grg. um leið og ég fer um málið fáeinum orðum en tel ekki ástæðu til að lesa hér yfir grg. sem fylgir með þessari till. enda kem ég inn á svipuð atriði í þeim fáu orðum sem ég mæli hér.

Tilraunir hafa verið gerðar um virka stjórnun og nefndir starfað að því verki. Ég átti sæti í þeirri síðustu sem lagði til ýmsar till. um samvinnu og sameiningu sem tryggja skyldi betri nýtingu. Fátt eitt hefur þar enn í framkvæmd komist enda hvergi nærri auðvelt þar sem hagsmunir rekast oft harkalega á, landfræðilegar aðstæður jafnt og atvinnulegar koma víða sterkt inn í myndina og enn streitast menn við að halda uppi því merki að nýbyggingar séu að allri gerð miðaðar við markað sem í raun er ekki til.

Nauðsyn góðra bygginga, nauðsyn ýtrasta hreinlætis draga flm. ekki í efa. Hreinlætiskröfur við dýrmæt matvæli eru mikil nauðsyn og skal þar ekki dregið neitt úr. Sama er að segja um aðstöðuna yfirleitt, að þar sé hagkvæmni gætt og vinnuaðstæður starfsfólksins séu sem bestar. Sjálfur vann ég í sláturhúsi sem unglingur þar sem vinnuaðstaða var ótæk, kaffistofa engin, hreinlætisaðstaða svo bágborin sem frekast gat verið. Þar gilti að slátra sem flestu og fláningsmenn réðu vinnuhraða og afköstum allra en hlutu einir umbun þess. Svo er að vísu enn allt um of en hér hafa mál vissulega breyst mikið og þau máttu svo sannarlega breytast.

En í þessu sem öðru fóru menn offari að mínu viti. Mörg sláturhús hafa verið reist þar sem ekkert hefur verið til sparað og farið eftir ströngum kröfum ímyndaðs amerísks markaðar. Oft er talað um vinnsluhætti landbúnaðarins og oftlega leiðast menn þar út í miklar öfgar svo sem oft vill verða um málefni landbúnaðar almennt. En sé litið til hins skamma nýtingartíma sláturhúsanna yfirleitt er þó öllum ljóst að hvergi hefur nægilega verið staðið að hagkvæmni og stærð þeirra verið allt of rífleg og hvergi til sparað. Afleiðingar hafa orðið meiri sláturkostnaður og ekki síður hitt að þessi dýru hús hafa svo lítið sem ekkert verið nýtt til annarra hluta. Margir hafa bent á að endurbætur og lagfæringar þar sem aukið hreinlæti sæti í fyrirrúmi ætti að framkvæma sem víðast í stað dýrra nýbygginga. Sums staðar hefur þetta tekist með ágætum og mikil framför orðið án allt of mikils kostnaðar. Annars staðar hafa menn nær haldið að sér höndum umfram það allra brýnasta þar sem beðið hefur verið eftir nýbyggingunni sem óhjákvæmileg hefur verið talið. Erfitt hefur reynst að leggja slátrun niður þar sem hún á annað borð hefur verið. Ráða þar sjónarmið bænda varðandi fjárflutninga og atvinnusjónarmið að nokkru.

Flm. telja sjálfsagt að leggja af slátrun í ófullnægjandi húsakosti þar sem það er réttlætanlegt vegna vegalengdar til næsta sláturhúss og þar sem engin brýn atvinnuleg rök hníga að. Um það mætti nefna dæmi og að slíkum tillögum hef ég staðið í síðustu sláturhúsanefnd.

Flm. telja hins vegar að þar sem aðstæður kalla á aðgerðir og annmarkar eru á að leggja slátrun niður m.a. af búsetusjónarmiðum eigi að leita allra leiða til að tryggja hreinlæti og aðstöðu m.a. fyrir starfsfólk með endurbótum og viðbyggingum þar sem slíks er nokkur kostur.

Flm. benda gjarnan á Djúpavog sem dæmi þar um. Þar var um það rætt að annað tveggja yrði þar að gera, að leggja af slátrun eða ráðast í dýra nýbyggingu ella. Viðbyggingar- og endurbótaleiðin var valin og hún reynist vel viðunandi og verður enn frekar þegar lokið er því nauðsynlegasta. Orð eftirlitsmanns, dýralæknisins á Breiðdalsvík, hef ég fyrir því að heilbrigðiskröfum sé fullnægt enda ágætt starfsfólk og góð stjórnun til staðar.

Menn gleyma gjarnan í þessu sem öðru hinum mikilvæga þætti starfsfólksins sem oft ræður mest um það hvernig meðferð varan fær sem fer um hendur þess. Þar ræður ekki risavaxin steinsteypan ein.

Á Breiðdalsvík var að vísu útilokað að endurbæta það hús sem þar var en þar var líka reist allt of viðamikið og um margt of dýr bygging m.a. eftir kröfum þeirra aðila sem hafa með yfirstjórn þessara mála að gera og ekki dró Teiknistofa Sambandsins af sér heldur í því efni.

Útilokað var hins vegar allra aðstæðna vegna annað en að reisa sláturhús á Breiðdalsvík. Menn þar treystu á svipað ástand byggðar og bústofns í framtíðinni og þá var en riðuveikin setti alvarlegt strik í þennan reikning og nú er byggðin í verulegri hættu. Dýrt sláturhús með enn minni verkefni en fyrirhuguð voru vegna búfjármissisins er nú að sliga bændur austur þar. Hér er um svo dæmigert byggðamál að ræða að Byggðasjóður á hér ótvírætt hlutverk og vissulega er á það treyst að svo verði. Hins vegar verður að gera allt sem unnt er til að finna verkefni, vinnslu eða eitthvað annað sem nýja sláturhúsið fengi til að rétta sig af. Heimamenn hafa af veikum mætti reynt að gera þetta en hvorki haft bolmagn né aðstöðu til þess.

Þriðja dæmið eystra sem við flm. nefnum eru Öræfin, Hofshreppur, þar sem slátrunin og ýmislegt í kringum hana hefur verulega þýðingu í búsetu þeirrar blómlegu sveitar þar sem samvinna og samhjálp bænda er með því besta sem þekkist. Í engu er þar áfátt um hreinlæti og að sögn þeirra sem til þekkja utan að eru vinnubrögð og meðferð öll til fyrirmyndar. Öræfingar fullyrða að sveit þeirra stæði mun tæpar ef þessi þáttur yrði af lagður enda gefur það auga leið. Þar er því nauðsyn að tryggja framhald slátrunar án óhóflegs tilkostnaðar og heimamenn hafa um leið hugmyndir sem fullnægjandi virðast ef utanaðkomandi aðilar kollvarpa þeim ekki með kröfum út í bláinn.

En meginefni þessarar till. lýtur einmitt að þessu tvennu, aukinni annarri nýtingu húsanna og nauðsyn hófs í endurbyggingu sláturhúsa þar sem þess er talin þörf.

Síðara atriðið ætti að vera auðvelt í framkvæmd ef annarleg sjónarmið og ímyndaðar markaðskröfur verða ekki ofan á svo sem verið hefur. Ekki skal úr því dregið enn til undirstrikunar að engu síðri almennar hreinlætis- og heilbrigðiskröfur þarf að gera og á að gera til innlends markaðar, innlendra neytenda. Það er eðlileg og sjálfsögð meginkrafa sem við leggjum áherslu á. Aðeins er um það að ræða að þó það sé gert er ekki nauðsynin mest að reisa ný stórhýsi eða viðhafnarhús.

Hitt atriðið um enn frekari nýtingu tengist óneitanlega frekari úrvinnslu sláturafurðanna fyrst og fremst. Víst er að enn erum við þar skammt á veg komin og engar einfaldar lausnir til. En sé litið til vinnslustöðvanna í mjólkurafurðum okkar og þeirrar geysilegu framþróunar sem þar hefur orðið mega menn sjá gerst hvað unnt er að gera með öflugu og samstilltu átaki. Þar hefur orðið bylting í vinnslu með aukna fjölbreytni og meiri gæði en menn gátu séð fyrir.

Ýmsar tilraunir í meðferð og vinnslu kjöts lofa góðu. Nú þarf að vinna sem markvissast að sams konar átaki þar og í mjólkurafurðum. Ýmsir áhugamenn um þessi mál telja þetta kleift og á mínum heimastað er einn slíkra áhugamanna sem telur að við eigum mikla möguleika m.a. í því að koma unninni eða sérpakkaðri gæðavöru á erlendan markað og fá fyrir hana viðunandi verð. Sláturhúsin geta áreiðanlega komið að góðu gagni við þessa úrvinnslu og pökkun enda sjálfsagt að huga vel að því, en vafalaust má huga að annarri meðhöndlun matvæla í sláturhúsunum og góðum sölum þeirra einnig.

Margt fleira mætti athuga sem ekki rækist á við hinn stutta nýtingartíma sem víðast er nú. Að verulegri könnun þessa þarf að vinna. Til þess er þessi till. flutt enda orð til alls fyrst. Till. þessi ef í framkvæmd kæmist ætti bæði að vera bændum og neytendum til hagsbóta enda eiga hagsmunir þessara aðila að fara saman sem allra mest. Þeir sem í mestum erfiðleikum eru í dag þurfa að fá aðstoð sem allra fyrst. Stefnumörkun um uppbyggingu sláturhúsanna þarf að vera sem skynsamlegust. Allra leiða þarf að leita til að fleiri verkefni færist í þessi hús sem annars nýtast ekki.

Rétt eftir að till. þessi var flutt birtust langar og fræðilegar greinar um sláturkostnað í Morgunblaðinu. Þar var annars vegar haldið fram ótrúlega háum fjárhæðum sem hreinum gróða sláturhúsanna almennt og var þar vissulega margt athygli vert sem sannarlega væri ástæða til að skoða. Hins vegar kom svo svargrein eins stærsta eða stærsta aðilans að slátrun hér og bar fáu saman í þessum tveimur greinum. Þessa get ég hér í lokin án þess að því máli öllu séu gerð skil enda um sumt óskyldir hlutir en nátengdir heildardæminu að sjálfsögðu. Það mál allt væri án efa tilefni mikilla umr. hér og þó aðallega á þeim vettvangi sem eðlilegastur og sjálfsagðastur er, á vegum Bændasamtakanna sem hér eiga stærstan hlut í hagsmunum öllum, ef þær fullyrðingar sem þarna voru fram settar eiga við rök að styðjast.

Svo og er hér vitanlega um mál að ræða af þeirri stærðargráðu hvað kostnað snertir að landbrn. hlýtur einnig að láta það til sín taka. Ég vísa aðeins til þessa en vil svo leggja til að að loknum þessa hluta umr. verði þessu máli vísað til hv. atvmn.