30.01.1984
Efri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég vildi endilega reyna að lengja þessa umr., vegna þess að ég tel nauðsynlegt að við ræðum þessa hluti þó að kannske vantaði vissar upplýsingar sem við gjarnan vildum sjá.

Ég gleymdi víst að taka það fram áðan að mín afstaða til þessara tveggja frumvarpa, sem ég er að ræða samhangandi þó að annað sé farið frá deildinni til nefndar í augnablikinu, er alls ekki að fullu mótuð. Ég er að reyna að ræða þetta út frá þeim málsatriðum sem fyrir liggja og nánast að fiska eftir þeim hugmyndum sem gætu gert betur mögulegt að taka endanlega afstöðu til þessa máls.

Það er náttúrlega augljós staðreynd að eins og kom fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. um afstöðu fulltrúa launþegahreyfingarinnar sem fram kom í morgun —það var reyndar afstaða einstaklinga en ekki formleg afstaða hreyfingarinnar sem slíkrar — litu þeir á þetta mál beint út frá hagsmunum sinna umbjóðenda og töldu þarna að verið væri að bæta möguleika aðila sem þeir töldu standa fyrir utan þann hóp. Þess vegna sáu þeir ekkert sérstaklega jákvætt eða gott við þetta frv. Að öðru óreyndu mundi ég samt sem áður vilja reyna að nálgast þetta mál með þeim hætti að gera enn þá ráð fyrir að þarna séu heilbrigð markmið á ferðinni.

Hæstv. fjmrh. tók undir þá túlkun sem ég reyndi að leggja í þetta frv., að þarna væri verið að reyna að hvetja fólk til að ávaxta sparifé sitt eða umframfjármuni í atvinnuvegum. Hann vildi nú reyndar meina það að atvinnurekandinn þyrfti ekkert að hagnast á því. Hæstv. fjmrh. gerði sig reyndar tvisvar í máli sínu sekan um það sem hann taldi öðrum mönnum til ávirðingar. Hann er dálítið feiminn við að ætla mönnum að hagnast á einhverju. Það er eins og menn hafi enn þá einhverja meðfædda fælni við slíku. Hann valdi það óheppilega dæmi um blómlegt almenningshlutafélag sem kallast Eimskip. Ég veit að þar talar hann kannske að ýmsu leyti þvert um hug sér þó að ég vilji ekki fara að gera honum upp neinar skoðanir. Eimskipafélag Íslands er að vísu almenningshlutafélag. Aftur á móti vitum við að þar eiga ýmsir aðilar mjög stóra hluti og hafa kannske töglin og hagldirnar í því fyrir þær sakir, þó að sumir eigenda séu náttúrlega þjóðþrifafyrirtæki, eins og Háskólinn. Aftur á móti hefur Eimskipafélag Íslands, vegna þeirrar undarlegu aðstöðu að vera óskabarn þjóðarinnar, öðlast mjög einkennilega aðstöðu í íslensku atvinnulífi. Þessi aðstaða, sem hefur verið á sumum sviðum einokunaraðstaða, hefur oft og tíðum gert keppinautum þess mjög erfitt fyrir og ekki bara keppinautum þess. Við vitum að þessi einokunaraðstaða hjá Eimskip hefur haft mjög óheillavænlegar afleiðingar á kjör manna í þessu landi. Eimskip hefur t.d. setið eitt að flutningum á ýmsum nauðsynjavörum og þar af leiðandi verið mjög ráðandi um verðmyndun viðkomandi varnings.

Hér er verið að tala um áhættufé, möguleika manna til að leggja fé sitt í fyrirtæki og taka áhættu. Það gerir enginn maður upp á grín að taka áhættu með sína peninga, þannig að eftir stendur það sem ég minntist aðeins á í máli mínu áðan — ég hef kannske ekki orðað það nógu greinilega-að menn hljóti að hafa einhverjar væntingar um hvert þetta fé rennur. Spyrji menn sig þeirrar spurningar: Hvar vildi ég leggja mitt áhættufé í dag? Ég geri mér þá grein fyrir að það getur alltaf eitthvað komið upp á þannig að ég get tapað mínu fé. Ég reyni þó að ávaxta það þar sem það er tryggast, ef það er ekki í banka. Og horfi menn þá til vinnumarkaðarins, til atvinnuvega í þessu landi, og spyrji sig: Hvar er líklegast að ávöxtun þessara fjármuna sé mest? Ef maður undanþiggur verslunina sem slíka, því að þar mundi freistingin e.t.v. vera hvað mest að ávaxta féð, þá er spurningin: Hvar er það næstum því gulltryggt að ég tapa ekki fé mínu algerlega? Ég nefndi áðan ákveðinn atvinnuveg þar sem slík trygging er í raun og veru fyrir hendi. Það sem ég átti við áðan er að við höfum atvinnuvegi hérna sem margyfirlýst er að þurfi að efla, eins og t.d. iðnað, nýiðnað og ýmsar nýjar atvinnugreinar. Ég held að það hlyti að verða að koma fram samhliða svona áformum einhvers konar afstaða í yfirlýsingum eða hreint og beint í málflutningi af hálfu ríkisstj. þar sem fram kæmi að hún vildi beina þessu nýja fjármagni, sem hún væntir að losa, í það sem kemur þjóðinni best, eins og hv. 5. þm. Vesturl. lét sig dreyma um með mér. Í samræmi við að hingað til höfum við gagnrýnt fjárfestingarstefnu í þessu landi í mjög langan tíma hljótum við að verða að gera fólki ljósa grein fyrir því hvernig rétt fjárfestingarstefna lítur út. Og þar sem þetta kemur nú allt saman að ofan frá ríkisvaldi hlýtur þetta tvennt að verða á einhvern hátt samstiga, þ.e. annars vegar væntingar ríkisstj. í peningamálunum sem slíkum og hins vegar væntingar hennar um hver árangurinn á að verða af þeim áformum. Árangurinn af þessu verður harla lítill ef fólk ávaxtar sparifé sitt bara í verslun. Árangurinn verður líka harla lítill ef fólk ávaxtar sparifé sitt í sjávarútvegi, þar sem skuldastaðan er enn þá það slæm að ekki er þess að vænta að það skili miklu í þjóðarbúið.

Ég var ekki að reyna á neinn hátt að gera þetta frv. tortryggilegt. Ég lýsti því strax í inngangi mínum að tortryggnin er á vissan hátt fyrir hendi og alls ekki hægt að horfa fram hjá henni. Það kemur að því að fólk fer að spyrja sig, sem ekki á kost á þessum kjörum: Hvenær kemur röðin að mér? Hvenær fæ ég svipaða afgreiðslu af hálfu þessarar ríkisstj. og það fólk sem hér um ræðir?

Það var talað um möguleika á módeli. Við höfum ákveðna möguleika á að gera okkur grein fyrir því hvaða fjármuni geti þarna verið um að ræða. Við höfum skattframtöl. Við vitum að þau eru nánast eins og sjóslys vegna þess að þau hafa orðið með árunum sífellt tortryggilegri plögg. Samt sem áður er hægt þó með nokkurri vissu að gera sér grein fyrir heimilistekjum. Það er t.d. til fyrirtæki hér í bæ sem heitir Lánastofnun ísi. námsmanna, sem hefur reynt að gera sér grein fyrir framfærslukostnaði einstaklinga og setja þar fram alveg ákveðnar tölur. Það kann að ríkja ákveðinn vafi á réttmæti þess útreiknings, en þar er t.d. áætlað að sex manna fjölskylda þurfi um 40 þús. kr. á mánuði til þess að komast af nokkuð sómasamlega. Þá má náttúrlega spá í hve margar sex manna fjölskyldur á landinu hafa tekjur umfram 40 þús. og ættu þá samkvæmt þessu að eiga möguleika á að nýta sér þennan skattafrádrátt. Þetta má leika eftir við mismunandi fjölskyldustærðir og þannig reyna á einhvern hátt að gera sér einhverja mynd af því hvað þarna er hugsanlega á ferðinni í krónum og aurum.

Hv. 5. þm. Vesturl. áttaði sig einhverra hluta vegna ekki á því í ræðustól hvernig sú undarlega afstaða sem hæstv. fjmrh. gerði sig líka sekan um til atvinnurekstrar og atvinnurekenda væri til komin. En ástæðan er sú, að viðskiptahættir á Íslandi hafa þangað til á þessari öld nánast verið með þeim hætti að Íslendingar litu þá aðila hornauga sem að þeim málum komu, einfaldlega vegna þess að þeir tengdust erlendum yfirráðum og ósjálfstæði þessa lands. Það hefur tekið fólk langan tíma, og er kannske ekki fullunnið enn, að átta sig á því að innlendir atvinnurekendur vinni raunverulega að hagsmunum þessa lands, en ekki eingöngu sínum eigin.

Ég ætla ekki að gera þessi orð mín miklu fleiri. Ég á, a.m.k. með vissum hætti, sæti í þeirri nefnd sem fjallar um þetta og vona þá að við getum kannske á einhvern hátt reynt örlítið að átta okkur betur á því hvað þarna er á ferðinni í fjárupphæðum. Það er ekki eingöngu um að ræða að upplýsa okkur, heldur náttúrlega alla aðra. Þetta frv. hefur enn meira gildi ef hægt er að gera fólki grein fyrir því hverra möguleika það má vænta af ráðstöfun fjárins með þessum hætti.