31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

165. mál, sleppibúnaður björgunarbáta

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Þegar Sigmund Jóhannsson uppfinningamaður og teiknari hafði hannað nýjan sleppibúnað á gúmmíbjörgunarbáta og sá búnaður hafði verið reyndur fyrst, í febrúar 1981; lýstu helstu talsmenn í öryggis- og björgunarmálum þjóðarinnar því yfir að um byltingu væri að ræða varðandi öryggismál sjómanna, ekki aðeins byltingu á Íslandi heldur byltingu þótt víðar væri leitað. Þá tóku ákveðnir aðilar, svo sem rannsóknarnefnd sjóslysa, upp hanskann fyrir þennan búnað, stuðluðu að því að hann yrði kannaður og reyndur, og þróunin varð sú, að það voru gerðar nokkrar útgáfur af þessum sleppibúnaði gúmbjörgunarbáta og við ýmsar aðstæður var hann kannaður og prófaður á ýmsum stærðum skipa. Siglingamálastofnun viðurkenndi búnaðinn sama ár um sumarið og ýmsir tóku að láta setja þennan búnað í báta sína. Nær allir bátar Vestmannaeyjaflotans eru með þennan búnað, nær allir bátar á Hornafirði og einnig er búnaðurinn kominn í báta víða annars staðar.

Það var gerð fsp. á Alþingi fyrir tveimur árum um það, hverju sætti að ekki væri sett reglugerð um þennan búnað. Loksins kom reglugerðin 25. júní 1982. Það hefur síðan verið fremur hljótt um framkvæmd málsins. Þar sem um slíkt öryggistæki er að ræða, sem reyndustu talsmenn í öryggismálum sjómanna hafa lýst yfir, þá vekur það spurningar hvers vegna málið er ekki komið lengra á veg. Því hefur ekki verið fylgt eftir sem skyldi. Jafnhliða hefur verið leyfð uppsetning á búnaði sem ekki framfylgir þeim kröfum sem settar eru fram í reglum gefnum út af rn. Ég á þar við að samkv. þeim reglum sem eru í gildi á að vera sjálfvirkur sleppibúnaður með viðurkenndum sjóstýribúnaði, eins og það er orðað, þ.e. búnaðar sem á að losa gúmbjörgunarbát ef mannshöndin kemst ekki að honum.

Því hef ég lagt fram fsp. til samgrh. um hverju það sæti að leyft sé að setja búnað um borð í íslensk fiskiskip sem fullnægi ekki þeim kröfum sem besta tækið býður og á hinn bóginn um hvað líði að framfylgja þeim reglum sem settar hafa verið um uppsetningu á búnaði sem er ekki verri en sigmundsbúnaður. Vænti ég að fá svör við þeim spurningum hjá ráðh.