30.01.1984
Neðri deild: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Þegar sú ógeðuga aðferð er viðhöfð að veiða lunda í holu hans með krók, þá skal það ævinlega ske að hann ýtir kofunni fram fyrir sig og hún kemur á undan út. Ég hafði spurnir af því að hv. 3. þm. Reykv. ætlaði að beina fsp. til hæstv. forsrh. en ég vissi ekki að hann mundi ýta kofunni á undan sér. En það kom reyndar í ljós að svo var.

Áður en ég vík sérstaklega að ýmsum atriðum í máli hv. 4. landsk. þm., sem talaði eins og hann væri staddur hinum megin á sjöstjörnunni í öllu málinu, þá ætla ég að rifja hér upp atriði sem snerta aðild okkar að Alþjóðavinnumálastofnuninni, sem menn virðast gera lítið með í málflutningi sínum, þótt það séu að vísu lög. En Ísland gerðist aðili að þessari atþjóðasamþykkt um félagafrelsi og verndun þess 1950. Og það breytir engu um þó það hafi verið brotið, þessi aðild og þessi lög, með nótu skiptum 1966 hjá þáv. ríkisstj. Í þessari samþykkt segir svo, með leyfi virðulegs forseta, í 2. gr.:

„Verkamenn og vinnuveitendur skulu án undantekninga hafa rétt til þess að stofna og ganga í félög að eigin geðþótta án undangengins leyfis og séu þeir aðeins háðir reglum hlutaðeigandi félags um inngöngu í það.“ Og síðar í 5. gr.: „Félög verkamanna og vinnuveitenda skulu eiga rétt á að stofna og ganga í félagasambönd og hverju slíku fétagi eða sambandi skal heimilt að ganga í alþjóðasamtök verkamanna og vinnuveitenda.“

Þessi ákvæði eru ákaflega skýr og fyrir því stenst það ekki skv. lögum og reglum okkar, sem við skyldum halda í heiðri, að banna t. a. m. ÍSAL að gerast félagi í vinnuveitendasamtökum á Íslandi.

Á sínum tíma setti Alþfl. þetta skilyrði fyrir samþykkt sinni um samningana við Alusuisse. Og á þetta var fallist þótt það bryti í bága við lög. Það var ekki að vilja Sjálfstfl. þá og hefur aldrei verið. En samkomulag varð að nást. Þetta var gert með samþykkt í miðstjórn eða í flokksráði Alþfl. 23. mars 1966. Þetta eru auðvitað gersamlega úrelt viðhorf. Allt sem var lesið upp og vitnað í hjá Eysteini Jónssyni, ég tala nú ekki um Einari Olgeirssyni og Hannibal Valdimarssyni, er úrelt og einskis nýtt. Það eru gerbreytt viðhorf nema hjá einstaka kanarífugl sem enn kvakar í þessa veru. (Gripið fram í: Og Jóhanni Hafstein líka, var það ekki?) Við skulum ekki vitna gálauslega í látna menn. Það liggur alveg ljóst fyrir um hans afstöðu til þessa máls. Það sem hann las upp og vitnað var til var samið vegna samkomulags við Alþfl. á sínum tíma og var Alþfl. meiningar sem fallist var á af þáv. samstarfsflokki hans.

Það er líka löngu liðin saga, það veit hv. 7. þm. Reykv., að það sé í þágu verkalýðssamtakanna í landinu að kljúfa vinnuveitendasamtökin upp. Það er allt annað sem verkalýðssamtökin óska eftir. Þau óska eftir að fá að mæta þeim í heild sinni. Ég minnist þess þegar ég var í fyrirsvari fyrir verkalýðssamtök, sem ég var í 15 ár, hv. 3. þm. Reykv. hefur aðeins verið færilús á því skinni, að þá var það það versta sem upp á kom, eftir að hafa setið slímusetu kannske 40 daga og 40 nætur, að þurfa að elta uppi einstök fyrirtæki, sem ekki voru aðilar að heildarsamtökunum, þar sem menn voru gjarnan að nudda um einhver sérákvæði sér til handa eftir á.

Þótt þeir láti svo, þeir sem eru í fyrirsvari fyrir Alþýðusamband Íslands, að þeir séu andstæðir þeim vinnubrögðum að ÍSAL njóti og lúti íslensku forræði, þá er þeim ekki eins leitt og þeir láta. Ég hlýt að snúa máli mínu til hv. 7. þm. Reykv. sem hefur lagt starfsævi sína við starfsævi verkamanna á Ístandi alla sína tíð. Ætlar hann að fylkja liði og beita afli verkalýðssamtakanna til þess að knýja fram stórbætt kjör manna, sem hafa að meðaltali 32–34 þús. kr. á mánuði, meðan við sjáum ekki fram úr því hvernig við getum lofað fólki, sem er með 10 961 kr. á mánuði að fleyta fram lífinu? Ég þyrfti að fá svar miðstjórnarmanna Alþýðusambandsins við þessu. Og gjarnan hefði 3. þm. Vestf. mátt vera hér viðstaddur, einn úr miðstjórninni sem samþykkti mótmæli. Það er auðvitað hægt að hengja sig í yfirlýsingar eins og að menn boði frjálsa samninga. Og auðvitað hafa menn það fyrir framan sig að samningar eigi að vera frjálsir. En að á vinnumarkaðinum séu þau lögmál að vinnuveitendur í frjálsum samningum hafi aðeins hluta forræðisins en ríkið að einhverju leyti með fyrirtæki sín utan við, það er úrelt og á ekki að eiga sér stað. Fyrir því er ég eindregið þessarar skoðunar, að öll ríkisfyrirtæki eigi að eiga aðild að allsherjarsamtökunum. Það er öllum aðilum fyrir bestu.

Hvað er það sem hv. 3. þm. Reykv. er í raun og veru að beita sér fyrir hérna þegar hann berst um á hæl og hnakka gegn því að ÍSAL í eigu auðhringsins Alusuisse lúti ekki íslensku forræði, heldur svissnesku, á íslenskum vinnumarkaði? Hvað er það sem verið er að biðja um með ýkjum og ofstæki, eins og því að þetta muni leggja undir sig samtök okkar og kaupa upp landið og að við stundum, eins og þeir hafa áður klifað á, landsölur? Auðvitað tekur þessi málflutningur engu tali. Hann gæti kannske upplýst hv. 4. landsk. þm. um það, hv. 3. þm. Reykv. hvað þessi fyrirsögn þýðir sem hann sjálfur, Svavar Gestsson, bjó til. Og hv. þm. Guðmundur Einarsson þarf ekki að láta eins og hann lætur hér uppi, að hann skilji ekki fyrr en skellur í tönnum.

Hvaða ís á að brjóta hérna, hvaða ís skyldi eiga að brjóta, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, með 40% kaupkröfu hjá fólki sem nýtur þeirra kjara að hafa 30–40 þús. kr. laun á mánuði? Og hvaða áhrif halda menn að það mundi hafa á íslenskt efnahagslíf ef þessir ísar væru brotnir? Þarf að tala í einhverjum muddum um þetta? Og ætlast einhver til þess af mér að ég haldi áfram að koma til dyranna eins og gert var hér og oftast hefur verið gert, ekki eins og ég er klæddur, að ég segi ekki frá skoðunum mínum í þessu efni, að ég segi ekki að ég muni beita mér gegn því af fullkominni hörku að slík ósvinna nái fram, sem mundi hafa þá fyrirmynd í för með sér að riðla öllu okkar efnahagskerfi? Hverjum dettur það í hug að ég muni segja eins og hér tíðkast og hefur reyndar alltaf tíðkast: Þetta verður auðvitað rætt í ríkisstj., við munum athuga þetta síðar. Aldrei komið til dyranna eins og menn voru klæddir. Til þess hef ég ekki skapsmuni og þeir eiga heimtingu á því, starfsmenn í ÍSAL, að vita mína afstöðu í þessu. Hún er þessi: að ég muni beita mér gegn því með öllum ráðum að þeir brjótist þannig í gegn, sem auðvitað yrði fyrirmynd fyrir alla aðra, ef þessir hálaunamenn næðu einhverju sem um munar nú.

Getum við ekki talað af hreinskilni um þetta? Hver var að tala um hræsni? (Gripið fram í: Þú gleymir vinnutímanum.) Hver var að tala um hræsni? Hvað veit hv. þm. um vinnutímann suður í ÍSAL? (Gripið fram í: Töluvert.) Jæja, á ég að æfa hann, hv. þm., æfa hann í því. Hann er styttri en tíðkast í nokkru öðru landi sem við þekkjum til. Þannig eru vinnustundir á ári samningsbundnar við ÍSAL 1632. Þær eru í Japan 2101, þær eru í Sviss 1904, þær eru á öðrum stöðum á Íslandi ekki 1632, heldur 1676. Þeir hafa í flestum atriðum betri kjör en hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni hefur tekist að ná fyrir sitt fátæka fólk. Og svo gera þeir Alþýðusambandsforkólfarnir þetta að þungamiðju baráttu sinnar að beita vagni sínum fyrir þessa hálaunamenn. Til lukku. En ég spyr: Ætlar hv. 7. þm. Reykv. að fylkja með í þessu liði? Það lék mér forvitni á að vita. Ég get svarað mér sjálfur. Auðvitað dettur honum það ekki í hug. Auðvitað dettur honum það ekki í lifandi hug. Hann horfir bara á þessa ósvinnu og getur auðvitað ekkert í þessu gert.

Nei, það er þá komið að því að fyrirsvarsmönnum Alþb. er hið mesta í mun að forræði fyrir svo gífurlega stórum vinnustað eins og suður í Straumsvík sé í höndum auðhringsins Alusuisse. Þannig er þetta dæmi. Og það er þýðingarlaust að bera á borð fyrir heilvita fólk að með því að þeir eignuðust aðild að samtökum íslenskra vinnuveitenda mundu þeir leggja þau undir sig. Það kemur ekki til nokkurra mála að horft verði aðgerðarlaust á það að auðhringur í Sviss fái að hafa einhver úrslitaáhrif á íslenskum vinnumarkaði. Fyrir þau sker er verið að reyna að sigla með því að þeir leiki ekki lausum hala hér.

Þeim verður ekki fyrirskipað að ganga í samtök vinnuveitenda á Íslandi. Það var um það samið í upphafi að þeir gerðu það ekki. Þess vegna verður sú krafa ekki sett fram. Þeir eru sjálfráðir að því. En bæði með vísun til þeirra laga og þeirrar stofnunar, Alþjóðavinnumálastofnunar, sem við erum aðilar að og af þeim ástæðum sem ég hef nefnt, þá eru þær hindranir, þau skilyrði numin brott á ríkisstjórnarfundi 26. þ. m. sem hindra að þeir geti gerst fullkomnir aðilar að vinnuveitendasamtökum.

Því ætla ég hér og nú að lýsa yfir, að eigi ég eftir að vera þar nær sem erlendur auðhringur semur við okkur um rekstur fyrirtækis síns á Íslandi, þá mun ég setja það að algeru skilyrði að þeir undirgangist allar skyldur í samtökum vinnuveitenda á Íslandi. Ég mun ekki semja um rekstur erlends fyrirtækis á íslenskri grund nema frá því verði gengið tryggilega að þeir eigi aðild að samtökum vinnuveitenda og þess gætt að forræði sé í íslenskum höndum og á íslenskum vinnumarkaði. Þannig snýr þetta dæmi við mér, umbúðalaust talað. Og það verður, þegar til lengdar lætur, íslenskum verkalýðssamtökum einnig til góðs.

Hvað með erlenda verkamenn á Íslandi? Þykir ekki sjálfsagt að þeir gangist undir skyldur okkar sem skv. vinnulöggjöf eru lagðar á herðar launþega og hafi þau réttindi? Að sjálfsögðu er þetta svona. Allt þetta er pólitískt þvarg og bull manna, sem vilja gildra til þess að koma knéskoti á núv. ríkisstj. og eyðileggja þann stórkostlega árangur sem við höfum þegar náð, og varðar í því sambandi ekkert um fólkið hennar Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur eða Bjarna í Iðju. Þeir voru ekki að biðja um orðið utan dagskrár þegar verið var að upplýsa um kröfur þeirra, þegar þau mættu hér og lýstu yfir á opinberum vettvangi að þau teldu að ætti að einbeita sér að því að bæta hag þessa fátæka fólks. Það var ekki beðið um orðið utan dagskrár þá. En þegar verið var að trufla ÍSAL og Alusuisse í þeim möguleika, sem þeir kynnu kannske að bregða á, að sprengja hér upp íslenskan vinnumarkað, þá verða þeir snarvitlausir og koma hér upp og lesa gamla sálma löngu, löngu úrelta, sem enginn er farinn að hlusta á, ekkert nema falskir gamlir tónar, sungnir enn þá af mönnum sem kunna ekki rétt lag.

Já, hv. 4. landsk. þm. vildi væna mig um það að ég væri að skjóta skildi yfir ÍSAL, fyrir Alusuisse svo að þeir þyrftu ekki að borga eins hátt kaup. Ef þeir Alusuisse-menn hafa efni á að borga hærra kaup, þá þurfa þeir fyrst að borga mér hærra verð fyrir orkuna. Ég þarf að nota þá peninga til að létta sköttum af fólkinu í Iðju og hjá henni Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur og til að bæta þeirra kjör áður en borguð verða hærri laun til starfsmanna sem eru með 30–40 þús. kr. laun á mánuði. Hvar eru umræður utan dagskrár vegna þessa fólks sem á ekki málungi matar? Nei, það er ástæða til þess að standa hér upp á málþingi á hinu háa Alþingi með hrópyrði, skútyrði og köpuryrði landráðabrigsls þegar hálaunamennirnir í ÍSAL eru í kjarabaráttunni. Og það er auðvitað ekki vegna þess að þeim sé umhugað um þetta fólk, þessum hv. þm. Aðferðin er bara þessi að spana þetta upp ef þeir skyldu nú geta sprengt upp vinnumarkaðinn íslenska. Þetta sjá og vita allir.

Ef slíkt tilræði við íslenskt efnahagslíf næði fram að ganga, þá er það mín skoðun að núv. hæstv. ríkisstj. þurfi þegar í stað að segja af sér. Þá hefur henni mistekist ætlunarverk sitt. Þess vegna hlaut ég að tala opnum munni og segja hreinskilnislega frá því hver mín skoðun var á því til hvaða ráða yrði gripið og hvaða ráða yrði neytt. Og ég skammast mín ekki fyrir það. Ég endurtek öll þau ummæli mín og legg margfalda áherslu á þau. Menn mega svo halda því fram að það hafi orðið til þess að spilla samningum. Ef þeir samningar hefðu orðið til þess að sprengja vinnumarkaðinn upp, þá hafa ummæli mín þegar náð tilgangi sínum. Ef þeir ÍSALmenn þola ekki að heyra það sem ég meina, skoðanir mínar, án þess að það sérstaklega styrki þá í baráttunni fyrir sanngjörnum kjörum, eins og þeir kalla sjálfir, þá verður svo að vera.

Nei, svarið við áskorun hv. 3. þm. Reykv. um það að ÍSAL gerðist ekki aðili að íslenskum samtökum vinnuveitenda er svona, að ég mun a.m.k. aldrei semja um stöðu erlends fyrirtækis á íslenskri grund nema það undirgangist allar skyldur sem við leggjum á herðar vinnuveitenda í þessu landi. Ekkert forræði kemur þar til greina af hálfu erlendra aðila. Ég hef að vísu hér í höndum margháttaðar upplýsingar, sem fróðlegt væri fyrir menn að kynna sér, um launakjör þar syðra, en ég læt hér staðar numið að sinni. (SvG: Hvað hefur forstjórinn?) Vafalaust er honum engin launung á því sjálfum, en ég sé ekki ástæðu til, nema það sé skatturinn sem spyr, að upplýsa neitt um það.

Það liggur ljóst fyrir að meðaltalslaun liggja töluvert yfir 30 þús. kr. í peningum fyrir utan margháttuð önnur kjör á þessum stað. (SvG: Viltu ekki afhenda þessar upplýsingar?) (GHelg: Er ráðh. ekki kunnugt um að það er vaktavinna í Straumsvík?) Mér er fullkunnugt um að það er vaktavinna og það er unnið 24 stundir í sólarhring og það eru þrískiptar vaktir oftast o.s.frv. o.s.frv. Þetta þekkjum við vel, að um er að ræða vaktaskipti og það er vaktaálag. Og eins og ég segi, það er sjálfsagt réttlátt að þeir séu verulega hærri en aðrir í launum. En lægsti taxti Dagsbrúnar, ef ég man rétt, er 10 961 kr. (Gripið fram í.) Ég fékk þær upplýsingar að þetta væri lægsti taxti Iðju, Dagsbrúnar og Sóknar, 10 691 kr. Það leiðréttist þá ef það er rangt. En meðaltalslaun þar syðra eru yfir 32 þús. kr. Það er sama hvernig menn velta þessu máli fyrir sér andspænis fyrirsögninni sem hv. 3. þm. Reykv. bjó til. (SvG: Hvaðan er þessi fyrirsögn?) Frá hv. 3. þm. Reykv. þegar hann var að brjóta ísinn. (Gripið fram í.) Ég þarf ekkert að lesa fyrir hv. þm. í þessum fræðum. En ég verð að segja að mér blöskrar málflutningur á borð við þetta. Þegar fólkið sem á erfiðast er vissulega þannig statt að það verður að koma til móts við það, og þegar menn eru að leita leiða til þess með öllum ráðum, þá er átakspunkturinn í öllum málunum færður suður í Straumsvík af hálfu forustu Alþb. Ég vildi óska þeim til sérstakrar lukku með það. Það er með ólíkindum að hlýða á slíkan málflutning og að þess sé krafist að forræði fyrir slíku stórfyrirtæki og áhrif svissnesks auðhrings verði óbifanleg hér á íslenskum vinnumarkaði. Þetta snýr auðvitað allt öfugt vegna þess að mennirnir vita ekki hvernig þeir eiga að snúast í málunum til þess að reyna að klekkja á ríkisstj.

Það er auðvitað mjög margt sem fram kom í ræðum hv. þm., sem ástæða væri til að drepa á. En að tala þannig við fullorðið fólk eins og þeir gerðu, að hér væri iðnrh. að halda hlífiskildi yfir ÍSÁL, að þeir fengju ekki að borga verkamönnum eins og þeim kannske dytti í hug, láta sem þeir viti ekki hvernig staðan er í okkar þjóðfélagi, láta sem þeir hafi ekki hugmynd um að slíkt og þvílíkt, ef það gengi fram, mundi kollvarpa þeim árangri í efnahagsmálum sem við höfum þegar náð, yfir það ná engin orð.

Við erum ekki komnir að landi í þessum málum. Við eigum eftir mörg og erfið verkefni til úrlausnar. Við höfum ekki leyst hið geigvænlega sjávarútvegsdæmi enn þá. En að við í miðjum klíðum létum slíkt viðgangast, það kom ekki til mála. Og af því að það kom ekki til mála, þá hlaut Sverrir Hermannsson að segja frá þessari skoðun sinni hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Þetta sjá auðvitað allir menn. Og það er óþolandi hræsni sem menn beita hér fyrir sig þegar þeir tala um þessi mál í stöðugum muddum. Það er með ólíkindum að menn haldi áfram að láta sér til hugar koma að það blasi ekki við hverjum manni hvað þarna er á ferðinni.