31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

146. mál, umhverfismál

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir til flm. þessarar fsp. fyrir að vekja máls á þessu og ég vil fyrir hönd okkar Bandalagsmanna lýsa stuðningi við þessi mál og lýsa áherslu okkar á að á þeim verði tekið á þessu þingi. Það er viss uggur í brjósti okkar ef þetta mál kemur seint fram því að þá gæti lent í vandræðum með afgreiðslu þess.

Það er löngu komið að því að augu okkar Íslendinga opnist fyrir mikilvægi þessara mála. Á tveimur áratugum hafa umhverfismál tengst allri pólitík. Þau tengjast heimsmálum vegna auðlindanýtingar og skiptingar heimsins eftir auði og örbirgð, þau tengjast landsmálapólitík vegna mengunarmála og nýtingar fiskstofna, svo tekin séu dæmi. Þau tengjast sveitarstjórnarmálum vegna skipulagsmála, holræsamála, verndunar lands, verndunar minja, útivistarmála o.fl. Þannig mætti lengi telja og rekja dæmin um hvernig umhverfismál eru í raun komin inn á flest öll þau málasvið sem um ræðir.

Ég vildi koma hérna að, áður en ég hætti, því sjónarmiði mínu að um leið og löggjöf og stjórnsýsla í sambandi við umhverfismál eru mikils virði er af einstökum aðgerðum í þessum málum fræðslan allra mikilvægust. Við getum sett lög og við getum sett reglugerðir um nýtingu, um umgengni og fleiri og fleiri þætti, en ég held að þegar til lengdar lætur sé fátt náttúrunni meiri vörn en upplýstur þegn. Ég held að það sé langsamlega mikilvægasta aðgerðin í þessum málaflokki að efla fræðslu meðal almennings og stjórnvalda.