31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

146. mál, umhverfismál

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka félmrh. fyrir svör hans við fsp. og fagna þeirri yfirlýsingu að samstaða sé um umhverfismálin í ríkisstj. Eins og ég drap á áðan er hér um afar brýnt hagsmunamál okkar allra að ræða. Okkur er mikil nauðsyn að marka ákveðna stefnu í umhverfismálum með þessari löggjöf. Mikil vinna hefur þegar verið lögð í undirbúning að setningu laga um umhverfismál — vinna sem hefur dreifst á a.m.k. átta ár og væntanlega kostað mikinn tíma og nokkurt fé. Það væri mikill skaði ef tækist ekki að ná samstöðu um þessi mál á yfirstandandi þingi. Ég tel að nú sé einmitt rétti tíminn til aðgerða. Um þessar mundir eru í undirbúningi breytingar á stjórnskipan landsins og er þá tilvalið tækifæri til að koma skipulagi á umhverfismálin. Og ég tek undir þá skoðun síðasta ræðumanns að umhverfismálaráðuneyti er það sem koma skal.

Ég vona að þessar umr. hafi gefið til kynna vilja Kvennalistans í þessu máli og það gefst þá tækifæri til að ræða þessi mál nánar í tengslum við þau frv. sem til umfjöllunar verða væntanlega eftir nokkrar vikur.