31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

148. mál, áhrif nýrrar tækni á íslenska atvinnuvegi

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. greinargóð svör og eins vil ég þakka honum sérstaklega það framtak sem hann hefur þegar sýnt með því að koma þessari könnun af stað. Af svörum ráðh. er það ljóst að auk annarra hluta í þessu stóra verkefni verður tekið tillit til mismunandi stöðu kynjanna gagnvart þeirri nýju tækni sem hér um ræðir og fagna ég því.

Hins vegar kom fram hjá ráðh. að engin kona situr í þessum starfshóp sem fulltrúi þeirra er kvennastörfin vinna og er það mjög miður. Ég skora á hæstv. ráðh. að ráða nú þegar bót hér á og ítreka það sjónarmið hversu mikilvægt það er að hugað sé sérstaklega að mismunandi stöðu kynjanna á þessum vettvangi.

Enn fremur fagna ég þeirri yfirlýsingu ráðh. að það sé hans vilji að hópurinn hraði störfum sínum sem frekast má verða og hann hafi aðstöðu til að leita fanga sem víðast. Það held ég að sé ákaflega mikilvægt. En ég vil að síðustu mætast til þess við hæstv. ráðh. að þær upplýsingar sem hópurinn safnar og þær niðurstöður sem hann kann að komast að berist jafnharðan til alþm., þannig að Alþingi gefist færi á raunverulegri stefnumótun í þessum mikilvægu málum.