30.01.1984
Neðri deild: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

Umræður utan dagskrár

Þorsteinn Pálsson:

Frú forseti. Þessar umr. hafa um margt verið athyglisverðar. Því er haldið hér fram af hv. 4. landsk. þm. að það fari ekki saman að viðurkenna frjálsa kjarasamninga og að ríkisstj. áskilji sér rétt til að skjóta mátum sínum til þjóðarinnar sjálfrar. Þetta eru furðulegar fullyrðingar og einstakt að þessu skuli haldið fram á hinu háa Alþingi.

Að vísu er það svo, að hagsmunasamtökin í þjóðfélaginu hafa mikil völd og mikil áhrif og menn hafa oft þurft að beygja sig fyrir þeim áhrifum. En ég held að það væri illa komið fyrir stjórnarfari í þessu landi ef ríkisstj. ætti að þola það að mega ekki undir neinum kringumstæðum lýsa því yfir að hún væri reiðubúin að leggja mál sitt undir dóm þjóðarinnar ef í það stefndi að hagsmunasamtök, sem ekki hafa til þess vald að móta hina almennu efnahagsstefnu, ætluðu að brjóta stefnu ríkisstj. á bak aftur. Þvert á móti held ég að það sé mikilvægast fyrir lýðræðið í landinu að ríkisstj. hafi ótvíræða stöðu og ótvíræðar heimildir til að marka og fylgja fram ákveðinni efnahagsstefnu og hafa rétt til að leggja sín mál undir dóm þjóðarinnar. Og það eru engin hagsmunasamtök svo mikilvæg í þjóðfétaginu að þessi grundvallarréttindi í lýðræðisstjórnskiputagi eigi að þoka.

Guðmundur J. Guðmundsson, hv. 7. þm. Reykv., flutti hér athyglisverða ræðu um margt. Einkanlega var þó athyglisvert að hann benti með mjög skýrum hætti á stjórnlipurð Ólafs Thors. Auðvitað getur það skipt máli að tekið sé á atriðum sem þessum með lipurð og festu. Það dæmi sem hann nefndi er auðvitað einstakt, þegar um er að ræða birgðir í frystigeymslum, þar sem atmennt hefur ríkt það viðhorf í samskiptum aðila á vinnumarkaði að þrátt fyrir harðar kjaradeilur þá yrði ekkert það gert sem stefndi því í hættu að slíkar birgðir eyðilegðust og þjóðin hlyti af mikinn skaða. Um þetta hefur verið mjög almennt þegjandi samkomulag milli aðila á vinnumarkaði. Þegar í það efni var komið að stefndi í tvísýnu var ekki óeðlilegt að forsrh. blandaði sér á sínum tíma í það mál með þeim hætti sem varð.

Það hefur oft komið fyrir í okkar þjóðfélagi að menn hafi lýst því yfir að það væri ástæða til að grípa inn í kjarasamninga með lögum. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að ríkisstj. segi þeim sem eru að starfa úti í þjóðfélaginu, þar á meðal aðilum vinnumarkaðarins, alveg skýrt og skorinort hver hennar stefna er og að hvaða markmiðum sé unnið og innan hvaða takmarka menn hafi svigrúm til að gera kjarasamninga. Ég held að það sé bæði heiðarlegt og rétt og þeir aðilar sem að þessu vinna eigi að fá fyrir fram að vita afstöðu og hug stjórnvalda.

Ég minnist þess að það hefur verið hótað lagasetningu án þess að það hafi verið nefnt á nafn af hálfu verkalýðsfélaga að boða til verkfalla. Ég minnist þess að ráðh. talaði um að það gæti að því komið að grípa yrði inn í með lagasetningu og höfðu engin verkföll þó verið boðuð. Þetta var þáv. hæstv. félmrh., nú hv. 3. þm. Reykv. Hann var einfaldlega orðinn þreyttur á samningaþófi og taldi vegna þreytu sinnar á að bíða eftir því að aðilar næðu samkomulagi í frjálsum samningum tilefni til þess að hóta því að grípa inn í samninga með löggjöf.

Ég minnist þess líka að hv. 7. þm. Reykv., í stöðu sinni sem formaður Verkamannasambands Íslands, taldi æskilegt og jafnvel óhjákvæmilegt að grípa inn í samninga með löggjöf og að lögfesta sáttatillögu. Sú skoðun fékk að vísu ekki hljómgrunn innan Alþýðusambandsins og varaformaður Verkamannasambandsins andmælti henni kröftuglega og taldi að það byði heim óeðlilegum afskiptum af frjálsum samningum. Allt þetta hefur gerst. Þessi ummæli eru miklu harkalegra inngrip og hótanir um lögþvinganir en nú hafa komið fram því að þau ummæli féllu án þess að nokkrar hótanir væru uppi hafðar um verkfallsboðun eða vinnustöðvun.

Ef við horfum síðan á efnisatriði varðandi aðild Íslenska álfélagsins að Félagi ísl. iðnrekenda er rétt að hafa ýmis atriði í huga.

Í fyrsta lagi erum við, eins og fram hefur komið í þessari umr., aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni, höfum undirgengist samþykktir hennar þar sem mjög skýrt er kveðið á um að það er óheimilt að leggja hindranir fyrir þátttöku launþega og atvinnufyrirtækja í samtökum vinnumarkaðar í viðkomandi landi. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að við virðum þessa samþykkt, þó að á sínum tíma hafi samkomulag verið gert á milli Alþfl. og Sjálfstfl. í viðreisnarstjórn þegar samningar um Íslenska álfélagið voru gerðir, og að þessum hindrunum sé aflétt í fullu samræmi við grundvallarreglur íslensks réttar um félagafrelsi og í samræmi við þær alþjóðasamþykktir sem við erum aðilar að, í þessu tilviki Alþjóðavinnumálastofnunin sem er ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Annað atriði sem skiptir máli í þessu sambandi er það, hvar úrslitavald um samninga liggur. Eins og sakir standa er það annars vegar hjá íslenskum verkalýðsfélögum sem eiga aðild að samningum og hins vegar er valdið úti í Sviss. Með því að þetta fyrirtæki gerðist aðili að vinnuveitendasamtökum væri búið að draga úrslitavald um niðurstöðu samninga frá Sviss til Íslands. Ég tel að það sé talsvert mikils virði að það sé gert. Og ég furða mig á því að talsmenn sósíalisma og verkalýðshreyfingar á Íslandi skuli andmæla því að úrslitavald um samninga á Íslandi skuli fært frá Sviss til Íslands. Það er furðuleg afstaða af hálfu þessara aðila í þjóðfélaginu.

Við skulum einnig horfa á þá staðreynd að samningar stórfyrirtækja af þessu tagi hafa veruleg áhrif á almennan vinnumarkað og önnur fyrirtæki sem starfa í nálægð þessara stóru fyrirtækja. Ég veit að hv. 7. þm. Reykv. er vel kunnugt um að það veldur ákveðnum erfiðleikum í nágrenni þessara stórfyrirtækja, hvort sem það er í Straumsvík eða á Grundartanga, þegar samningar fara þar fram. Það veldur erfiðleikum í fiskvinnslu og öðrum atvinnufyrirtækjum sem starfa í nálægð þessara fyrirtækja og hafa ekki sömu aðstæður til að gera og ganga að kjarasamningum. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að við gerum það að skilyrði, þegar við gerum samninga við erlent fyrirtæki af þessu tagi, að þau lúti hér almennum reglum og fari eftir þeim meginreglum í kjarasamningum sem hér eru í gildi og fylgi þeirri stefnu sem uppi er af hálfu atvinnufyrirtækjanna í landinu á hverjum tíma í kjarasamningum og brjóti hana ekki á bak aftur. Íslensk fyrirtæki sem starfa í samkeppni við þessi eiga mjög mikið undir því að þetta sé gert. Þetta veit ég að hv. 7. þm. Reykv. er mætavel kunnugt. Og ef við ætlum á næstu árum að gera samninga um fleiri fyrirtæki af þessu tagi verður það enn mikilvægara að við göngum svo frá öllum málum að þetta sé tryggt, enda mun það vera svo víðast hvar í heiminum, þar sem alþjóðleg fyrirtæki starfa, að innlend stjórnvöld gera fyrst og fremst þá kröfu til þessara fyrirtækja að þau fylgi í kjarasamningum þeirri almennu stefnu sem atvinnufyrirtækin í viðkomandi landi fylgja. Það er þjóðernisleg krafa, eðlileg krafa atvinnufyrirtækja í landinu að stöðu þeirra sé ekki raskað af erlendum fyrirtækjum og í þessu tilviki að launastefnunni í landinu sé ekki ráðið til lykta úti í Sviss.

Því er haldið fram einnig í þessari umr. að það muni breytast svo mjög aðstæður á íslenskum vinnumarkaði vegna þess að þessi fyrirtæki fái aðild að heildarsamtökum vinnuveitenda. Í hinu orðinu er því haldið fram að það sé verið að reyna að koma í veg fyrir að Íslenska álfélagið borgi hærra kaup en gerist og gengur á atmennum vinnumarkaði. Og því er haldið fram að afkoma þess sé með þeim hætti núna og hafi kannske jafnan verið eða yfirleitt, að þar hafi verið hægt að greiða hærri laun en almennt gengur og gerist. Á sama tíma og verið er að leggja áherslu á þetta setja menn hér á miklar ræður um að það sé verið að ógna verkalýðshreyfingunni í landinu með því að þessi fyrirtæki gangi inn í samtök vinnuveitenda. Hvað er að óttast ef það hefur komið fram og ef það liggur fyrir að þessi fyrirtæki vilja borga hærri laun en önnur fyrirtæki? Hvað hafa launþegar þá að óttast? Að þessi fyrirtæki komist til áhrifa í samtökum vinnuveitenda? Ég sé ekki samhengið í þessum málflutningi þegar þessar staðreyndir liggja fyrir.

Því er haldið fram að óeðlilegt sé að fyrirtæki í eigu ríkisins séu aðilar að kjarasamningum í samfloti og samvinnu með fyrirtækjum á almennum markaði og það sé verið að ögra verkalýðssamtökum með þeim hætti. Ég veit ekki betur en að ríkisvaldið sé nákvæmlega á sama hátt og aðrir atvinnurekendur vinnuveitandi í samningum um kaup og kjör og komi fram sem slíkir. Ég minnist þess fyrir ekki mörgum árum að þáv. ríkisstj., sem hv. 3. þm. Reykv. átti þá sæti í, snupraði vinnuveitendur fyrir að hafa gengið öllu lengra í samningum en ríkisstj. taldi eðlilegt og ríkisstj. hafði gert í samningum við opinbera starfsmenn. Þá fengu vinnuveitendur snuprur frá þeirri ríkisstj. sem hv. 3. þm. Reykv. átti sæti í. Þetta sýnir mér að það eru engan veginn til rök fyrir því að það sé verið að ögra verkafólki í landinu með því að þessi fyrirtæki séu og starfi innan samtaka vinnuveitenda á almennum vinnumarkaði.

Þá verðum við einnig að hafa það í huga í sambandi við þessar umr. að það skiptir miklu máli hvernig staðið er að launaákvörðunum í einu þjóðfélagi. Menn greinir stundum á um hvort efnahagsleg afkoma einstakra fyrirtækja eigi að ráða úrslitum í þeim efnum eða almenn efnahagsafkoma þjóðarbúsins. Ég held að við verðum að huga vel að okkar málum þegar við mótum okkur og mörkum stefnu að þessu leyti til. Það er tiltölulega auðvelt, þegar reynt er að brjóta ísinn í kjarasamningum á ákveðnum afmörkuðum vinnustöðum, að höfða til þess að aðstaða þess vinnuveitanda sé betri en annarra og þarna sé hægt að greiða launahækkanir. En ef menn ætla að beita þessum rökum verða menn að vera samkvæmir sjálfum sér. Þá liggur alveg í augum uppi að þeir sem halda þessu fram hljóta að vera þeirrar skoðunar að það eigi að lækka laun hjá sjómönnum og fiskvinnslufólki af því að það er halli á rekstri sjávarútvegsins á Íslandi. Ég held að það væri í óefni komið ef við ætluðum að byggja launaákvarðanir í þessu þjóðfélagi á þessum forsendum og með þessum rökstuðningi. Ég trúi því ekki að leiðtogar sósíalisma og verkalýðshreyfingar, sem sitja hér á hv. Alþingi, séu í raun og veru þessarar skoðunar. Og ég trúi því ekki að hv. 7. þm. Reykv. byggi „solidaritet“ á þessum hugmyndum. Ég held að það mundi ekki þjóna hagsmunum þeirra sem við kröppust kjör búa í þjóðfélaginu. Það er einmitt þess vegna sem það verður að liggja alveg ljóst fyrir af hálfu stjórnvalda hver er hin almenna stefna í efnahagsmálum og innan hvaða marka menn hafa svigrúm til að semja. Og ég er atveg sannfærður um að fólkið í landinu metur það sem áunnist hefur á undangengnum mánuðum. Það veit að það, eins og allir aðrir í þjóðfélaginu, hefur lagt mikið á sig og það hefur ekki náðst þrautalaust að komast á það stig sem við erum á í dag. Við höfum náð verulegum árangri. Ég er alveg sannfærður um að fólkið í landinu vill að áfram sé unnið á þessari braut. Ég er líka sannfærður um að fólkið gerir sér grein fyrir að stöðugt gengi íslensku krónunnar er miklu áhrifameiri kaupmáttartrygging en nokkurt vísitölukerfi, miklu áhrifameiri kauptrygging, enda hefur það komið fram að matvælaliður framfærsluvísitölunnar hefur nú lækkað í fyrsta skipti í 15 ár án þess að til komi stórauknar niðurgreiðslur. Þetta er árangur af þessari stefnu, árangur af því að okkur hefur tekist að halda gengi íslensku krónunnar tiltölulega stöðugu, og það er á þessum grundvelli sem við hljótum að vinna. Ríkisstjórn Ístands hlýtur að gera borgurum þessa lands alveg fullkomlega grein fyrir því að hvaða marki hún vinnur og hún má aldrei viðurkenna að hagsmunasamtökin í þjóðfélaginu hafi það ægivald að hún megi ekki og geti ekki skotið málum sínum til þjóðarinnar. Það er óeðlilegt, ólýðræðislegt og óþingræðislegt að halda því fram að hagsmunasamtök launþega og vinnuveitenda eigi að hafa það áhrifavald að ríkisstjórn landsins sé svipt þessum rétti og hafi ekki heimild til að gera þessum aðilum fullkomna grein fyrir sínum málum.

Þetta mál snýst auðvitað um það, hvort okkur tekst að halda hér áfram á þeirri braut, sem unnið hefur verið að, að ná jafnvægi í okkar þjóðarbúskap og leggja á þann veg grundvöll nýrrar atvinnuuppbyggingar, aukinnar framleiðslu og bættra lífskjara. Það snýst um þetta. Forustumenn Alþb. eru ekkert ásáttir við að við erum að ná árangri í þjóðfélaginu og það er möguleiki að gera hann að veruleika. Þeir vilja auðvitað efna til upptausnar í þjóðfélaginu. Það er einmitt þess vegna sem núna er reynt að nota þessa kjaradeilu í því skyni að efna til upplausnar. Það er draumur þeirra að koma ríkisstj. frá, ríkisstj. sem hefur komið á nokkurri festu og öryggi í þjóðfélaginu og á möguleika á að gera það að varanlegu ástandi. Tilgangurinn er að snúa þessu við, efna hér til þeirrar upplausnar að ríkisstj. fari frá, auðvitað með þeirri afleiðingu að verðbólgan æðir upp á nýjan leik, að við komumst á nýjan leik inn í þá ringulreið sem við stóðum frammi fyrir í vor sem leið. Og halda menn að það sé launþegum til hagsbóta, halda menn að í því ástandi mundi það gerast að matvælaliður framfærsluvísitölunnar lækkaði? Ég held ekki.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.