26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2389 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

91. mál, fiskeldi og rannsóknir á klaki sjávar- og vatnadýra

Flm. Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um fiskeldi og rannsóknir á klaki og eldi sjávar- og vatnadýra sem er 91. mál Sþ. Flm. auk mín eru þm. Geir Gunnarsson, Ragnar Arnalds og Steingrímur Sigfússon. Meginefni till. er að Alþingi feli ríkisstj. að undirbúa áætlun um eflingu fiskeldis, svo og heildarlöggjöf um fiskeldi þar sem m.a. verði ákveðin yfirstjórn þessara mála og stuðningur af hálfu hins opinbera. Áætlun þessi verði ásamt lagafrv. um fiskeldi lögð fyrir Alþingi eigi síðar en í byrjun næsta reglulegs þings, þ.e. haustið 1984.

Markmið með áætlun þessari verði að eldi og ræktun sjávar- og vatnadýra geti sem fyrst orðið gildur liður í þjóðarbúskap og atvinnulífi hérlendis. Sérstök áhersla verði lögð á þá þætti sem skilað geti arði sem fyrst, svo sem á eldi á ungfiski úr sjó, en jafnhliða sköpuð aðstaða til víðtækra rannsókna og tilrauna með aðra þætti sem varðað geta framtíðarhagsmuni, svo sem klak- og seiðaeldi við íslenskar aðstæður.

Varðandi gerð áætlunarinnar gerir till. ráð fyrir að samráð verði haft við stofnanir sem að þessum málum hafa unnið eða eðlilegt er að um þau fjalli. Eru nefnd sem dæmi Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun, Rannsóknaráð ríkisins og Háskóli Íslands. Allir þessir aðilar hafa látið sig fiskeldismál skipta í einhverjum mæli en hlutur Hafrannsóknastofnunar verið þar mun minni en skyldi eins og ég vík að síðar. Við þessa upptalningu mætti bæta ýmsum, þ. á m. Fiskifélagi Íslands sem um árabil hefur stundað ráðgjafarstarf og nokkrar undirstöðurannsóknir í sambandi við fiskeldi og fiskirækt.

Sjálfsagt er að styðjast við reynslu sem þegar hefur fengist hér innanlands á þessu sviði og ekki síður að draga saman vitneskju um rannsóknir og reynslu erlendis í ræktun vatna- og sjávardýra. Þarf ekki lengra að fara en til Noregs til að átta sig á hversu skammt við Íslendingar erum komnir í fiskeldismálum. Norðmenn hafa brátt 100 ára reynslu að baki sem mjög margt má læra af, bæði til að stytta sér leið og læra af mistökum, en þó enn frekar til að fá viðspyrnu til sóknar á þessu sviði. Á það jafnt við um líffræðilega, tæknilega, rekstrarlega og félagslega þætti, svo og varðandi mótun löggjafar um fiskeldi.

Hins vegar verður ekki of oft undirstrikað að við Íslendingar munum ekki yfirfæra reynslu erlendis frá í þessu efni með árangri nema jafnhliða fari fram virk stefnumótun og rannsóknir hérlendis. Eins og tekið er fram í grg. með till. eru aðstæður hér svo gerólíkar því sem gerist í öðrum löndum þar sem fiskeldi er stundað að útilokað er að heimfæra beint niðurstöður annarra þjóða. Því skiptir afar miklu máli að yfir alla þætti sé farið vandlega og í réttri röð áður en lagt er út í mikinn kostnað eða byrjað á fjárfestingu í fiskeldi í stórum stíl þar sem reynsla er ekki þegar fyrir hendi. Á þetta er lögð áhersla í till. í sambandi við fyrstu aðgerðir, þ.e. að kanna almennar forsendur fyrir fiskeldi hérlendis sem best, m.a. varðandi fisktegundir, markað og arðsemi. Sérstök ástæða er til að horfa jafnt á hamlandi eða neikvæða þætti, bæði umhverfis- og markaðsskilyrði, sem og þau atriði sem skapað geta jákvæðan bakhjarl og sóknarstöðu við framleiðslu og samkeppni á erlendum mörkuðum.

Varðandi hið síðarnefnda er jarðvarmi og ómengað vatn í sjó og ferskvatni að sjálfsögðu ofarlega á blaði. Aðstaða til grundvallarrannsókna og tilrauna vegna fiskeldis og klaks sjávardýra er lítil sem engin fyrir hendi hérlendis og því er lögð áhersla á að slík aðstaða verði byggð upp á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar sem virðist sjálfsagður forustuvettvangur af opinberri hálfu. Er það í samræmi við gildandi lög um stofnunina þar sem meðal verkefna eru tilgreindar rannsóknir í fiskirækt og öllu sem að þeim lýtur sbr. 5. tl. 17. gr. laga nr. 64 frá 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

Á Alþingi árið 1980 fluttu alþm. Magnús H. Magnússon og Árni Gunnarsson svohljóðandi till. um breytingu á þessu ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„5. tl. 17, gr. laganna orðist svo:

Tilraunir með klak og eldi þorsks og annarra nytjafiska með það fyrir augum að seiðum verði sleppt í stórum stíl þegar þau hafa náð þeim aldri að þau leita botns u. þ. b. 5 mánaða gömul. Seiðunum verði sleppt í hafið umhverfis landið þar sem vaxtarskilyrði þeirra eru talin best.“

Þessi till. hv. þm. Alþfl. náði ekki fram að ganga. Ýmsir vísindamenn sem um fiskeldi hafa fjallað að undanförnu draga raunar í efa að sú aðferð sem ráð var fyrir gert í till. þeirra Magnúsar H. Magnússonar og Arna Gunnarssonar sé tímabær eða vænleg hér við land við núverandi aðstæður eins og vikið er að í grg. með þeirri till. sem hér er mælt fyrir. Engu að síður er réttmætt og nauðsynlegt að skapa Hafrannsóknastofnun aðstöðu til slíkra tilrauna og er raunar gert ráð fyrir því í stjfrv. tii laga um Hafrannsóknastofnun sem lagt hefur verið fram í Ed. á yfirstandandi þingi sem 81. mál á þskj. 86. Skv. því segir í 17. gr. 7. tölul. um markmið Hafrannsóknastofnunar: „Að stunda rannsóknir á eldi sjávarlífvera.“

Mikilvægt er að strax verði hugað að aðstöðu fyrir stofnunina á þessu sviði og verði undirbúningur allur miðaður við uppbyggingu og þróun í áföngum. Í því sambandi þarf ekki síst að vanda staðsetningu með tilliti til allra aðstæðna, m.a. í sjó, við ströndina og upp að henni vegna tilraunaaðstöðu í eldislónum eða tjörnum svo og nálægt jarðhita og nálægt nægu vatni. Hafa ber í huga langtíma þróun slíkrar starfsemi þegar henni er valinn staður, bæði svæði fyrir byggingar og fjölþættar tilraunir. Þetta á við um sjávareldi og það sem því tengist en á sviði ferskvatnseldis er sjálfsagt að nýta þá aðstöðu og reynslu sem fyrir liggur, ekki síst hjá Veiðimálastofnun.

Athygli manna og áhugi á fiskeldismálum hefur til þessa að mestu einskorðast við ferskvatnsfiska og þá sérstaklega fiskirækt og veiði. Endurspeglast það m.a. í flutningi mála hér á Alþingi á undanförnum árum. Í því sambandi minni ég á þáltill. frá nokkrum þm. Sjálfstfl., þ. á m. Agli Jónssyni, um skipulegt átak í fiskræktar- og veiðimálum, en það var 28A. mál á 103. löggjafarþinginu 1980–1981.

Á sama þingi flutti Guðrún Hallgrímsdóttir ásamt fleirum þáltill. sem var 191. mál 1980, um eflingu tækniþekkingar á fiskirækt, m.a. með því að láta reisa og reka tilraunastöð fyrir stríðeldi vatna- og sjávardýra. Hvorug þessara tillagna varð útrædd á þinginu. Í grg. með till. Guðrúnar Hallgrímsdóttur var m.a. vísað til rannsókna sem gerðar höfðu verið hjá Háskóla Íslands varðandi eldi við stýranlegar umhverfisaðstæður, svokallað lokað eldi. Var að þeim málum unnið á vegum Verkfræðistofnunar Háskólans á árinu 1979 og 1980, m.a. varðandi möguleika á sjálfvirkri stjórnun með tölvubúnaði. Komu í því sambandi fram hugmyndir um að komið yrði upp sérstakri rannsóknarstöð á vegum Háskólans til að þróa svokallað lokað laxeldi.

Þá er að geta þess sem miklu skiptir fyrir undirbúning fiskeldismála að á vegum Rannsóknaráðs ríkisins er nú unnið að úttekt á stöðu og möguleikum vatna- og sjávareldis hérlendis. Var í því skyni skipaður starfshópur á vegum ráðsins 30. júlí 1982 undir forustu Sigurðar St. Helgasonar lífeðlisfræðings. Ritari hópsins er Úlfar Antonsson vatnalíffræðingur og starfsmaður Rannsóknaráðs og hefur hann mikið unnið að þessu máli síðan. Þess er að vænta að niðurstöður þessa starfshóps Rannsóknaráðs liggi fyrir á fyrri hluta þessa árs, 1984, og ættu þær að geta myndað grunn í þeirri áætlun um eflingu fiskeldis sem gert er ráð fyrir skv. þáltill.ríkisstj. leggi fram ásamt frv. til laga um fiskeldi í byrjun þings næsta haust eins og áður hefur verið að vikið.

Ég hef hér gert grein fyrir meginverkefni og markmiðum með flutningi þessarar till. og vikið að nokkrum þáttum sem fram hafa komið og unnið er að á sviði fiskeldismála hér á landi. Í framhaldi af því vil ég draga fram nokkrar hugmyndir um æskilega þróun þessara mála og atriði sem rétt er að höfð sé hliðsjón af við undirbúning að heildarlöggjöf um vatna- og sjávareldi.

Rétt er að minna á að norsk löggjöf og reglugerðir um fiskeldi hafa verið endurskoðuð á síðustu 10 árum. Í Noregi eru gildandi heildarlög um eldi fisks og skeldýra frá 15. maí 1981 og bráðabirgðareglur sem þá voru settar á grundvelli þeirra laga, m.a. um úthlutun leyfa til aðila sem slíkt eldi stunda. Þá lágu fyrir hvorki meira né minna en 800 umsóknir sem síðan hafa verið til meðferðar hjá norskum stjórnvöldum. Hefur mikillar varfærni verið gætt við úthlutun nýrra leyfa með tilliti til ytri aðstæðna, hagkvæmni, markaða og byggðarþróunar.

Eitt meginmarkmið fiskeldisstefnunnar í Noregi skv. þessum lögum og reglum frá 1981 er að styðja við og efla atvinnulíf í byggðarlögum sem standa höllum fæti fyrir og hafa takmarkaða þróunarmöguleika á öðrum sviðum. Fiskeldi á þannig að nýta sem gildan hlekk í byggðarþróun í Noregi. Leyfi til fiskeldis á aðeins að veita til fámennari byggðarlaga og einkum þar sem hefðbundið atvinnulíf í landbúnaði og sjávarútvegi er á undanhaldi.

Ekki vekja minni athygli þau skilyrði sem sett eru varðandi eignarhald í fiskeldisfyrirtækjum skv. þessum norsku lögum. Þannig má ekki veita leyfi til fiskeldis einstaklingum eða fyrirtækjum sem hafa teljandi hagsmuni á öðrum sviðum, þó að undanteknum bændum og sjómönnum og litlum fiskiðnaðarfyrirtækjum í byggðarlögum. Með þessu er ákveðið unnið gegn því að utanaðkomandi hagsmunir nái undirtökunum í fiskeldisfyrirtækjum. Hins vegar er í reglunum frá 1981 í Noregi kveðið á um að samstarf og samvinnu aðilar heima fyrir í þessum málum eigi að meta sem jákvæðan þátt við úthlutun leyfa.

Þessi stefna Norðmanna er lærdómsrík fyrir okkur Íslendinga þar sem erlendir aðilar og hagsmunir eru þegar farnir að sækja á og hreiðra um sig í laxeldi hérlendis. Slíkt er í hrópandi mótsögn við þá sjálfstjórnarstefnu heimabyggða og smáfyrirtæki í fiskeldi sem Norðmenn virðast hafa að leiðarljósi. Ástæða er til að ætla að einmitt þessar reglur í Noregi ýti á stórfyrirtæki eins og Mowy, Alfa Laval og fleiri slík til að leita fyrir sér í öðrum löndum, m.a. hérlendis.

Þess má einnig geta að umsóknum um fiskeldi í Noregi er í fyrstu beint til stjórnvalda í fylkjum en sjútvrn. þar hefur síðasta orðið. Þá er gert ráð fyrir að stærð eldisfyrirtækja sé miðuð við 3000 rúmmetra heildarrými.

Við mótun löggjafar hérlendis sem till. gerir ráð fyrir er eðlilegt að horft sé til ákvæða í löggjöf landa eins og Noregs sem hafa mun meiri reynslu á sviði fiskeldis en Íslendingar. Hins vegar ber að varast að yfirfæra slík ákvæði nema að mjög vel athuguðu máli inn í íslenska löggjöf. Sú áætlun sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir áður en afstaða er tekin til löggjafar á einmitt að auðvelda mönnum hér á Alþingi sýn til þessara mála. Skynsamlegt virðist að stefna að tiltölulega einfaldri löggjöf þar sem dregnar verði meginlínur sem síðan sé unnt að reisa á reglugerðar- og framkvæmdaatriði.

Meðal þátta sem taka þarf afstöðu til er yfirstjórn fiskeldismála, fjármögnun, rannsóknir, fræðsla og almenn ákvæði um fyrirtæki í fiskeldi sem unnt sé að byggja á skynsamlegar reglur um leyfisveitingar. Alveg sérstaklega þarf að ræða um hvernig tryggja megi skynsamlega dreifingu slíkra fyrirtækja, að teknu tilliti til arðsemissjónarmiða og varðandi hlut heimamanna í uppbyggingu þeirra og stjórnun.

Að mínu mati þarf að reisa rönd við að fiskeldi úti um land verði á hendi fárra fjársterkra aðila sem gera út í þennan rekstur t.d. héðan frá Reykjavík svo að ekki sé minnst á fjarlægari hagsmuni erlendra stórfyrirtækja. Þar með er ekki sagt, að við eigum að útiloka erlenda samvinnu til að auðvelda okkur að ná tökum á þessari grein, síður en svo. En allt á það að miðast við að tryggja varanlegt íslenskt forræði yfir rekstri, tækniþekkingu og markaðsmálum eins og frekast er kostur. Ég bendi á norrænt samstarf sem verið getur okkur hagkvæmt á þessu sviði, m.a. með stuðningi af Nordforsk og Nordisk industrifond.

Varðandi yfirstjórn og rannsóknir í fiskeldismálum vil ég undirstrika að enginn grundvallarmunur er á eldi ferskvatnsdýra og sjávardýra. Því þarf að tryggja samræmda yfirstjórn þessara mála og sem best tengsl þeirra stofnana og sjóða sem ætlað er að styðja við fiskeldi.

Hér verður að lokum minnst á nokkur atriði er varða nýsköpun og þróunarmöguleika á sviði fiskeldis. Eins og vikið er að í grg. er enn mörgum spurningum ósvarað varðandi hagkvæma nýtingu á veiðiám, hafbeit og eldi í kvíum. Nauðsynlegt virðist að efla mikið rannsóknir og gagnaöflun á þessu sviði, ekki síst varðandi laxeldi og tryggja fyllstu hlutlægni í slíkum rannsóknum. M.a. þarf að leggja áherslu á að auka endurheimtur og ná sem bestum afrakstri með stýringu og kynbótum á fiski. Þannig er keppikefli að auka hlut eins árs sleppiseiða af laxi sem skili sér þriggja ára til baka þar eð slíkur lax er að jafnaði mun stærri og verðmætari. Á sama hátt þarf að nýta betur þann lax sem skilar sér í árnar nú en dæmi eru um að 80% verði eftir í ánum að veiðitímabili loknu. Í því sambandi er ástæða til að minna á hvernig laxveiði var hagað á síðustu öld áður en laxveiðilög voru sett þann 14. febrúar 1885. Þá var haustveiði á laxi mikið stunduð, t.d. í efri hluta Hvítár í Árnessýslu og þverám hennar, jafnvel allt til jóla og stundum lengur. Um það má lesa í fróðlegri skýrslu Bjarna Sæmundssonar náttúrufræðings um veiði á Suðurlandi frá árinu 1896.

Hin síðustu ár hafa fróðlegar og gagnrýnar greinar birst eftir íslenska fiskifræðinga og líffræðinga, m.a. Hákon Aðalsteinsson og Jón Kristjánsson í tímaritinu Ægi 3. tbl. 1982 þar sem bent er á hvernig margfalda megi afrakstur laxveiða með skynsamlegri nýtingu. Einnig bendi ég á grein eftir Jón Kristjánsson og Tuma Jónsson í 11. tbl. tímaritsins Freys 1981 um sveiflur í laxagöngum og orsakir þeirra. Þeir telja að hóflegur hrygningarstofn gefi af sér stórar laxagöngur. Of stór hrygningarstofn sé til tjóns sé markmiðið að halda laxagöngum sem stærstum og jöfnustum.

Á árum áður voru teknir úr Elliðaánum 5–6 þúsund laxar eða 3–4 sinnum meira en nú og ætla má að ýmsar bestu laxveiðiár okkar séu ofsetnar. Svipuðu máli gegnir um mörg silungsvötn sem hafa mætti af miklar nytjar með hóflegri veiði og ræktun. Þar talar reynslan úr Mývatni og Þingvallavatni skýrustu máli en áhugi er nú að vakna víða á landinu á að nýta veiðivötn. Þar má nefna átak í silungsveiðum í Fljótsdalshéraði sem hófst s.l. sumar fyrir forgöngu Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Of snemmt er að spá um niðurstöður úr því átaki en upphafið lofar góðu. Mikilvægt er að þeir sem ætla sér að stunda veiði sem atvinnu eða aukabúgrein leggi við hana alúð sem hverja aðra vinnu.

Hákon Aðalsteinsson vatnalíffræðingur hefur áætlað, á grundvelli mælinga sem þeir hafa gert Sigurjón Rist og Haukur Tómasson hjá Orkustofnun, að vötn nálægt 1/2 km2 að flatarmáli og stærri séu á bitinu 74–80 þús. hektarar samtals. Varlega áætlað gefi þau af sér um 20 kg á hektara af fiski að meðaltali á ári eða 1500–2000 tonn. Þar af má líklega fá 1000 tonna afla af silungi í sæmilega aðgengilegum vötnum. Hér er því um umtalsverða möguleika að ræða í þjóðhagslegu tilliti, ekki síst þegar haft er í huga að fjárfesting vegna slíkrar veiði er tiltölulega lítil og á að geta skilað arði þegar í byrjun. En svo mikilvægt sem það er að nýta veiðimöguleika og eldi í ferskvatni meira og betur en nú tíðkast gæti verið eftir mun meiru að slægjast fyrir íslenskan þjóðarbúskap í eldi sjávardýra. Þar er óvissan hins vegar meiri en í vatnaeldi og nauðsynin á skipulegum vinnubrögðum og forustu af opinberri hálfu í upphafi enn auðsærri. Ég vísa í þessu sambandi til greinargerðar með þáltill. þar sem m.a. er vitnað til álits og greina eftir Björn Björnsson fiskifræðing. Hann segir m.a. í grein sinni í 9. tbl. Ægis 1983 eftirfarandi:

„Þó að tilraunir með seiðaeldi í stórum stíl séu ekki tímabærar hér á landi, þá tel ég hins vegar mjög æskilegt fyrir Íslendinga að hefja fljótlega tilraunir með eldi á þorski og öðrum sjávardýrum til manneldis. Þá á ég aðallega við að veiða ungfisk hér við land og koma honum fyrir í sérstökum eldistjörnum og ata hann þar upp til slátrunar (kaup á laxaseiðum kæmu þó einnig til greina). Mætti hugsa sér að sjómönnum yrði borgað visst fyrir hvern lifandi smáfisk sem þeir kæmu með að landi, með tilliti til verðmætis í eldi. Þannig fengist t.d. margfalt meira verð fyrir smálúðu heldur en smáþorsk. Einnig væri æskilegt að kanna hvaða fisktegundir eru hentugastar til fiskeldis á Íslandi. Nokkrar tegundir, sem kæmu vel til greina, eru þorskur, lúða, lax, ufsi og kræklingur. Það er trúlega hagkvæmasti kosturinn að vera með blandað eldi, t.d. lúðu, lax og krækling saman í eldistjörn. Þannig yrði lúðan á botninum, laxinn við yfirborð og kræklingurinn mundi hreinsa vatnið og nýta um leið alla tiltæka smáfæðu.

Grundvallaratriði við eldi á matfiski er að nota ódýrt fóður þar sem fóðurkostnaður er einn helsti útgjaldaliðurinn. Eldisstöðvar á Íslandi ættu að geta haft greiðan aðgang að ódýru fóðri, t, d. loðnu og jafnvel síld þegar verð á síld er lágt eða ekki er unnt að selja alla þá síld sem æskilegt er að veiða. Mætti hugsa sér að eitt eða fleiri nótaskip stunduðu fóðuröflun fyrir eldisstöðvar árið um kring þannig að sjaldan eða aldrei þyrfti að frysta fóður því að frysting hefði í för með sér mikinn aukakostnað. Einnig er mikilvægt við fiskeldi á Íslandi að nýta ódýran jarðhita til að halda eldivatni hæfilega heitu árið um kring til að vaxtarhraði verði alltaf nálægt hámarki.

Íslendingar standa nú á tímamótum. Fiskstofnar hér við land eru flestir fullnýttir, en fiskeldi gefur góða von um aukna framleiðslu á úrvalsfiski. Rannsóknir á fiskstofnum hér við land eru nú að komast í viðunandi horf, en rannsóknir á sviði fiskeldis eru hins vegar ákaflega rýrar enn þá. T.d. hefur Hafrannsóknastofnunin ekki aðstöðu til neinna tilrauna með lifandi fiska. Án mikilla rannsókna hér á landi er lítil von til að þróun fiskeldis á Íslandi taki hagkvæmustu stefnuna. Aðstæður hér eru svo gerólíkar aðstæðum annarra landa þar sem fiskeldi er stundað að útilokað er að heimfæra niðurstöður annarra þjóða beint. Áður en byrjað er á fiskeldi í stórum stíl er nauðsynlegt að láta fyrst fara fram nokkurra ára rannsóknir og hönnun til að koma í veg fyrir stórfelld mistök.“

Þetta var tilvitnun í grein Björns Björnssonar fiskifræðings sem stundað hefur framhaldsnám á þessu sviði við háskóla í Kanada.

Í fskj. með þáltill. eru einnig birtar eftir Björn Björnsson nokkrar hugleiðingar um fiskeldi á Íslandi í kjölfar ráðstefnu um þorskeldi. Þar var um að ræða alþjóðlega ráðstefnu sem haldin var í Noregi í júní 1983 og sótt var af 120 vísindamönnum frá 13 þjóðum. Í þeirri samantekt er að finna mikinn fróðleik og gagnlegar ábendingar um það í hvaða röð gæti verið skynsamlegt fyrir Íslendinga að vinna að sjávareldi. Björn dregur ekkert úr þeirri óvissu sem þessu er samfara, en vekur einnig athygli á heillandi möguleikum ef vel tekst til. Hann segir þar m.a.:

„Tilraunir hafa sýnt að ekki er við umtalsverð tæknileg vandamál að stríða við eldi á stærri fiski (matfiski). Spurningin er bara hvort unnt er að ala fiskinn upp á nógu ódýran hátt hér á landi til að um hagnað verði að ræða. Til að svo geti orðið verðum við Íslendingar að nýta sérstöðu okkar út í ystu æsar.“

Hann bendir á að eldi á matfiski virðist hafa marga kosti umfram hina hefðbundnu veiðimennsku og telur upp ýmis atriði því til stuðnings. „Af þessu leiddi,“ segir Björn, „að meðalverðmætasköpun á hvern fisk yrði margföld á við í náttúrunni og gæfi möguleika á að auka heildarfiskframleiðslu þjóðarinnar verulega. Auðvitað verður alltaf hagkvæmt að nýta hina náttúrulegu fiskistofna á hefðbundinn hátt hér við land, einkum með færri og ódýrari fiskiskipum. Hins vegar verður afrakstursgeta fiskistofna okkar ekki aukin verulega með núverandi veiðiaðferðum, en fiskeldi gæti aftur á móti leitt til umtalsverðrar viðbótar.“

Það er einmitt þessi viðbót við afraksturinn af fiskimiðum við landið sem verða þarf veruleiki sem fyrst með skipulegu eldi sjávar- og vatnadýra. Till. gerir ráð fyrir að fyrsta skrefið verði áætlun sem mótuð verði þegar á þessu ári og lögð fyrir Alþingi ásamt frv. til l. um fiskeldi í þingbyrjun á komandi hausti.

Herra forseti. Ég vænti þess að þessi till. fái góðar undirtektir hér á hv. Alþingi. Ég legg til að eftir að umr. verður frestað verði till. vísað til hv. atvmn.