26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

89. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vil taka undir það að hér er hreyft vandamáli sem vissulega er þörf á að athuga vel og ræða og væri hægt að ræða í löngu máli, sem ég ætla þó ekki að gera núna. Í þessari till. eru settar fram eðlilegar óskir um að reyna að koma þessum málum í besta horf sem hægt er. Hins vegar er því ekki að neita að markmiðin stangast e.t.v. nokkuð á, þannig að ef það á að koma upp góðum húsum, sem gera mögulegt að vinna vel úr framleiðsluvörum landbúnaðarins, þá kostar það alltaf nokkurt fjármagn.

Það er vegna orða síðasta ræðumanns um að hér hefði verið um gífurlega offjárfestingu að ræða í sláturhúsum sem ég vildi gera aths. og fyrirvara. Það var fyrir 20 árum eða rúmlega það reynt að gera áætlun um uppbyggingu sláturhúsanna og eftir henni var nokkuð farið þó að hún hafi aldrei verið að fullu framkvæmd, hygg ég vera. Víða um land hafa risið nokkuð vandaðar byggingar í þessu skyni. En þrátt fyrir það hefur jafnan verið erfitt að fá nægilega mörg sláturhús viðurkennd til útflutnings. Staðan er þannig og hefur verið þannig á undanförnum árum að við þurfum að flytja út allt að þriðjungi dilkakjötsframleiðslunnar, eða þannig hefur það verið á undanförnum árum og virðist jafnvel vera enn á þessu ári, en þeir aðilar sem við leitum til um kaup á vörunum setja skilyrði um gæði þeirra vinnslustöðva sem taka á móti framleiðsluvörunni. Hingað koma á hverju ári nokkrir sérfræðingar frá þeim löndum sem við erum að reyna að leita að mörkuðum í og skoða aðstöðuna og er misjafnt hvernig gengur að fá viðurkenningu á henni. Hér var t.d. á s.l. hausti fulltrúi frá Efnahagsbandalagi Evrópu. Það voru í mesta lagi held ég þrjú hús sem hann vildi viðurkenna sem algild til útflutnings. Hvernig stæðum við í dag ef þessi hús hefðu ekki verið til? Ég vildi vekja athygli á þessu, að menn varist fullyrðingar sem stangast e.t.v. að einhverju leyti á við raunveruleikann.

Það er nú þannig, held ég, að eins og sláturkostnaðurinn er byggður upp eru fjármagnskostnaður eða afskriftir ekki stór liður í heildarsláturkostnaði, þ.e. ekki fjármagnskostnaður bygginganna, þrátt fyrir húsin sem byggð hafa verið, en það leiðir svo aftur af sér að þeir sem staðið hafa í framkvæmdum alveg nýlega, eins og þeir aðilar sem nefndir eru í grg. till., og bera mjög háan fjármagnskostnað fá í gegnum sláturkostnað tiltölulega lítið upp í þann fjármagnskostnað. Það er vissulega vandamál. Hins vegar hefur ekki neinn getað sagt fyrir um hvort einhver á að hafa leyfi til að byggja sláturhús eða ekki. Það verður viðkomandi að taka ákvörðun um, ef hann fær fjármagn til slíkra framkvæmda.

Ég vil taka undir það, sem hér kom fram, að vissulega er þörf á því að koma upp frekari vinnslu á dilkakjöti til útflutnings. Það er orðin það mikil sérhæfing á markaði að hagkvæmt getur verið að nýta einhvern hluta af skrokknum á Íslandi og flytja annan hluta til annars lands og fá þannig hærra verð. En fyrir slíkum vinnslustöðvum þarf líka að fá leyfi viðkomandi innflutningslands. Menn hafa rekið sig á að ef það er ekki fyrir hendi er ekki hægt að flytja út á þennan hátt. Þar eru því miður gerðar ansi harðar kröfur um aðstöðu svo að veitt sé slíkt leyfi. Ástæðuna fyrir hinum hörðu kröfum sem eru gerðar hygg ég kannske ekki vera að öllu leyti þá að sláturhús í viðkomandi löndum séu svo góð, heldur hitt, að þessi leyfi eru alveg tvímælalaust notuð sem innflutningshindrun. Það er þannig með verslun á landbúnaðarvörum að hvert land leggur gífurlegt kapp á að vera sem mest sjálfbjarga og vernda sinn landbúnað. Allir telja lífsnauðsyn fyrir hverja þjóð að hafa landbúnað sem öflugastan og að hann fullnægi sem mest þörfum eigin þjóðar. Í því skyni eru þessar ströngu kröfur settar.

Ég vil taka undir það að mjólkuriðnaðurinn hefur náð mjög miklum framförum í fjölbreyttari vörum á undanförnum árum, sem fyrst og fremst eru vissulega nýttar fyrir innanlandsmarkað. Á hann þurfum við vitanlega að leggja mesta áherslu. Og þrátt fyrir að þarna sé um mikla gæðavöru að ræða er þó enn þá verra að flytja hana út en sauðfjárafurðirnar. En það hefur vissulega auðveldað mjólkuriðnaðinum að vinnslustöðvar mjólkur eru í notkun allt árið þannig að nýtingartíminn er miklu lengri en á sláturhúsunum þar sem tíðarfar okkar takmarkar ákaflega mikið notkun þeirra.

En varðandi byggingu þá sem verið er að reisa við Suðurlandsbraut og minnst var á í sambandi við mjólkuriðnaðinn, þá held ég að mönnum sé ekki ljóst að sú starfsemi sem þar á að fara fram er fyrst og fremst heildsala, þ.e. dreifing á mjólkurvörum á þetta sölusvæði. Frá Mjólkursamsölunni í Reykjavík er dreift á milli 800 og 900 aðila og framleiðsluvörutegundirnar eru um 100 sem hún annast dreifingu á. Það er vitanlega langumfangsmesta heildsöludreifing á landinu. Sú bygging sem þarna er að rísa er því ekki mjólkurbú nema að örlitlu leyti, heldur fyrst og fremst dreifingarmiðstöð. Hin aukna fjölbreytni, sem við gleðjumst allir yfir á síðustu árum, hefur valdið því að þessi blómlega starfsemi er að sprengja gömlu húsakynnin algerlega utan af sér. Það geta allir séð sem þangað fara. Ég held að það væri mjög æskilegt að sem flestir sem um þetta ræða kynni sér þá aðstöðu sem þar er með eigin augum. — Mér var tjáð fyrir fáum dögum að þar væru á döfinni nær 30 nýjar tegundir, þ.e. athugun á því að auka fjölbreytni. Það bætist þá við dreifinguna til þessara 800–900 staða. Þá sjá allir að það hlýtur að kalla á betri aðstöðu og aukið húsrými.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, enda þótt það væri margt hægt um það að segja, en undirstrika að hér er á ferð málefni sem er full þörf á að haft sé vakandi auga á og að gert sé allt sem unnt er til þess að þar verði framvinda mála á sem hagkvæmastan hátt.