30.01.1984
Efri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri á þskj. 231. Frv. það sem hér er til umr. er fylgifrv. með frv. til l. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem ég mælti fyrir s.l. miðvikudag. Eins og ég þá gat um er í tekjuskattsfrv. lagt til að framlög manna til fjárfestingar í atvinnurekstri séu frádráttarbær frá skattskyldum tekjum innan vissra marka, þ.e. 20 þús. kr. hjá einstaklingi og 40 þús. kr. hjá hjónum. Í frv. þessu er að finna nánari skilyrði fyrir frádráttarbærni slíkrar fjárfestingar og má því segja að það sé aðeins tæknileg útfærsla á þeim meginákvæðum sem er að finna í framangreindu frv.

Frv. þetta er eins og tekjuskattsfrv. undirbúið af nefnd þeirri sem ég skipaði 14. júlí s.l. Í framsögu minni með tekjuskattsfrv. fjallaði ég um nauðsyn eflingar atvinnulífs og þann tilgang skattalagabreytingar að renna styrkari stoðum undir atvinnurekstur landsmanna. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það nú og mun því að mestu halda mig við að ræða efnisatriði þessa frv.

Ýmsar ástæður liggja til þess að nauðsynlegt er að lögfesta reglur um nánari skilyrði fyrir frádráttarbærni framlaga manna til atvinnurekstrar. Er þar fyrst að nefna að æskilegt er að beina þessari fjárfestingu inn á ákveðnari brautir svo að hér á landi myndist fastmótaðar leiðir til fjárfestingar í atvinnurekstri, en það mun auðvelda almenningi mjög slíka fjárfestingu í framtíðinni. Þá verður að telja nauðsynlegt að veita þeim sem hyggjast festa sparifé sitt í áhættufjármagni í atvinnurekstri vissa lágmarkstryggingu fyrir því að þetta fé fari til fjárfestingar sem líkleg er til að gefa nokkurn arð og nokkra tryggingu fyrir því að ekki sé misfarið með fé þetta. Loks er nauðsynlegt að tryggja það að frádrátturinn nái einungis til raunverulegrar aukningar á framlögum manna til atvinnurekstrar, þannig að komið sé í veg fyrir misnotkun á frádráttarheimildinni.

Í I og VI. kafla frv. er að finna ýmis sameiginleg ákvæði sem eiga við allar þær fjárfestingarleiðir sem heimilaðar eru skv. frv. Í II.-V. kafla er hins vegar að finna ákvæðin um þær fjármagnsleiðir til fjárfestingar sem heimilt verður að velja á milli og er sérstakur kafli um hverja þessara leiða.

Í fyrsta lagi er um að ræða svonefnda stofnfjárreikninga sem II. kafli frv. fjallar um. Þessir reikningar eru ætlaðir þeim einstaklingum sem hyggjast leggja út í nýjan atvinnurekstur í formi einkafyrirtækis. Í langflestum tilvikum yrði um að ræða menn sem stunda launuð störf er til reikningsins er stofnað. Þeir sem hyggjast hefja einstaklingsrekstur geta fengið fjárhæðir frádregnar innan framangreindra marka frá tekjum gegn því að leggja hina frádráttarbæru upphæð í heild inn á sérstakan bundinn reikning í banka eða sparisjóði fyrir lok tekjuársins. Þessar innstæður eru hugsaðar sem stofnfé í væntanlegum atvinnurekstri og verða þær bundnar á reikningnum í sex mánuði frá lokum tekjuárs og eru verðtryggðar skv. lánskjaravísitölu. Innstæðurnar verða notaðar til kaupa á varanlegum rekstrarfjármunum í hinu nýja atvinnufyrirtæki og það verður að ráðstafa þeim innan sex ára frá lokum innborgunarársins. Þeir sem hyggjast stofna til nýs atvinnurekstrar geta því safnað stofnfé inn á þessa reikninga í allt að sex ár áður en reksturinn hefst. Þegar reksturinn er síðan hafinn og tekið er út af hinum bundnu reikningum teljast 2/3 hlutar úttektarinnar til skattskyldra tekna, en þennan skattskylda hluta er heimilt að nota á sama ári til sérstakra flýtifyrninga á fyrnanlegum eignum eða sérstakra fyrirframfyrninga á eignum sem enn hafa ekki verið teknar í notkun. Með þessu móti kemur enginn hluti fjárfestingarreikningsins til skattlagningar við upphaf rekstrar, en skattlagningu er hins vegar einungis frestað og mun þessi flýtifyrning fyrr eða síðar leiða til þess að reglulegar fyrningar takmarkist eða hafi áhrif á útreikning söluhagnaðar. Fyrirmyndar að þessum stofnfjárreikningum er að leita í dönskum skattalögum, en þar hafa reglur um etableringskonto verið í gildi í þó nokkur ár og gefið góða raun.

Einn þeirra möguleika til frádráttarbærra framlaga til eigin einkarekstrar sem í frv. er að finna er fjárfesting í hlutabréfum. Fjárfesting í hlutabréfum hinna stærstu hlutafélaga yrði frádráttarbær við bein og milliliðalaus kaup einstaklinga á bréfum í þessum félögum. Skilyrði fyrir því að slík bein og milliliðalaus kaup séu frádráttarbær eru að hlutafé viðkomandi hlutafélags sé a.m.k. 10 millj. kr., að hluthafar séu eigi færri en 100 og að engar hömlur séu lagðar á viðskipti með hlutabréf félagsins. Þá er þess krafist að ársreikningur félagsins sé öllum aðgengilegur.

Sums staðar erlendis, þar sem hliðstæðar frádráttarheimildir eru við lýði, er frádrátturinn bundinn því skilyrði að fjárfest sé í félögum sem skráð eru á opinberu kaupþingi. Slíku er ekki til að dreifa hér. Er því nauðsynlegt að setja sérstök skilyrði um þau félög sem heimilt er að kaupa hlutabréf af beint og milliliðalaust með þeim skattfríðindum sem um er að ræða. Eru í frv. gerðar allstrangar kröfur til þessara félaga, þannig að ljóst er að við núverandi aðstæður eru tiltölulega fá félög hér á landi sem fullnægja þeim skilyrðum. Auðvitað er það alltaf þó nokkurt matsatriði hvaða skilyrði eigi nákvæmlega að setja. Hvort eigi að gera kröfur til að hluthafar séu 100 eða einungis 75, hvort eigi að miða við 8 eða 10 millj. kr. hlutafé. Eðlilegt virðist þó að allstrangar kröfur séu gerðar í þessum efnum til að koma í veg fyrir misnotkun heimildarinnar.

Til fjárfestingar með frádráttarbærni í minni félögum verða menn að fara aðrar leiðir en bein og milliliðalaus kaup hlutabréfa í viðkomandi félagi. Er um tvær leiðir að velja skv. frv., annars vegar svonefnda starfsmannasjóði og hins vegar svonefnda fjárfestingarsjóði.

Í IV. kafla frv. er fjallað um starfsmannasjóði. Starfsmannasjóðir eru hugsaðir sem sameignarfélög, sem starfa í tengslum við tiltekin hlutafélög, og eru eingöngu myndaðir af starfsmönnum viðkomandi hlutafélags. Skal eina markmið starfsmannasjóðanna vera að kaupa hlutabréf í viðkomandi félagi. Þessir starfsmannasjóðir eru opnir öllum starfsmönnum viðkomandi hlutafélags og þeim einum. Þeir eru eins konar fjárfestingarklúbbur starfsmanna og er að sjálfsögðu hvorki gert ráð fyrir skylduaðild launþega að sjóðnum né skyldu hlutafélags til að selja slíkum sjóðum hlutabréf.

Með starfsmannasjóðnum gefst starfsmönnum kostur á sérstökum frádrætti með því að leggja fé til hlutabréfakaupa í viðkomandi félagi og eru ekki gerðar jafnstrangar kröfur til félaga í þessum efnum og þeirra félaga sem heimilt er að kaupa beint og milliliðalaust af og ég ræddi um áðan, hvorki að því er varðar heildarfjárhæð hlutafjár né fjölda hluthafa. Hins vegar eru gerðar ákveðnar kröfur um fjölda starfsmanna félagsins. Þeir verða að vera a.m.k. 30 til þess að starfsmannasjóður verði stofnsettur og þarf félagssamningur að vera undirritaður af þriðjungi starfsmanna félagsins, eða a.m.k. 30 starfsmönnum ef fjöldi starfsmanna fer yfir 90. Aðilar að starfsmannasjóðum mundu sjálfir fara með atkvæði á hluthafafundum í hlutfalli við aðild sína að sjóðnum en lagt er til að enginn einn aðili geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni hlutafélags vegna aðildar sinnar að starfsmannasjóðnum.

Loks er í V. kafla fjallað um svonefnd fjárfestingarfélög. Hér er um að ræða hlutafélög sem sérstaklega yrðu mynduð til fjárfestingar í áhættufé atvinnufyrirtækja, skuldabréfum þeirra og annarri hliðstæðri fjármögnun. Það má t.d. nefna fjármögnun með kaupleigusamningum. Kaup einstaklinga á hlutabréfum í þessum fjárfestingarfélögum eru frádráttarbær innan þeirra almennu marka sem um slíkan frádrátt gilda. Eru gerðar strangar kröfur til þessara félaga varðandi ráðstöfun á fjármagni til fjárfestingar í atvinnurekstri. Þannig er þess krafist að 90% heildarfjármagns félaganna sé varið til fjárfestingar í atvinnufyrirtækjum og a.m.k. helmingur þeirra fjármuna fari ávallt í fjárfestingar í áhættufjármagni.

Í ákvæði til bráðabirgða er reyndar gert ráð fyrir vissum aðlögunartíma til að þessum skilyrðum verði fullnægt og sérstök ákvæði eru um fjárfestingu í skuldabréfum samvinnufélaga. Þá eru gerðar þær kröfur að samanlögð fjárfesting fjárfestingarfélags í hlutabréfum, skuldabréfum og annarri fjármögnun eins og sama aðila fari aldrei umfram 10% af heildarfjármagni fjárfestingarfélagsins. Er þetta gert til að dreifa áhættu félagsins. Þá eru gerðar þær kröfur að hlutafé fjárfestingarfélags skuli a.m.k. vera 5 millj. kr. og enginn einn hluthafi geti farið með meira atkvæðamagn í félaginu á hluthafafundi en sem nemur 5%. Engar hömlur má leggja á viðskipti með hlutabréf slíks félags og ársreikningar þess skulu vera öllum aðgengilegir.

Þá er gert ráð fyrir því að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi eftirlit með starfsemi fjárfestingarfélaganna og um það gildi sömu reglur og gilda um eftirlit með bönkum og sparisjóðum, eftir því sem við getur átt. Í frv. er gert ráð fyrir því að það komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1985 og gildi þannig vegna skattlagningar tekna ársins 1984, þannig að fjárfesting í atvinnufyrirtækjum eftir samþykkt þessa frv. á þessu ári yrði frádráttarbær við skattlagningu næsta árs. Hins vegar mun þetta ekki hafa áhrif á skattheimtu nú í sumar.

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að atvinnufyrirtæki á Íslandi hefur löngum skort eigið fé til rekstrarins. Hefur lítið kveðið að því hér á landi að atmenningur legði fé til slíks rekstrar. Má segja að fram að þessu hafi skattalög gert þennan kost lítt fýsilegan. Tilgangur þeirra tveggja frv. um skattamál sem ég hef mælt fyrir er að breyta þessu ástandi og örva eiginfjármyndun og fjárfestingu í atvinnulífinu. Þannig yrði stuðlað að traustu og þróttmiklu atvinnulífi hér á landi sem er eina forsendan undir efnahagslegri velsæld almennings og auknum kaupmætti í framtíðinni.

Að loknum þessum umr., virðulegi forseti, legg ég til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.