25.10.1983
Sameinað þing: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

4. mál, framkvæmd byggðastefnu

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka frsm., hv. þm. Stefáni Benediktssyni, 8. þm. Reykv., fyrir yfirgripsmikla og fróðlega framsöguræðu, sem var mjög athyglisverð.

Eins og þingheimi er vafalaust kunnugt fara saman, a.m.k. í öllum megingreinum, þau atriði sem eru í þessari till. til þál. og þau atriði sem Alþfl. hefur lagt áherslu á í málflutningi sínum og tillögugerð á undanförnum árum. Á 104. löggjafarþingi fluttu þm. Alþfl. í Nd. frv. til l. um mörkun byggðastefnu og gerð byggðaþróunaráætlunar, sem þáverandi þm. flokksins, Sighvatur Björgvinsson, mælti fyrir í deild. Það eru í veigamiklum greinum sömu hugmyndir, kannske allar, og gert er ráð fyrir í till. þessari til þál., nefnilega að byggða- og áætlanadeild verði sjálfstæð stofnun og að hún heyri undir félmrn. og starfssvið þeirrar deildar verði afmarkað við gerð byggðaáætlana og að Alþingi taki ákvarðanir um einstakar byggðaáætlanir.

Nýtt í þessari till. til þál. er að tengja þetta skipulagsstarfi á vegum Skipulags ríkisins og sveifarfélaga með löggjöf. Það má vel vera að það komi til álita, en það var ekki í því frv. til l. sem við Alþfl.-menn fluttum.

Ég held að öllum þm. sé ljóst, eins og kom skýrt fram í máli hv. þm. Stefáns Benediktssonar, að byggðastefna sé nauðsynleg. En það verður að gæta að því að hún þjóni þeim markmiðum sem við eiga á hverjum tíma. Ég held að það gildi um byggðastefnu á Íslandi og það tæki sem menn hafa sett upp til þess að stjórna henni eins og ýmislegt annað hjá okkur, að það sem var gott í upphafi hefur orðið slæmt. Það þjónar ekki með eðlilegum hætti þeim markmiðum sem við verðum að setja okkur í byggðastefnunni og reyndar í stjórn efnahagsmála.

Okkur í Alþfl. hefur virst alveg augljóst að Framkvæmdastofnunin, sem er nú heildarhattur yfir Byggðastofnun og því um líkt, hafi úrkynjast mjög í uppvexti sínum og sé nú orðin kóróna sköpunarverksins í fyrirgreiðslupólitík á Íslandi, og sannleikurinn sé sá, að það náist ekki raunverulegur árangur í skynsamlegri fjármálastjórn öðruvísi en það kerfi verði skorið upp. Við höfum sagt að Framkvæmdastofnun eigi að leggja niður. Ég held að menn verði að gæta að því, að hér er ekki einungis um að ræða að líta á þennan þátt einangrað, heldur er hér í raun og veru um efnahagsaðgerð að ræða. Þetta er orðinn svo ríkur þáttur í fjármálastjórninni hjá okkur, þarna fara svo miklir fjármunir um, að það er í sjálfu sér efnahagsaðgerð að stokka upp á þessu sviði, leggja Framkvæmdastofnunina niður í núverandi mynd og setja sér ný vinnubrögð um framkvæmd byggðastefnu.

Eins og kemur fram í þessum orðum mínum, herra forseti, tek ég undir þau markmið sem sett eru í þeirri till. til þál. sem hér er rædd. Við Alþfl.-menn ætlum okkur að endurflytja það frv. til l. um mörkun byggðastefnu og gerð byggðaþróunaráætlunar sem við höfum hér áður flutt. Þá gefst enn frekara tækifæri til að fjalla um þessi mál, þannig að ég ætla að geyma mér frekari umr. á þessu stigi. Við höfðum þá skoðun, að með því að setja þetta fram lið fyrir lið í frv. til l. gæfist kostur á því að fara í gegnum það lið fyrir lið hvernig við höfum hugsað okkur framkvæmdina á þessum þætti. Ég vænti þess, að þegar það frv. kemur hér til umr. geti orðið frjósamar umr. um framkvæmdina sjálfa til viðbótar þeim umr. sem ég geri ráð fyrir að muni fara fram um þau markmið sem birtast ekki bara í okkar frv. til l., eins og það var á sínum tíma og verður í þeirri gerð sem það verður lagt fram, heldur þau markmið sem sett eru fram í þeirri till. til þál. sem hér er til umr. og ég tek undir.