26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

98. mál, aðgerðir gegn skattsvikum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Mikill er máttur þingræðisins. Þótt við gæfum okkur að hvert einasta orð sem hv. frsm. þessa máls fór með áðan væri sannleikanum samkvæmt, þótt við gæfum okkur að hún byggi yfir óendanlegri þekkingu um það mál sem hún var að fjalla um og þótt henni væri gefinn innblástur og andagift spámannanna til að snúa skoðunum eða hræra hjörtu áheyrenda sinna hefði það engu að síður komið fyrir lítið, herra forseti, af þeirri einföldu ástæðu að hv. þm. eru ekki hér.

Kjarni þess máls sem hún flutti var vægast sagt heldur hrollvekjandi. Hriplekt skattakerfi, gagnslaust skattaeftirlit og blindir eða lamaðir dómstólar, hvorki meira né minna. Hún fór með tölur, byggðar að vísu á áætlunum, byggðar á mati þekktra og viðurkenndra fræðimanna, og taldi líklegt að hvorki meira né minna en 30% af þjóðarframleiðslu Íslendinga væru svikin undan skatti, sem eru á milli 5 og 6 milljarðar kr. á verðlagi fyrra árs. Þó er sennilega óhætt að slá því föstu að þessar tölur eru mjög vanmetnar. Reyndar kemur það strax fram því að í þessum tölum er ekki talað um söluskattssvik.

Ef við færum nú hálfa leiðina og áætlum út frá neðanjarðarhagkerfi ýmissa grannþjóða okkar og gerum ráð fyrir að þessar tölur væru nær lagi 15% eða 15–20% værum við ekki að tala um þriðjung af ríkisbúskapnum, ekki þriðjung af fjárlögum ríkisins, heldur miklu nær helming.

Nú vill svo til að hér er í landi ríkisstj. sem er sannfærðari um eigið ágæti en margar aðrar ríkisstjórnir sem við höfum orðið að búa við um skeið. Við njótum nú t.d. forustu forsrh. sem komið hefur fram fyrir þjóðina í gervi siðferðispostula og farið vítt og breitt um landið og boðað þjóðinni hugarfarsbreytingu sem grundvallarforsendu fyrir bættum og blómlegri hag þjóðarinnar. Þegar umræður fara fram um skattsvik af svo hrikalegri stærðargráðu er hann ekki við.

Við vitum að við höfum hæstv. fjmrh. sem verður nú að una því að reka ríkisbúskapinn með verulegum halla, sem verður að una því að reka ríkissjóð, a.m.k. framan af þessu ári, mestan part með gúmmítékkaútgáfu úr Seðlabanka, sem verður að una því að reka A-hluta ríkissjóðs fyrstur fjármálaráðherra lýðveldisins með erlendum lántökum. Hér er fjallað um hriplekt skattakerfi, hér er verið að leggja fram tillögu um rannsókn og úttekt á þessu leka skattakerfi og aðgerðir gegn skattsvikum. Hæstv. fjmrh. er ekki við.

Síðan má náttúrlega minnast á hæstv. dómsmrh., æðsta siðgæðisvörð laga og réttlætis í landinu. Hann er ekki heldur við.

Í grg. með þessu frv. er haft eftir embættismönnum, með leyfi forseta, að það vantaði pólitískan vilja til að gera átak í þessum málum. Með þessari þáltill. er verið að reyna á þann pólitíska vilja eða viljaleysi. Það er hægt að greiða atkv. með ýmsum hætti. Það er hægt að greiða atkvæði með fótunum. Það gera menn í ýmsum þjóðfélögum sem kunnugt er. Og á þingi sums staðar er stundum viðhaft það form atkvæðagreiðslu að menn greiða atkvæði með nærveru sinni eða fjarveru, með því að ganga út um ákveðnar dyr. Ég fæ ekki betur séð en hugboð embættismannanna hafi fengið rækilega staðfestingu þessa síðdegisstund, að á Alþingi Íslendinga er ekki minnsti áhugi á þessu máli. Þetta er ekkert mál. Þriðjungur til helmingur af ríkisfjárlögum — ríkisbúskapnum — er svikinn undan skatti. Það er ekkert mál.

Ég get með engu móti, herra forseti, sefjað mig upp í það að trúa því að það skipti neinu máli sem sagt er um þetta mál úr þessum ræðustól í framhaldi af framsögunni. Það hvarflar ekki að mér að það skipti neinu máli. Í raun og veru liggur ljóst fyrir að það skipti engu máli að höfð hafi verið framsaga um þetta mái. Samkvæmt öllum vinnusparandi hugmyndum hefði verið réttast að leggja þetta mál fram til nefndar umræðulaust. Þess vegna ætla ég ekki að lengja þessa samverustund með þeim fáu áheyrendum sem hér eru. Nær væri að við héldum umræðum þá frekar áfram, sem einhvern áhuga hefðum á þessu, niðri í kaffistofu.

Samt ætla ég að leyfa mér að tengja þetta einu öðru umræðuefni, af því að skattar eru nefnilega ekki lítill þáttur af kjörum manna. Þetta þjóðfélag er búið að vera í andlegri kreppu í hálft ár — eða að nálgast ár út af efnahagsmálum. Þessa dagana ræða menn varla mikið um annað en hina nýju fátækt í íslensku þjóðfélagi. Menn ræða mikið um laun, um lægstu laun og afkomu hinna lægst launuðu. Nú vita allir menn að afkoma manna í þjóðfélagi sem býr við jafnútbreiddan skattundandrátt og jafnviðurkennd skattsvik og hér hefur verið lýst ræðst ekki nema að mjög litlu leyti af launum þeirra. Afkoma launþega ræðst þá í besta falli af því hver launin eru, hverjar ráðstöfunartekjurnar eru eftir skatt.

Nú standa yfir örlagaríkir kjarasamningar. Allir sem vettlingi geta valdið lýsa því yfir að þeir vilji endilega bæta kjör hinna lægst launuðu, en hver á fætur öðrum segir síðan: Það er ekki hægt að gera það með því að hækka launin þeirra. — Hvers vegna ekki? Það er vegna þess að ef laun eru hækkuð til eins hóps í þjóðfélaginu — kannske minnihlutahóps í þjóðfélaginu — treysta menn því ekki að þar verði látið staðar numið, heldur búast við því að verkalýðshreyfingin fái ekki við það ráðið að þessi launahækkun fari út yfir allt þjóðfélagið og af því leiði nýja verðbólguholskeflu og enginn verði neinu bættari. Þá segja sumir menn: Nær væri að gera þetta eftir félagslegum leiðum með tekjujafnandi aðgerðum sem yrðu samþykktar hér í þessum sal — m.ö.o.: við skulum taka upp afkomutryggingu. Fram hafa komið launþegaforingjar sem segja: Við höfum nú orðið enga trú á því, miðað við það launakerfi, það skipulag og sundurþykki sem ríkjandi er innan verkalýðshreyfingarinnar, að verkalýðshreyfingin geti leyst málið við samningaborð. Við höfum enga trú á því að út úr þeim samningum gæti það komið að raunveruleg kjör þeirra sem hið næsta hungursstigi búa, við alvarlega fátækt, verði bætt við samningaborðið. Þess vegna væri eðlilegra og eina færa leiðin að taka upp nýtt skattakerfi, fara leið úrbóta í gegnum skattakerfið, taka upp neikvæðan tekjuskatt þar sem tekjur yrðu borgaðar út til þeirra sem ekki næðu ákveðnu lágmarki launa.

Er þetta þá ekki leiðin? Við erum að tala um skattamál. Þetta er ákveðin leið í skattamálum. Tillögur hafa verið fluttar um að gera þetta. Þm. Alþfl. fluttu um það till. fyrr á þessu þingi, bæði við afgreiðslu fjárlaga og við afgreiðslu á frv. til l. um tekjuskatt fyrir jól. Þær voru felldar. Engu að síður segja margir: Þetta er eina leiðin. En síðan koma enn aðrir og segja: Nei, þetta er ekki heldur hægt, því miður. — Hvers vegna ekki? Það er vegna þess að skattsvik eru svo útbreidd í þjóðfélaginu og það hefur verið látið á það reyna svo rækilega, að ef ríkið ætlar að leggja skattframtöl borgaranna til grundvallar slíkum tekjujafnandi aðgerðum verður niðurstaðan allt önnur en sú sem til var ætlast. Menn vitna til reynslunnar frá fyrra kjörtímabili um hinar svokölluðu láglaunabætur sem byggðar voru á skattframtölum. Þær áttu að þjóna þessum tilgangi. Síðan eru talin upp ótal mörg fræg dæmi af stóreignamönnum, stórathafnamönnum í hverju byggðartaginu á fætur öðru sem fengu tékka í pósti frá hinu allsráðandi og kærleiksríka ríkisvaldi og voru stimplaðir láglaunamenn. M.ö.o.: opinberlega viðurkenndir skattsvikarar. Þetta var mörgum manni mikið feimnismál, en það alvarlega í málinu er að þetta var svo útbreitt að menn segja: Það er ekki einu sinni hægt að framkvæma þessa tekjutryggingu vegna skattsvikanna.

Hvernig er það þá á hinn kantinn? Mér er ákaflega minnisstæð umræða sem varð á þingi fyrir u.þ.b. ári um tilraun til að koma á hátekjuskatti. Að vísu var frv. sett fram í formi skyldusparnaðar hátekjufólks og átti að vera örvæntingarfull tilraun til að bjarga einu félagslegu kerfinu enn, þ.e. fjárskortur húsnæðislánakerfisins. Þegar það mál var betur skoðað spurðu menn sjálfa sig: Hverjir eru nú hátekjumenn í þessu þjóðfélagi? Jú, hátekjumenn eru launþegar eða launþegafjölskyldur með tiltölulega hærri laun en gengur og gerist á vinnumarkaðinum. Það kom fljótlega í ljós að þær fjölskyldur sem ætta sér yfirleitt að ráðast í það stórvirki að koma sér upp þaki yfir höfuðið afla sér yfirleitt mikilla tekna, eftir því sem hægt er og er á valdi launþega. Það gera þær með því að fyrirvinnur fjölskyldunnar vinna báðar úti, maður og kona vinna bæði úti, reyna að vinna eftirvinnu, reyna að vinna aukavinnu og reyna að afla mikilla tekna. Ef þau ekki gerðu það þýddi ekkert fyrir þau að ráðast í það verkefni að koma sér upp þaki yfir höfuðið við þau skilyrði sem bjóðast hér á húsnæðismarkaði. Stór hlut — sem betur fer — af ungu fólki á þeim tíma og kannske enn átti þess kost að afla mikilla tekna til að standa undir drápsklyfjum skulda og útgjalda þau ár sem eru erfiðust í þessu efni. En þá koma aðrir og segja: Þetta er hátekjufólk. — Og þá er um að gera að bjarga hinu félagslega kerfi með því að skattleggja hátekjufólkið.

Þetta er enn eitt dæmi um hriptekt, gagnslaust og ónýtt skattakerfi sem þjónar engum þeim tilgangi sem menn vilja láta það þjóna. Jafnvel háar tekjur segja nefnilega ekkert um afkomu fólks. Það eru til dæmi um launþega í landinu sem hafa háar tekjur á vissu tímabili, að vísu oft sveiflukenndar, — það fer eftir árstímum og atvinnugreinum og aldri — bera að sjálfsögðu gífurlega háa skatta, en lifa við lífskjör sem þættu sennilega lítt öfundsverð jafnvel atvinnuleysingjum með grannþjóðum okkar, eins og t.d. byggingarbasl hátekjufjölskyldunnar er ágætt dæmi um. Hvað er þá orðið eftir af hugsjóninni um tekjujöfnunaraðgerðir í velferðarríki, að beita skattakerfi og tryggingakerfi til tekjujöfnunaraðgerða, þegar ekki er hægt að beita því til að rétta hlut þeirra sem hafa fyrir neðan mannsæmandi laun og geta ekki lengur séð fjölskyldu farborða — láglaunafólkið — né heldur getur það náð til hinna raunverulegu hátekjumanna, sem eru oft og einatt ekki hálaunafólkið í þjóðfélaginu, heldur þeir aðilar í þjóðfélaginu sem hafa aðstöðu til að koma bróðurparti tekna sinna undan skatti?

Þetta er best varðveitta opinbera ríkisleyndarmál Íslendinga. Afkoma fjölskyldna fer ekki eftir tekjum. Hún fer eftir aðstöðu til að koma tekjum sínum fram hjá skatti. Meðan svo er ber þetta svokallaða velferðarríki engan veginn nafn með rentu. Það er nánast eins og öfugmæli, nánast eins og móðgun, vegna þess að kjarni þeirrar tegundar af þjóðfélagi er einmitt fólginn í því að ríkisvaldinu sé unnt að beita félagslegum kerfum eins og skattakerfi og tryggingakerfi til að koma í veg fyrir óbærilega fátækt, sem menn vilja ekki sætta sig við að neinn þjóðfélagsþegn þurfi að búa við, og menn fjármagni dýr félagsleg kerfi, hvort heldur er í heilsugæslumálum, heilbrigðismálum, skólamálum eða lífeyrismálum, eftir efnum og ástæðum, þannig að þeir sem besta hafi afkomuna leggi fram sinn skerf ómældan til að fjármagna það og afleiðingin verði í átt til tekjujöfnunar fremur en að sú tekjujöfnun fari fram fyrir fram með því að koma í veg fyrir að mikilla tekna verði aflað. Þetta er í raun og veru vandamál sem þeir menn sem sitja í þessum sal, alþm., stjórnmálamenn úr hvaða stjórnmálaflokki sem þeir tilheyra, standa frammi fyrir í nærri öllum gerðum sínum.

Misræmið milli orða og athafna í máli stjórnmálamanna er orðið mikið. Það hefur komið óorði á stjórnmálin. Það hefur komið óorði á Alþingi. Það hefur komið óorði á stjórnmálastarfsemi. Fögur orð og fróm um vilja manna til slíkra aðgerða verða gjarnan innihaldslítil þegar til kastanna kemur í framkvæmd. Þarfir velferðarríkisins eru miklar, greiðslugetan er takmörkuð og ekki síst í sveiflukenndu þjóðfélagi, þegar illa árar í efnahagsmálum og tekjujöfnunaráhrifin eru ákaflega vafasöm. Hið þjóðfélagslega óréttlæti sem í þessu felst er svo mikið að það eru takmörk fyrir því hvað eitt þjóðfélag getur staðist lengi með því að setja kíkinn fyrir blinda augað og horfa á það ástand sem flestallir viðurkenna að er ríkjandi, en hver ríkisstj. á fætur annarri viðurkennir að hún annaðhvort getur ekki eða vill ekki breyta.

Við skulum vona að fjarvera ráðh. og fjarvera þm. í umr. um mál af þessu tagi þurfi ekki endilega að tákna algert áhugaleysi, þurfi ekki endilega að þýða að flm. þessa frv. verði að sætta sig við það. Þeir eru að flytja mál sem er stórmál, eitt af stærstu málum þjóðfélagsins, og þeir eru vissulega ekki að gera það bara til málamynda. Við skulum vona að í starfi þingnefndar reki þingið af sér slyðruorðið.