31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

165. mál, sleppibúnaður björgunarbáta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að tala hér um tæknihlið þessa máls. Ég svaraði aðeins þeirri fsp. sem hér liggur fyrir og það svar sýnir að allmikið hefur gerst í sambandi við þennan sjósetningarbúnað, þar sem hann er þegar kominn í um 400 skip. En varðandi tæknihlið málsins og það sem snýr að Siglingamálastofnun, þá spurðist ég fyrir um það hjá siglingamálastjóra og hann gaf mér eftirfarandi svar, sem ég ætla að láta hér koma fram:

„Siglingamálastofnun ríkisins leyfir enn þá uppsetningu búnaðar þess sem Sigmund Jóhannsson hannaði og framleiddur er af vélsmiðjunni Þór hf. í Vestmannaeyjum þótt hann fullnægði ekki í öllum atriðum þeim kröfum sem gerðar eru til sjósetningarbúnaðar. síðan þessi búnaður kom á markaðinn hefur verið unnið að ýmsum endurbótum á honum og þeim er enn þá ekki lokið. Það hefur verið ljóst um allnokkurn tíma að belgurinn sem blæs út og hreyfir sjósetningargálgann þolir ekki að vera samanbrotinn til lengdar. Hann veðrast, springur og verður lekur og þar með óvirkur. Síðan í sept. 1983 hefur vélsmiðjan Þór hf. leitað eftir belgjum sem þolað gætu veðrun og frost. Slíkur belgur hefur nú verið framleiddur sem sýnishorn erlendis og hefur reynst þola að blásast út í frosti án þess að springa. Vélsmiðjan Þór hf. mun því væntanlega skipta um belgi í öllum þeim sjósetningarbúnaði af þeirri gerð sem þegar hafa verið settir í íslensk skip.

Siglingamálastofnun ríkisins hefur þó ekki talið rétt að draga til baka heimild til að setja upp þennan búnað frá Vélsmiðjunni Þór hf. í Vestmannaeyjum í íslensk skip, því að þótt belgurinn kynni að vera orðinn lekur ef á þyrfti að halda í neyð er samt hægt að koma gúmmíbátnum í sjóinn á hefðbundinn hátt án þess að sjósetningarbúnaðurinn sé virkur. Hins vegar er þess vænst að vélsmiðjan Þór hf. muni fljótlega geta afgreitt nýja gerð af belgjum sem uppfylla muni kröfur til viðurkenningar hjá Siglingamálastofnun ríkisins.

Önnur gerð sjósetningarbúnaðar gúmmíbjörgunarbáta hefur verið hönnuð og framleidd af Vélsmiðju OI. Olsen hf. í Njarðvík. Þar er notaður samanþjappaður stálgormur sem aflgjafi til sjósetningarinnar. Þessi búnaður hefur verið prófaður við 60 gráðu halla í gagnstætt borð við sjósetningu, eins og reglurnar krefjast, og með ísingu, og búnaðurinn hefur reynst standast þær kröfur sem Siglingamálastofnun ríkisins hefur gert. Þótt prófanir þessa búnaðar hafi staðfest nothæfni hans, þá hefur Siglingamálstofnunin krafist vottorðs frá erlendum framleiðanda gormanna um efnisgæði og fleira.

Þá hefur sjósetningarbúnaður sem Stálvík hf. Garðabæ hefur hannað hlotið viðurkenningu Siglingamálastofnunar ríkisins að afloknum prófunum nú í jan. 1984.“

Það sem ég nú hef sagt eru upplýsingar frá siglingamálastjóra.

Í sambandi við þau orð sem hv. fyrirspyrjandi lét falla, þá skal ég fúslega taka undir að allt það sem lýtur að öryggi sjómanna og sjófarenda lít ég opnum augum og allar ábendingar sem fram koma og að gagni mega verða munu verða teknar til vinsamlegrar athugunar og ákvörðunar hverju sinni. Ég tel að allmikið hafi áunnist á þessum tíma þar sem þessi sjósetningarbúnaður er þegar kominn í 400 skip og framleiðendur hafa ekki við að framleiða til að fullnægja pöntunum. Ég vona að úr þessu rætist og að málum þoki vel áfram á nýbyrjuðu ári.