30.01.1984
Efri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til þess fyrir mig að lengja þessa umr. Ég vildi þó ekki láta hjá líða að mæla nokkur orð.

Það má segja að aðalatriðið í þessu sé frv. sem mælt var fyrir á miðvikudaginn í liðinni viku og varðar nær eingöngu breytingu á hinum eiginlegu skattalögum. Frv. sem hér er til umr. nú er nánari útfærsla á því með hvaða hætti er heimilt að fara með þann frádrátt sem þegar var búið að mæla fyrir í hinu frv. og hugsanlega verður að lögum ef allt gengur að óskum í fjh.- og viðskn.

En það sem mér finnst að á skorti að hafi komið fram við þessar umr. er einmitt eitt af þeim atriðum sem sú nefnd sem um þetta fjallaði hafði að leiðarljósi, þ.e. með hvaða hætti er hægt að mynda áhugatengsl almennings við atvinnureksturinn í landinu og þá á þeim forsendum og miðað við það erindisbréf sem viðkomandi nefnd lagði til grundvallar í sínu starfi, þ.e. gegnum skattalög.

Í þessu sambandi hljótum við mjög fljótlega að koma að fjármunum og taka tillit til þeirra. Það er mín skoðun að lengi vel og það hafi jafnvel farið vaxandi í okkar þjóðfélagi hafi almenningur fremur haft horn í síðu atvinnurekstrar en hitt. Ég skal ekkert um það segja af hverju það getur verið til komið. Hugsanlega er það vegna atferlis einstakra manna í atvinnurekendastétt. Mönnum verða mislagðar hendur innan þeirrar stéttar eins og annars staðar. Það eru auðvitað til skúrkar í sumum hornum. En ég ætla ekkert að fjalla frekar um það.

Ég held að okkur sé brýn nauðsyn á að efla áhuga atmennings á atvinnurekstri í landinu. Þá er spurningin hvernig við eigum að fara að því. Mér finnst sú leið sem hér er gerð tilraun til að fara alls ekki vitlaus, þ.e. reyna með ýmsu að gefa í skyn örlítinn fjármunalegan ábata í tengslum við að taka þátt með óbeinum hætti í atvinnurekstri, m.a. með hlutabréfakaupum. Sannleikurinn er sá, að flestöll íslensk fyrirtæki og hlutafélög, ekki síst hlutafélög, eru lokuð í dag. Hér eru gefnir möguleikar til ávöxtunar fjár sem sett er í atvinnurekstur. Hér er gert ráð fyrir, og það er raunar skilyrði, að félögin séu opin og með þeim hætti virkt eftirlit almennings á grundvelli fjármunalegrar þátttöku hans í fyrirtækjunum. Ég held að þetta geti ekki leitt af sér neitt annað en gott. Það er mín skoðun a.m.k.

Hér var vikið áðan að því og hugrenningar um það, hvaða fjármunafærslur þessi frumvörp gætu leitt af sér. Það skal viðurkennt að mjög örðugt er að gera sér grein fyrir því í þessu sambandi hvaða tekjubreytingar verða hugsanlega, mjög erfitt að ráða í hve ríkum mæli frádráttarheimildir verða notaðar. Auðvitað gætu menn reynt að setja upp eitthvert módel, ef ég má svo að orði komast, í því sambandi, en ég er ekki viss um að neitt vitrænt hefðist út úr því þótt ekki sakaði að reyna. Ég geri ráð fyrir að í fjh.- og viðskn. leiti menn eftir því og reyni með einhverjum hætti að gera sér grein fyrir því hvaða tekjubreytingar verða þarna hugsanlega á.

Þau orð féllu hér að með flutningi þessara frumvarpa, ef að lögum verða, sé verið að stuðla að enn frekari efnaskiptingu í þessu landi. Ég held að svo sé ekki. A.m.k. var það tilgangur með störfum nefndarinnar, og ég veit ekki annað en að þar hafi allir verið á einu máli um það, að hér væri verið að gera tilraun til að beina fjármagni frá eyðslu, og ég ætla ekkert að fara að skilgreina það nánar, í arðbær fyrirbæri, í atvinnurekstur. En um leið er það auðvitað lagt í vald einstakra manna, sem vonandi hafa með höndum eitthvert fé, hafa fé aflögu til að leggja fram með þessum hætti, í hvers konar rekstur féð yrði lagt. Ég skal játa að gaman væri að geta haft í slíku frv. einhvers staðar neðanmáls klausu á þessa leið: enda verði fjármagnið lagt í þjóðnýta framleiðsluiðju, eitthvað slíkt, sem yki þjóðarverðmæti. (KSG: Hver á að ákveða það?) Nei, það er ekki hægt. Það er útilokað að hafa slíka klausu eða gefa slíkt til kynna. Menn verða að velja og hafna í þessu tilliti. — Ef ég hef skilið hv. 8. þm. Reykv. rétt fannst mér ég heyra á milli línanna eitthvað á þá leið að sú ósk blundaði í hans brjósti að menn legðu fyrst og fremst fjármagn í þá iðju sem skilaði þjóðarbúinu arði, en miklu síður í ýmiss konar þjónustu.

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að ég ætlaði ekki að fara að lengja þessa umr. og ekki væri ástæða til þess. Málið er í umfjöllun hjá fjh.- og viðskn.

Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið þess efnis hversu bagalegt það er að um skattamál er oftast verið að fjalla hér í þinginu á síðustu stundu. Þetta er afskaplega bagalegt. Skattamál eru nokkuð flókin meðferðar. Þau þurfa í sannleika sagt mjög rækilegrar umfjöllunar við og ekki síst þar þurfa menn, eftir því sem föng eru á, að vanda til verka. Ég vil því taka undir að mjög bagalegt er, og eins og ég þóttist hafa vikið að áður er það ekki í eina skiptið nú, þegar þau eru nokkuð seint á ferðinni. Það er miður.

En ég ætla að vona að fjh.- og viðskn. — og veit það raunar-muni leggja töluverða vinnu í þessi mál, enda er það óhjákvæmilegt. Ég ætla satt að segja að vona að henni takist að afgreiða þessi mál og sjái menn einhverjar glufur eða smugur, eins og einn ágætur hv. alþm. komst að orði hér á dögunum, ætla ég að vona áð það takist að loka þeim glufum og smugum. Það er a.m.k. mín ósk að það takist, séu slíkir varnaglar ekki nú þegar fyrir í þessum frumvörpum.